6
Hann er Guð.
Ó Drottinn, Guð minn, ástvinur minn, takmark og þrá hjarta míns! Þetta er að sönnu fyrsti dagur Riḍván. Hann er kominn með gleði og unaði, sælu og algleymi. Vindarnir blása, skýin fella regn sitt og sólin skín af ríkulegri náð Þinni. Andvari dagrenningar berst yfir hæðir og dali á þessu dásamlega vori sem tákn um óviðjafnanlega hylli Þína og breytir landinu í fagran glitvefnað með óviðjafnanlegum litbrigðum og í silkimjúka ábreiðu stráða blómum. Jörðin hjúpast gróðri og laufþykkni sem heillar augun með glitrandi ljósbliki. Blíður andvari berst yfir, logntærir lækir streyma og engjalöndin prýðast blómum, gróskumiklir skógarlundar blasa við, skýin eru hlaðin regni og stjörnurnar tindra af náðarsamlegri forsjón Þinni. Hylli Þín og gjafir hafa gert þessa rykhrúgu dauðlega heimsins græna og gróðursæla, skínandi af gnægtum Þínum, og jörðin er orðin að eilífri paradís sakir miskunnar Þinnar, Guð minn, því að Riḍván dagur Þinn er upp runninn í tign og fullveldi og ljós hans flæðir um sköpunarverkið eins og frá tindrandi stjörnu, og honum fylgir fagnaður og eldmóður. Riḍván sló upp tjaldi sínu í töfrandi prýði mitt í hjarta heimsins og leiddi herskara sína og liðssveitir til ystu marka paradísar.
Þannig hafa hjörtu ástvina Þinna fyllst gleði og hrifningu og orðið frá sér numin af hamingju og sælu yfir ljúfum ilmi Þínum. Þeir hafa risið upp með þrá og eftirlöngun til að vegsama Þig „og drekka tæran drykk sem Drottinn þeirra mun gefa“. Lof sé Þér, Guð minn, fyrir allt sem Þú hefur gefið okkur af náð Þinni. Þökk sé Þér, ó von mín, fyrir hyllina sem Þú hefur veitt okkur. Blessun hvíli yfir Þér, ó ástvinur minn, fyrir þær góðu gjafir sem Þú hefur kosið að veita okkur.
Ó Guð, Guð minn! Ó Þú sem ert markmið þrár minnar! Opna hlið Þín fyrir ástvinum Þínum á þessum heillaríka degi. Drag upp yfir höfðum þeirra segl leiðsagnar í örkinni fagurrauðu. Safna þeim saman undir fána tignar Þinnar og örlætis og send yfir þá tákn náðar Þinnar í hjarta sköpunarinnar. Drottinn Guð minn! Ger þá að geislandi stjörnum, ljómandi lömpum, lýsandi stjörnum og logandi vígahnöttum, svo að þeir geti risið upp til að þjóna Þér meðal skepna Þinna, kveikt eld ástar Þinnar í hjörtum fylgjenda Þinna, dreift táknum Þínum um öll ríki Þín og uppfrætt sálir allra sem á jörðinni búa. Þá mun himnesku veisluborði Þínu verða slegið upp um allan heim, þessi stundlega veröld verða Abhá-paradís í krafti máttar Þíns og dustið hér hið neðra verða öfundarefni hinna hæstu himna sakir úthellingar visku Þinnar.
Drottinn! Ger ástvini Þína að himneskum englum sem dvelja á jörð Þinni og Þínum útvöldu kleift að verða himneskur lýður sem dvelur í ríki Þínu. Þetta er sannarlega æðsta þrá þjóns Þíns sem hefur auðmýkt sig frammi fyrir fullveldi Þínu, hneigt sig í tilbeiðslu fyrir dyrum Þínum, knékropið dýrð þinni og fallið í duftið frammi fyrir krafti yfirbjóðandi máttar Þíns. Þú ert hinn gjafmildi, hinn miskunnsami, hinn almáttugi og algjöfuli.
Ó, þið andlegu vinir ‘Abdu’l‑Bahá! Á þessari stundu, þegar stjarna Riḍvánhátíðarinnar tindrar yfir sjónarhring sköpunarinnar og allur heimurinn er umvafinn sælu og eldmóði, er tími fagnaðar og sælu, gleði og algleymis og opinberunar þessa mikla dags. Tími er kominn til að gleðjast og fyllast hamingju í hjarta og sál, tími fyrir tónlist og söng, fyrir strengjaslátt á hörpu og lútu. Tákn gleðinnar eru augljós á alla vegu og ljós algleymis skín í allar áttir. Ástvinir Drottins eru alsælir og Hans útvöldu geisla af hamingju, því að þetta er dagurinn þegar Hið mesta nafn hélt frá borg Guðs í Írak og gekk inn í garðinn skínandi af ljósum. Á þessum dásamlega degi stafaði svo óumræðileg gleði frá Ástvininum að ljósið frá henni flæddi um um allan heiminn. Á þessum dýrðlega degi vegsamaði allt sköpunarverkið orð Guðs.
