Fyrsti hluti
Hér fara á eftir töflur og erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá
Allt lof sé Honum sem með skildi sáttmála síns hefur verndað musteri málstaðar síns gegn skeytum efasemda og með herskörum sáttmála síns varðveitt griðastað blessunarríkustu laga sinna; Honum sem hefur varið beina og skínandi braut sína og stöðvað þannig atlögur sáttmálsbrjótanna sem hóta að grafa undan guðdómlegri byggingu Hans; Honum sem hefur vakað yfir voldugu virki sínu og aldýrlegri trú með fulltingi manna sem láta illmæli rógberanna sig engu varða og engin jarðnesk köllun, dýrð og vald fær snúið frá sáttmála Guðs og erfðaskrá Hans, sem byggir á bjargföstum grunni skýrra og augljósra orða Hans, opinberuð af aldýrlegum penna Hans og skráð á hina varðveittu töflu.
Árnaðaróskir og vegsömun, dýrð og blessun, hvíli yfir þessari fyrstu grein Hins helga og guðdómlega lótusviðar, sem vaxið hefur af tvíburatrjánum heilögu, blessuð, meyr, gróskumikil og blómstrandi; þessari undursamlegu, einstæðu og ómetanlegu perlu, sem birtist tindrandi úr þessum bylgjandi tvíburahöfum; yfir greinunum á meiði heilagleikans, sprotunum á hinu himneska tré, þeim sem á degi hins mikla aðskilnaðar hafa staðið stöðugir í sáttmálanum; yfir Höndum (stoðum) málstaðar Guðs sem hafa dreift hinum guðdómlega ilmi víða vegu, skýrt frá sönnunum Hans, kunngert trú Hans, birt lög Hans meðal manna, snúið baki við öllu nema Honum, tekið málstað réttlætis í þessum heimi og tendrað eld ástar Guðs innst í hjörtum og sálum þjóna Hans; og yfir þeim sem hafa trúað, verið fullir vissu, staðið stöðugir í sáttmála Hans og fylgt ljósinu sem að mér gengnum skín frá sól guðlegrar leiðsagnar – því sjá! hann er hin helga og blessaða grein sem sprottið hefur af tvíburatrjánum heilögu. Heill þeim sem leitar athvarfs í skugga hans sem yfirskyggir allt mannkyn.
Ó þið ástvinir Drottins! Mikilvægast alls er að vernda sanna trú Guðs, varðveita lög Hans, verja málstað Hans og þjóna orði Hans. Tíu þúsund sálir hafa úthellt heilögu blóði sínu á þeirri braut, fórnað Honum dýrmætu lífi sínu, hraðað sér í heilagri leiðslu að dýrlegum vettvangi píslarvættis, hafið upp fána trúar Guðs og skrifað með blóði sínu á töflu heimsins helgiorð guðlegrar einingar Hans. Heilagt brjóst Hans, hins upphafna (megi líf mitt verða fórnað Honum) varð skotmark kvalafullra skeyta og í Mázindarán voru blessaðir fætur Abhá fegurðarinnar (megi lífi mínu verða fórnað ástvinum Hans) strýktir svo grimmilega að úr þeim blæddi og þeir urðu illa sárir. Um háls Hans voru einnig lagðir hlekkir og fætur Hans felldir í stokk. Á hverri stund yfir fimmtíu ára skeið mætti Hann nýrri þraut og mótlæti og á vegi Hans urðu nýjar þolraunir. Ein þeirra var þessi: Eftir að hafa búið við stöðuga óvissu og umskipti á högum sínum var Hann gerður að útlaga og förumanni, fórnarlambi nýrra þrenginga og erfiðleika. Í Írak var Sól heimsins svo berskjölduð fyrir vélabrögðum illgerðamanna að ljómi hennar dapraðist. Síðar var Hann sendur í útlegð til borgarinnar miklu (Konstantínópel) og þaðan til lands leyndardómsins (Adríanópel) og um síðir fluttur þaðan hörmulega rangtleikinn í prísundina mestu (Akká). Hann sem veröldin beitti rangindum (megi lífi mínu verða fórnað ástvinum Hans) var fjórum sinnum hrakinn frá borg til borgar uns Hann að lokum var dæmdur til ævarandi fangavistar og lokaður inni í þessari prísund fyrir stigamenn, þjófa og morðingja. Allt er þetta aðeins dæmi um þrengingarnar sem féllu í hlut Hinnar blessuðu fegurðar en aðrar voru líka jafn sárar og þungbærar.
