4
Hann er hinn aldýrlegi.
Ó ástvinir Hins miskunnsama! Abhá fegurðin hefur skinið með margvíslegum nöfnum sínum og eiginleikum frá dagsbrún allra eftirlangana. Hann hefur látið þessa dýrlegu öld opinbera undursamlega náð sína með birtunni af þessu nýja ljósi og kveikt á kerti einingar í heiminum. Með ljúfum hljómblæ einleikans og himneskri tónfegurð sem kunngerir guðdómlega einingu, hefur Hann sungið á greinunum í garði innri merkinga til að kveðja saman dreifðar þjóðir heimsins í forsæluna af orði Guðs og safna óvinveittum og deilugjörnum ættkvíslum jarðar saman í einingu og sátt undir tjaldhimni ástar Guðs. Sakir þessa upphafna markmiðs, þessa heilaga og augljósa áforms, varð brjóst Hans skotmark fjölmargra válegra skeyta og Hann tók fagnandi og undirgefinn við öllum þeim áverkum sem Honum voru veittir eins og væru þeir græðismyrsl.
Hann hvíldist ekki eitt andartak, ekki eitt augnablik fann heilagt hjarta Hans ró. Marga nótt hvíldu þungir hlekkir á öxlum Hans og fram til morguns þoldi Hann ótal erfiðleika líkt og bandingi sem er handsamaður í óvinalandi. Hann mætti skeytum ranglætis með skotmarki trúfestinnar og bergði eiturbikar þrenginga eins og hunangssætan drykk ódauðleikans. Hann kyssti hvasst eggjárnið eins og væri það barmafullur bikar og þráði skelfingu prísundarinnar eins og ástríkan faðm. Hann var gerður útlægur úr landi sínu og varð förumaður í eyðimörk mótlætis. Hann var sendur til Íraks og Adríanópel og að lokum hrepptur í fangelsi í hinni ömurlegustu allra borga. Þrátt fyrir allar þessar þungu raunir og sáru þrengingar, gróðursetti Hann loks tré einingar í paradís þessarar nýju hringrásar og sló upp tjaldbúð einingar, friðar og sátta ofar hinum hæstu gunnfánum.
Þá rann upp vonarmorgunn og sól sannleikans tók að skína. Hún úthellti ljósi sínu yfir öll lönd og yfir þau barst blíður andvari morgunsins. Fagnaðartíðindi opinberunarinnar voru kunngerð og skínandi eldstólpi stóð upp af hinum brennandi þyrnirunna. Herskarar leiðsagnar og voldugar öldur á hafi einingar gengu á strendur sundurlyndis og vörpuðu hvarvetna dýrmætum perlum einingar og samhljóms. Vorið guðdómlega umvafði jörðina, himnesk blóm sprungu út, regn vorsins féll og lífgefandi vindar blésu á alla vegu uns allir að lokum fylltust von um að fegurð einingarinnar felldi blæjuna frammi fyrir lýðum heimsins og að birtan frá ásýnd hennar skini í fullum ljóma um alla veröld.
Rísið því upp, ó ástvinir Drottins og vinir Guðs, og af öllum eldmóði hjartna ykkar, af allri ákefð sálna ykkar, leitist við að hefja upp merki einingar í hjarta veraldarinnar og látið haf einingarinnar brima af hetjulegum krafti. Þannig getur mannkynið losnað undan ánauð þessara margbreytilegu kyrtla og stagbættu klæða og klæðst þess í stað helguðum klæðum einingar.
Þetta er höfuðáform og raunverulegur tilgangur með opinberun spámannanna, komu hinna útvöldu og rísandi sólar veruleikans í þessu æðsta trúarkerfi Konungs dýrðarinnar. Verði þessu háleita markmiði ekki náð, verði þetta áform hins aldýrlega Drottins ekki að veruleika og birtist ekki meðal mannkyns, mun þessi mikla hringrás reynast fánýt og þetta volduga trúarkerfi ekki bera ávöxt. Guð gefi að öll verk megi helga því að treysta bönd einingar og samstöðu.
Dýrð Guðs hvíli yfir öllum sem eru staðfastir í sáttmálanum og halda fast við þessa heilögu erfðaskrá, sem Guð verndar gegn allri misklíð og sundurlyndi.