Þess vegna verðið þið allir, ástvinir Guðs, að fagna og fyllast slíkri gleði á þessari blessuðu hátíð að þetta ríki tilverunnar bifist og bærist. ‘Abdu’l‑Bahá gleðst yfir þessum dásamlegum tíðindum og biður þess í fyllstu auðmýkt og innileika við fótskör Abhá fegurðarinnar að Hann megi færa hverjum og einum vinanna gleði og veita þeim unað og hamingju.
Það er von okkar að á ári komanda muni vinir Hins almiskunnsama sem búa í frjálsum löndum leggja grunninn að Mashriqu’l-Adhkár í anda gleði og geislunar og vegsama fegurð Hins óhefta skýrt og opinskátt og fara með skyldubænina, því að í ríki tilbeiðslunnar eru fasta og skyldubæn tvær sterkustu stoðir heilags lögmáls Guðs. Að vanrækja þær er á engan hátt leyfilegt og að slá slöku við þær er vissulega ósæmandi. Í vitjunartöflunni segir Hann: „Ég sárbæni Guð við Þig og þá, sem hafa uppljómast af geisladýrð ásýndar Þinnar, og þá sem vegna ástar á Þér hafa haldið hvaðeina sem þeim var boðið.“ Hann lýsir því yfir að hlýðni við boð Guðs spretti af ást til fegurðar Ástvinarins. Mikil þrá grípur leitandann, þegar hann er umlukinn úthafi ástar Guðs, og hann mun rísa upp til að hlýðnast lögum Guðs. Þannig er ómögulegt fyrir hjarta að varðveita ilm ástar Guðs og láta þó undir höfuð leggjast að tilbiðja Hinn sanna nema við aðstæður þar sem slíkt myndi espa upp óvinina og valda ósætti og misklíð. Annars mun elskhugi Abhá fegurðarinnar án efa sýna stöðuga þrautseigju í tilbeiðslu til Drottins.
Ó, ástvinir Guðs! ‘Abdu’l‑Bahá er í mikilli hættu vegna svikabragða óvinanna og þess sundurlyndis sem höfuðpaur undirróðurs hefur valdið. Hvað sem kann að gerast, stórt eða smátt, má enginn ásaka nokkra sál. Allir slíkir atburðir stafa af uppreisn og deilum höfuðpaurs undirróðurs. Ég bið Guð um að gera honum kleift að iðrast og snúa aftur til sáttmálans og erfðaskrárinnar því að annars mun hann með tímanum bíða augljóst tjón. Um þessar mundir íhugar hann hvernig finna megi undankomuleið og flýja landið helga svo að hann geti valdið meiri óskunda og bakað með flótta sínum þessum þjóni og ástvinum Guðs meiri þjáningum og vandræðum. Hann sveifst einskis og hvatti til óhæfuverka og skapaði ósætti með öllum ráðum sem honum voru tiltæk, breiddi út ósannindi og dreifði rógi og lastmælum. Flótti er eina úrræði hans nú sem komið er. Til þess úrræðis mun hann grípa sjálfum sér til háðungar og valda þannig mikilli hneisu og skelfilegu uppnámi. Gæfist honum tækifæri myndi hann ekki seinka flóttanum eitt andartak en honum veitist erfitt að ljúka því áformi. En ef það gerist verða ástvinir Guðs ætíð að vera vakandi og meðvitaðir og vera alls staðar á varðbergi svo að hann rjúfi ekki skarð í málstað Guðs og dreifi stækum dauni óvináttu og andúðar. Allt frá uppstigningu Hinnar blessuðu fegurðar til dagsins í dag hefur hann gert allt til að skaða málstað Guðs. Nú skipuleggur hann líka þennan viðurstyggilega og ámælisverða verknað.
Á þeim tíma ætluðu nokkrir áhrifamenn að fá ‘Abdu’l‑Bahá lausan úr fangelsi. Þeir voru fullfærir um það. En í svari sínu sagði þessi þjónn: „Þetta borgvirki er fangelsi Abhá fegurðarinnar. Hann var hér í hartnær tuttugu og fjögur ár. Ég hef því enga löngun til að losna úr þessu fangelsi né leita lausnar. Nei, ég sækist öllu fremur eftir nýrri fangavist og þrái í einlægni að verða varpað í enn verra fangelsi. Orð mín gerðu þessar sálir ráðvilltar. En ætlun mín var að koma þeim í skilning um að fyrir okkur á vegi Drottins er fangelsi eins og konungshöll og svartasta prísund eins og hæsti himinn. Þetta er sannarlega ótvíræður veruleiki. Þetta er sannleikur og allt annað en augljós villa.
