5
Ó þjónn hins eina sanna Guðs! Þegar bjarmaði af Morgni guðlegrar leiðsagnar yfir hinum æðsta sjónarhring, færðu geislar Hans mikil fagnaðartíðindi og boðuðu komu Abhá fegurðarinnar, eins og fram kemur með skýrum hætti í Qayyúmu’l-Asmá’.
Í Bayáninum nær allt sem skapað er fyllingu sinni með þessum undursamlegu og dýrðlegu orðum: „Upprisudagurinn er tíminn frá því að sól Bahá rennur upp og þar til hún gengur til viðar.“ „Varast, varast að Váḥid Bayánsins útiloki þig eins og með blæju frá Honum. Og varast, varast að það sem sent hefur verið niður í Bayáninum hylji þig Honum eins og blæja.“ Bábinn er sjálfur meðal Váḥid Bayánsins: Bókstafir Hins lifanda eru átján og Hann er sjálfur hinn nítjándi. Einn af bókstöfum Hins lifanda er Quddús, og um hann segir Bábinn að speglar, þrettán Váḥid að tölu, hvíli í skugga hans.
Segið því við þá sem eru huldir blæjum: „Hinn upphafni hefur ítrekað varað ykkur við að láta fylgispekt við Hann eða það sem hefur verið opinberað í Bayáninum hylja ykkur líkt og með blæju frá fegurð Drottins. Samt hafið þér, hinir fávísu, háreysti í frammi á alla vegu. Einn segir: ‚Hvar kemur Hann sem Guð mun birta?‘ Og annar hrópar: ‚Hvar eru hallir Hans?‘ Einn spyr: ‚Hvar er frumskóli Hans sem Guð mun birta?‘ Og enn einn heimtar svar: ‚Hvar er vagga upprisu Hans?‘“
Sjálfur segir Bábinn: „Varist að Váḥid Bayánsins og það sem er opinberað í Bayáninum komi líkt og blæja milli Hans og yðar.“ Og þrátt fyrir þetta hafa hinir fávísu haldið fast við ytri merkingu helgiorðanna og notað þau sem átyllu til að andmæla Fegurðinni óviðjafnanlegu sem allur Bayáninn var opinberaður til að lofa og vegsama. „Hvað gengur að þessu fólki að það fái ekki skilið það sem sagt er?“ Hann hefur einnig sagt: „Ef Hann birtist á þessari stundu yrði Ég fyrstur til að vegsama Hann.“ Og enn og aftur: „Árið níu munuð þér öðlast allt sem gott er.“ Og þannig má halda áfram.
Íhuga fyrst á hvaða forsendum þeir dæmdu Bábinn, Hinn upphafna, til dauða – megi lífi mínu verða fórnað Honum! Mullá Muḥammad-i-Mamaqání hrópaði: „Ó fólk! Í Kóraninum segir Guð: ‚Enginn vafi leikur á þessari bók: Hún er leiðsögn hinum guðhræddu‘ – það er að segja, hún leiðir allt mannkyn á rétta braut. Einnig er skýrt tekið fram: ‚En Hann er postuli Guðs og innsigli spámannanna.‘ Hvernig getum við litið á svo skýr orð sem uppsprettu villunnar, þegar þau eru leiðsögnin sjálf? Þessi maður sem kveðst vera afkomandi spámannsins hefur í raun rústað þeim grunni sem Hann lagði!“ Síðan nefndi hann lagagreinar Bayánsins eina af annarri, sem síðar voru felldar úr gildi í Kitáb-i-Aqdas. Því næst skipaði hann að fjarlægja skyldi táknið um göfugt ætterni Bábsins af höfði Hans og felldi yfir Honum dauðadóm án minnsta hiks og af mestu meinfýsni.
Seg: Hvað var gyðingum efst í huga annað en bókstafur Gamla testamentisins þegar þeir prýddu krossinn með líkama Ástvinarins og sviptu sig þannig náð og miskunn Messíasar? Þeir héldu fast við bókstaflegan texta Gamla testamentisins en voru áfram huldir Honum sem opinberaði textann. Farísearnir, sem voru meðal mestu lærdómsmanna þeirrar aldar og hringrásar, kölluðu Krist ekki Messías [Masíḥ] heldur skrímsli [Masíkh]. Fögur og undursamleg ásýnd Hans var í þeirra augum ill og ófrýnileg. Þetta er leiðin sem mennirnir fara þegar sól heimsins rennur upp.
Þegar andvari opinberunar Múhameðs bar ilm Hans yfir Mekka og Medínu og endurlífgandi andi guðlegra kenninga færði Arabíuskaganum himneskan vortíma, héldu kristnir guðsmenn einnig fast við bókstafinn í skýrri bók Guðs og voru áfram sviptir ljósi sólarinnar sem skein frá ríki himinsins. Því samkvæmt bókstaflegum texta heilagra gleðitíðinda guðspjallsins kemur enginn eftir Krist. Prestarnir og kennimennirnir héldu fast við þessi orð og byrgðu sig áfram fyrir ljósi fullvissunnar sem skein frá sjónarhringnum bjarta.
Í stuttu máli, á degi opinberunar hins guðdómlega ljóss, héldu þjóðir heimsins undantekningarlaust fast við bókstaf helgiritanna og sviptu sig þannig náð Hins alvalda. Og það sem verra er, flestir guðsmannanna notuðu túlkun sína á helgiritunum til að kveða upp dauðadóm yfir þessum einvöldum allrar tilveru, þessum ljósberum sýnilegu og ósýnilegu ríkjanna. Lítil ástæða er þó að undrast að þessar þjóðir hafi hulist Drottni sköpunarinnar, því heilagar bækur þeirra og ritningar geymdu ekki þau skorinorðu ráð og afdráttarlausu hvatningar sem finna má í Bayáninum.