Enn önnur þolraun sem á vegi Hans varð var fjandskapur, smánarlegt óréttlæti, misgerðir og uppreisn Mírzá Yaḥyá. Þótt Hinn rangtleikni, þessi bandingi, hafi með ástríki alið hann við barm sinn frá barnæsku, ávallt sýnt honum blíðu og umhyggju, miklað nafn hans, verndað hann gegn hverju andstreymi, gert hann hugþekkan íbúum þessa heims og hins næsta, og þrátt fyrir skýr ráð og áminningar Hans heilagleika, hins upphafna (Bábsins) og afdráttarlausa viðvörun Hans: „Varist, varist að nítján bókstafir Hins lifanda og það sem Bayánin hefur opinberað byrgi yður sýn!“ – þrátt fyrir þetta afneitaði Mírzá Yaḥyá Honum, fór að Honum með svikráðum, trúði Honum ekki, sáði fræjum efasemda, lokaði augum sínum fyrir opinberuðum helgiorðum Hans og sneri við þeim baki. Hefði hann aðeins gert sér þetta að góðu! Nei, hann reyndi jafnvel að úthella heilögu blóði (Bahá’u’lláh), efndi síðan til fyrirgangs og umróts í kringum sjálfan sig og sakaði Bahá’u’lláh um illvilja og grimmd í sinn garð. Hvílíku moldviðri undirróðurs og vélabragða þyrlaði hann ekki upp í landi leyndardómsins (Adríanópel). Að lokum kom hann því til leiðar með gerðum sínum að Ljós heimsins var sent í útlegð til þessa mesta fangelsis. Beitt sárri rangsleitni hneig sól Bahá til viðar í vestri í þessu mesta fangelsi.
Ó þið sem eruð staðföst í sáttmálanum! Höfuðpaur undirróðurs, uppspretta óhæfuverka, Mírzá Muḥammad ‘Alí, er horfinn úr skjóli málstaðarins, hefur rofið sáttmálann, falsað hinn helga texta, valdið sannri trú Guðs hrapallegu tjóni, tvístrað fylgjendum Hans, reynt með biturri óvild að særa ‘Abdu’l‑Bahá og ráðist með megnasta fjandskap á þennan þjón hinnar helgu fótskarar. Hann greip sérhvert sárbeitt skeyti og sendi að brjósti þessa rangtleikna þjóns. Ekkert var það sár sem hann aftraði sér að veita mér, ekkert það eitur og ólán sem hann hlífði mér við. Ég sver við helgustu Abhá fegurðina og ljósið sem skín frá Hans heilagleika, hinum upphafna (megi sál minni verða fórnað auðmjúkum þjónum þeirra) að sakir þessa ranglætis hafa íbúarnir í laufskálum Abhá ríkisins kveinað, herskararnir á hæðum fyllst harmi, ódauðlegar meyjar himins í hæstu paradís hrópað í angist og sveitir engla hryggst og andvarpað. Svo heiftræknar urðu gerðir ójafnaðarmannsins að hann hjó að rótum hins blessaða trés, greiddi musteri málstaðar Guðs bylmingshögg og kom ástvinum Hinnar blessuðu fegurðar til að gráta blóðugum tárum. Hann hvatti og örvaði óvini hins eina sanna Guðs, sneri mörgum sannleiksleitanda frá málstað Guðs með því að afneita sáttmálanum, endurvakti brostnar vonir fylgjenda Yaḥyá, kallaði yfir sig fyrirlitningu, varð þess valdandi að fjandmenn Hins mesta nafns fylltust drambi og ófyrirleitni, vék frá skýrum og afgerandi orðum Guðs og sáði fræjum efasemda. Hefðu fyrirheit um aðstoð Hinnar öldnu fegurðar ekki verið náðarsamlega veitt þessum óverðuga þjóni sérhvert andartak hefði hann vissulega eyðilagt, nei, upprætt málstað Guðs og grafið algjörlega undan voldugri byggingu Hans. En, lof sé Guði, sigursæl aðstoð barst frá Abhá ríkinu, herskararnir á hæðum