3
Guð er hinn aldýrlegi.
Ó, sannir vinir og elskendur Guðs! Ljósið á kertinu logar og skín og öld Abhá fegurðarinnar er líkt og rósagarður í fullum blóma. Dagur Abhá-ríkisins er runninn upp og stjörnur hinna himnesku herskara tindra og blika. Blíður andvari berst frá engjalöndum Drottins og ljúf angan frá görðum heilagleikans. Himneskir söngvar frá ríki dýrðar hljóma á alla vegu og ákall liðsveitanna á hæðum nær eyrum hinna smáu og lítillátu. Sól guðdómlegrar hylli hefur risið í allri sinni dýrð og skær ljóshnöttur náðar Guðs varpar geislum yfir öll lönd og svæði. Margvíslegum gjöfum Hins mesta nafns – megi lífi mínu verða fórnað ástvinum Hans – rignir yfir alla og veisluborði Drottins hefur verið slegið upp á jörðinni allri. Þessar blessanir umvefja ykkur vissulega á alla vegu.
Sjá hve dýrlegu höfuðdjásni þið hafið verið prýdd og hve konunglegum möttli þið eruð klædd. Íhuga þau gæskuríku augu sem yfir ykkur vaka og það augnaráð miskunnar sem að ykkur beinist. Hryggist því ekki yfir grimmd þjóða heimsins og látið ekki linnulausar raunir valda ykkur harmi. Því að allt þetta fellur ykkur í skaut á vegi Hinnar öldnu fegurðar, allt þetta þjakar ykkur sakir Hins mesta nafns. Þessar þrengingar eru ríkulegar gjafir og þessar þjáningar aðeins margvísleg náð. Þessi fangavist er konungdæmi og þetta fangelsi háleit höll. Þessi ámæli og fordæming eru lof og hrós, og þessi hlekkur er hálsmen fullveldis sem umlykur heiminn. Þessir fjötrar og fótajárn prýða fætur allra hinna lánsömu, þessar viðjar og hlekkir eru æðsta von fólks dýrðarinnar og þessi sverð og eggjárn æðsta þrá elskhuga Hinnar skínandi fegurðar.
Íhugið hvernig heilagt brjóst Hins upphafna – megi lífi mínu verða fórnað Honum – varð skotmark hundrað þúsund byssukúlna og hvernig heilagur líkami Quddúsar – megi lífi mínu verða fórnað honum – var slitinn sundur. Hugleiðið sárin eftir keðjurnar og fjötranna á blessuðum hálsi Hins mesta nafns – megi sál minni verða fórnað ástvinum Hans – og hvernig Hann þannig til reika var færður, berfættur og berhöfðaður, alla leiðina frá Níyávarán til Teheran. Margar þrengingar féllu í hlut Hinni helgu fegurð í nærri fimmtíu ár, og þær voru þess eðlis að penninn titrar þegar þeirra er minnst. Fyrst kom útlegðin frá Persíu, síðan brottreksturinn frá Írak til höfuðborgar Tyrkjaveldis, þá útlegðin frá þeirri borg til Evrópuhluta Tyrklands og Búlgaríu og loks helsi fegurðar Hins almiskunnsama í svartnætti dýflissunnar mestu. Á öllum þessum tíma féllu Honum í hlut ógrynni þrauta og þrenginga að innan og utan.
Minnist einnig Bábu’l-Báb – megi sálum þeirra sem Drottinn hefur velþóknun á verða fórnað honum – og hugleiðið hvílíkum erfiðleikum og raunum sá skínandi kyndill og ljósberi sætti og andstreymi hans á vegi Guðs. Íhugið hvernig hann í virki mótlætis bergði loks fleytifullan bikar píslarvættis og þær raunir sem féllu ættingjum hans í skaut.
Munið líka eftir öðrum blessuðum sálum sem voru eins og skínandi lampar í þessum heimi, tindrandi stjörnur meðal mannanna barna, bjartir geislar og tindrandi hnettir. Þær fórnuðu sér, hver og ein, og skinu skært á vegi Hinnar blessuðu fegurðar. Þær voru reknar í útlegð og þoldu harðar ofsóknir, sættu ránum og gripdeildum, þeim var varpað í fangelsi og dýflissur uns þær að lokum bergðu bikar píslarvættis.
Það er því ljóst og auðsætt að raunir sem þolaðar eru á vegi Vinarins eru innileg þrá þeirra sem nálægir eru Honum, að þrengingar sakir Drottins eru eina eftirlöngun þeirra sem dvelja í ríkinu á hæðum. Þótt þær hið ytra virðast eitur, eru þær í raun hreint hunang. Og þótt þær bragðist beisklega hinum hvikulu, eru þær ljúfar þeim sem standa stöðugir. Í þakkarskyni fyrir slíka gjöf og fyrir raunir og þrautir sem þið hafið þolað á vegi Ástvinarins óviðjafnanlega, sæmir ykkur að hefjast handa af slíkum eldmóði og ákefð að það hrífi og gagntaki huga allra sem á jörðinni dvelja. Dýrð Guðs hvíli yfir hverju og einu ykkar, ó ástvinir Drottins.