Bábinn – megi lífi mínu verða fórnað Honum – gaf þó engri sál ráðrúm til hiks eða efa. Hann fjarlægði blæjurnar fullkomlega. Í öllum texta Bayánsins lýsti Hann því skýlaust og opinskátt yfir að markmið allra ritninga og helgirita væri ekkert annað en Hið æðsta ljós. Hann áminnti mennina og sagði þeim að varast að láta texta bókarinnar eða þeirra eigin túlkanir á helgum orðum hylja sig ljósi heimsins. Voru ráðleggingar og áminningar eins og þessar nokkru sinni opinberaðar í Gamla testamentinu, guðspjöllunum eða heilögum Kórani? Nei, sem Guð er réttlátur! Þetta mesta trúarkerfi á sér enga hliðstæðu því að Hin upphafnasta fegurð, morgunn guðlegrar leiðsagnar – megi lífi mínu verða fórnað Honum – hefur slitið sundur allar hyljandi blæjur og opnað skýra og greiðfæra braut leiðsagnar.
Hvar var þetta rangláta fólk þá að finna í kjölfar píslarvættis þessa Leyndardóms tilverunnar, þessarar dýrðlegu veru? Hver og einn hafði skriðið inn í afkima eilífrar niðurlægingar, snúið baki bæði við vinum og ókunnugum og földu sig fyrir öllum fullir kvíða og skelfingar allt fram til þess er Hin aldna fegurð, Hið mesta nafn – megi lífi mínu verða fórnað ástvinum Hans – hóf upp málstað Guðs og gerði hann vegsamlegan. Það var þá sem þessir læðupokar skriðu fram úr felustöðum sínum og höfðu sig í frammi. Á örskammri stund efndu þeir til uppnáms, hófu á loft hatursfána og vörpuðu sér þannig í afgrunn hörmulegra kvala. Ekkert heyrist til þeirra lengur, ekki minnsta muldur.
Lítum til nýlegri atburða. Þegar ógn sverðsins hékk yfir þessum útlögum, náðu konungur píslarvottanna og ástvinur píslarvottanna – megi lífi mínu verða fórnað þeim báðum – ásamt öðrum píslarvottum hátindi æðstu fórnar. Píslarvottarnir í Yazd voru slitnir í sundur og þeir í Khurásán brenndir til bana og dufti þeirra og ösku dreift út í vindinn. Þetta gerðist líka í Shíráz og öðrum landshlutum. Á sama tíma útskúfaði leiðtogi þessa villuráfandi fólks Bábinum frá predikunarstólum í Iṣfahán og Teheran. Verður því líka neitað þótt það hafi verið á hvers manns vörum í báðum þessum borgum?
Nú þegar hann sér og heyrir hvernig lofsöngur málstaðar Guðs hefur hrifið austrið og vestrið, hvernig frægð Hins mesta nafns hefur borist um norðrið og suðrið, hvernig máttur orðs Guðs hefur bifað valdhöfum heimsins og hvernig hið guðdómlega kall, sem flutti gleðitíðindi andans, hefur örvað og endurlífgað heim mannkynsins – er hann enn einu sinni kominn úr felum. Hann hefur valdið miklu fjaðrafoki, látið á sér bera og lýst þessu yfir: „Við erum fylgjendur Bayánsins og hornsteinn þessarar voldugu byggingar.“
Fjarri, fjarri er þetta öllum sannleika! Hvar var þetta fólk fyrir nokkrum árum? Hver þeirra hefur nokkurn tíma bergt þrengingabikarinn eða sýnt minnstu viðleitni á vegi Hins upphafna? Ekkert hefur komið frá þeim nema höfnun og afneitun, ekkert hafa þeir sýnt annað en lesti og siðleysi. Sem Guð lifir, Hann sem á sér engan jafningja! Væri nú efnt til prófraunar eða réttarhalds, mynduð þið strax sjá þá stíga upp í predikunarstólinn og hrópa: „Við höfum ekkert saman við þá að sælda!“ Nei, þeir myndu formæla og svívirða málstað Guðs.…
Hugleiðið hvernig logandi vígahnöttur sáttmálans hefur níst hjarta heimsins. Sjáðu geislana sem streyma frá ríkinu ósýnilega yfir lönd Slafa og Tyrkja.Úthell ljósi yfir austrið,dreif ilmi um vestrið,færðu Slafanum ljós,og Tyrkjanum líf.Og samt hafa þessir afneitarar skriðið inn í sinnuleysishella sína eins og leðurblökur næturinnar og afneitað tilvist sólarinnar. Hversu vel var hér ekki komist að orði:Sé þessi morgunn nefndur nóttin svarta,nær sjáandinn ekki að greina ljósið bjarta?
Nei, sem Drottinn er réttlátur! Áður en langt um líður munt þú heyra þennan herlúður hljóma og hvella tóna trompetsins berast frá herskörunum á hæðum. Dýrð sé Drottni mínum, hinum aldýrlega! Heill fylgi þér og árnaðaróskir.
Skýringar
Tafla Bábsins til Mullá Báqir-i-Tabrízí.
„Spegill“ var titill sem Bábinn gaf nokkrum fylgjendum sínum.
Sjá Kitáb-i-Aqdas, ⁋175 og skýringu 185.
Vísun til Mírzá Hádíy-i-Dawlat-Ábádí.
Sbr. ljóð eftir Abu’ṭ-Ṭayyib al-Mutanabbí.