höfðu hraðann á og tryggðu sigur. Málstaður Guðs var kynntur hvarvetna, kall Hins sanna barst út, alls staðar hneigðu menn eyru sín að orði Guðs, gunnfáni Hans var reistur, dýrlegt merki heilagleika hafið á loft og heilög orð sem vegsama guðlega einingu Hans voru sungin. Nú, þegar hægt er að slá skjaldborg um sanna trú Guðs, hafa lagaboðin í heiðri og tryggja og varðveita málstað Hans, er hverjum og einum skylt að halda fast við þau traustu og blessuðu helgiorð sem opinberuð voru um hann. Ekki er hægt að hugsa sér meiri synd en þá sem hann drýgði. Hann (Bahá’u’lláh) segir, dýrlegt og heilagt er orð Hans: „Fákænir ástvinir Mínir hafa jafnvel litið á hann sem félaga Minn, kynt undir undirróðri í landinu og tilheyra vissulega misgerðamönnunum.“ Hugleiðið fávisku fólksins! Þeir voru í návist Hans (Bahá’u’lláh) og litu ásýnd Hans en báru samt út svo fávíslegan orðróm, uns Hann, upphafin eru ótvíræð orð Hans, sagði: „Hverfi hann eitt andartak frá athvarfi málstaðarins verður hann vissulega gerður að engu.“ Hugleiðið áhersluna á andartaks fráhvarf, þ.e. víki hann hársbreidd til hægri eða vinstri, yrði fráhvarf hans staðfest og fullkomið tilvistarleysi hans leitt í ljós. Og nú eruð þið vitni að því hvernig reiði Guðs steðjar að honum á alla vegu, hvernig hann dag frá degi er á hraðri leið til tortímingar. Áður en langt um líður munið þið líta hann og félaga hans dæmda til algerrar glötunar hið innra og ytra.
Hvaða fráhvarf er alvarlegra en að rjúfa sáttmála Guðs! Hvaða fráhvarf er alvarlegra en að breyta og falsa orð hins heilaga texta, eins og Mírzá Badí‘u’lláh hefur sjálfur vitnað um! Hvaða fráhvarf er alvarlegra en að lastmæla sjálfri Miðju sáttmálans! Hvaða fráhvarf er augljósara en dreifing glópskulegra falsfrétta sem snerta musteri erfðaskrár Guðs! Hvaða fráhvarf er hörmulegra en að mæla fyrir um dauða Miðju sáttmálans með stuðningi hinna helgu orða: „Sá sem gerir tilkall áður en þúsund ár eru liðin….“ Hann (Muḥammad ‘Alí) hafði á dögum Hinnar blessuðu fegurðar gert slíkt blygðunarlaust tilkall sem Hann hrakti með fyrrgreindum hætti, en texti þessa tilkalls er enn þá til ritaður hans eigin hendi og ber innsigli hans. Hvaða fráhvarf er fullkomnara en að bera rangar sakir á ástvini Guðs! Hvaða fráhvarf er verra en að koma því til leiðar að þeir verði fangelsaðir! Hvaða fráhvarf getur verið alvarlegra en að afhenda stjórnvöldum hin heilögu rit og pistla til þess að fá þau til að lífláta þennan rangtleikna! Hvaða fráhvarf er ofbeldisfyllra en að hóta málstað Guðs tortímingu, falsa og rangfæra bréf og skjöl í ófrægingarskyni, valda þannig uppnámi meðal stjórnvalda og leiða til þess að blóði þessa rangtleikna verði úthellt. Slík bréf og skjöl eru nú í fórum stjórnarinnar! Hvaða fráhvarf getur verið andstyggilegra en ójöfnuður hans og uppreisn! Hvaða fráhvarf er smánarlegra en að tvístra fólki hjálpræðis og samfundum þeirra! Hvaða fráhvarf er skammarlegra en fánýtar og máttvana túlkanir þeirra sem efast! Hvaða fráhvarf getur verið fyrirlitlegra en að taka höndum saman við framandi menn og óvini Guðs!