Höfuðpaur undirróðurs elur með sér vonir um að þegar hann hefur úthellt blóði þessa fanga, geti hann loks fundið vettvang þar sem hann getur hvatt fák sinn úr sporum. Vei svo fánýtum ímyndunum, svo hégómlegum hugarburði! Því sjá, sumar ímyndanir eru alvarleg synd. Þeir sem eru drukknir af víni sáttmálans eru þreyttir á undirróðursmönnunum og þeir sem leita leiðsagnar frá ljósi opinberunar forðast illgerðarmennina. Jafnvel þó að næturgali trúfestinnar taki flugið til garðs eilífðarinnar, mun aðgætin sál aldrei gefa gaum að krunki hrafnsins eða gargi krákunnar. Og jafnvel þótt blæjan hylji fagra ásjónu myndi enginn vitiborinn maður virða ófrýnilega ásýnd viðlits. Enginn myndi nokkru sinni gera slíkt nema sá sem reynir að efna til undirróðurs og er rúinn skilningi og skynsemi. Megi Drottinn verja ykkur og vernda gegn illsku hinna óguðlegu og klækjum þeirra sem hafa brotið sáttmála Hans.
Ó, ástvinir Drottins! Verið sameinuð, standið saman og haldið í trausta handfestu sáttmálans. Notið krafta ykkar til að upphefja orð Guðs, svo að ljós sannleikans megi umlykja alla sköpunina og myrkur haturs og villu verði flæmt á brott að fullu og öllu.
Ef skaðinn sem höfuðpaur undirróðurs hefur valdið beindist eingöngu að þessum þjóni og hatur hans einskorðaðist við þennan rangtleikna fanga, þá sver ég við hinn eina sanna Guð að ég hefði ekki sagt eitt einasta orð um falsrit hans og lastyrði. En hvað er til ráða? Því að hann hefur falsað orð Guðs, leitast við að grafa undan trú Guðs og rofið sáttmála Guðs. Hefði ég ekki reynt að vekja vinina með því að eyða efasemdum með nokkrum orðum hefði trú Guðs tapast með öllu. Ég sver við Guð sem á sér engan jafningja. Ég hef engin úrræði önnur en að skrifa þessi fáu orð, að öðrum kosti hefði þessi þjónn aldrei samþykkt að segja eitt einasta slæmt orð, jafnvel gegn grimmustu óvinum sínum.
Þrátt fyrir allt sem liðið er, bið ég enn heitt og innilega og sárbæni Guð um að hann bindi enda á þessa barnalegu leiki, hverfi frá ranglæti og uppreisn, iðrist og gangi inn í forsælu sáttmálans. Ég sver við hinn eina sanna Guð! Ég myndi þá sýna honum fyllstu ást og góðvild, ekki segja orð um hið liðna og enga skyldu leggja á hann nema hann leiðrétti það sem hann falsaði í hinum helga texta.
Vissulega er grundvallaratriði í lögmáli Guðs að ástvinir Hans umgangist allar þjóðir og ættkvíslir jarðarinnar af fyllstu gæsku, vináttu og einingu og með sannsögli, einlægni og trúmennsku. Þeir mega ekki á neinn hátt hegða sér gagnvart öðrum með hætti sem fer í bága við þessa órjúfanlegu meginreglu, að undanskildum honum sem er holdgervingur fjandskapar og ætlar að eyðileggja lögmál Guðs. Fyrir slíkar sálir duga engin úrræði. Ekki ætti að gefa þeim neitt svigrúm til að hampa sjálfum sér og fara sínu fram. Því annars myndu þeir gera að engu dýrðlegt píslarvætti Bábsins, úthellingu hins hreina blóðs allra píslarvottanna og þær raunir, þjáningar og fangelsi sem Hin geislandi fegurð þoldi í hartnær fimmtíu ár. Þeir myndu með öllu umturna voldugum undirstöðum málstaðar Guðs.
Þess vegna ætti að forðast félagsskap þessa fólks og enginn ætti að umgangast það nema það geri yfirbót gagnvart Guði. Drottinn minn er sannarlega miskunnsamur og sá sem fyrirgefur. Slík iðrun verður þó að vera einlæg og ekki aðeins í orði. Iðrun höfuðpaurs undirróðurs fælist í því að hann leiðrétti allt sem hann hefur rangfært í textanum, játaði það sem hann hefur gert og bæði Guð fyrirgefningar og afláts. Því að dag einn kom hann að máli við ‘Abdu’l‑Bahá fyrir milligöngu ‘Alí-Akbar. Hann lokaði hurðinni, játaði brot sín og baðst fyrirgefningar á þeim. Þessi þjónn fyrirgaf honum vissulega, en eftir nokkra daga kom í ljós að þetta var aðeins enn eitt af svikabrögðum hans. Raunveruleg ætlun hans var að hitta tiltekna einstaklinga í einrúmi og sá fræjum efans í hjörtu þeirra, því vinirnir höfðu forðast félagsskap hans. Það sem máli skiptir er að sanna iðrun verður að greina frá falsi. Aðeins þá er hægt að samþykkja hana. Heill fylgi ykkur og árnaðaróskir.
Skýringar
Mírzá Muḥammad-‘Alí, hálfbróðir ‘Abdu’l‑Bahá.