Fyrir nokkrum mánuðum útbjó hann, sem rauf sáttmálann, skjal í samráði við aðra, fullt af rógi og illmælgi. Meðal annars óhróðurs og ásakana kemur þar fram, Guð forði því, að ‘Abdu’l‑Bahá sé háskalegur óvinur og hatursmaður krúnunnar. Þetta olli slíku uppnámi meðal æðstu fulltrúa Tyrkjaveldis að stjórnin sendi loks rannsóknarnefnd frá höfuðstöðvum hans hátignar sem þvert á allar reglur réttlætis og sanngirni sem sæma hans keisaralegu hátign, nei, með hróplegasta ranglæti, hélt rannsóknum sínum áfram. Hatursmenn hins eina sanna Guðs þyrptust að þeim og útskýrðu með óhóflegri mælgi efni skjalsins, og þeir (meðlimir nefndarinnar) féllust á það í blindni. Meðal margs konar óhróðurs kom þar fram að þessi þjónn hefði dregið fána að hún í þessari borg, safnað fólkinu saman undir hann, stofnað nýtt og fullvalda ríki sem hann sjálfur stýrði, reist voldugt virki á Karmelfjalli, fylkt um sig öllum landslýð og gert hann sér undirgefinn, valdið sundurlyndi í íslam, samið við fylgjendur Krists og, Guð forði því, ráðgert alvarlega atlögu að valdi Tyrkjasoldáns. Megi Drottinn vernda oss frá svo óheyrilegum álygum!
Samkvæmt skýru og heilögu boði Guðs er okkur bannað að fara með rógburð og skipað að sýna frið og vináttu í verki. Við erum hvött til að sýna grandvara breytni, hreinskiptni og samlyndi við allar ættkvíslir og þjóðir heims. Við verðum að hlýða stjórn landsins og óska henni velfarnaðar, líta á ótryggð gagnvart réttlátum konungi sem ótryggð gagnvart Guði sjálfum og illvilja í garð stjórnvalda sem brot gegn málstað Guðs. Þetta eru skýr og eindregin lokaorð og hvernig má það þá vera að þessir fangar leyfðu sér svo fánýtar ímyndanir, hvernig gætu þeir, innilokaðir í fangelsi, sýnt slíka óhollustu! En því er ver! Rannsóknarnefndin hefur samþykkt og staðfest þessi lastmæli bróður míns og óvildarmanna og afhent þau hans hátign. Á þessu andartaki næðir heiftugur stormur um þennan fanga sem bíður náðarsamlegrar ákvörðunar hans hátignar, jákvæðrar eða neikvæðrar, megi Drottinn af miskunn sinni aðstoða hann við að sýna réttlæti. Hver sem staða ‘Abdu’l‑Bahá kann að verða er hann fullkomlega rósamur og æðrulaus, reiðubúinn til sjálfsfórnar í algjörri sátt og undirgefni við vilja Hans. Hvaða brot getur verið verra og viðurstyggilegra en þetta!
Á svipaðan hátt hefur miðdepill og höfuðpaur hatursins fyrirhugað að svipta ‘Abdu’l‑Bahá lífi, og þessu til staðfestingar er vitnisburður, ritaður af Mírzá Shu‘á‘u’lláh sjálfum og hér hjálagður. Það er augljóst og óumdeilanlegt að þeir eru í kyrrþey og af mesta fláttskap að brugga launráð gegn mér. Eftirfarandi eru orð hans sjálfs sem hann ritaði í þessu bréfi: „Ég formæli hvert andartak honum sem hefur valdið þessari sundrungu og fordæmi hann með orðunum „Drottinn! Sýn honum enga miskunn“ og ég vona að brátt muni Guð birta þann sem sýnir honum enga vorkunnsemi, þann sem nú ber önnur klæði en hann get ég ekki útskýrt nánar.“ Með þessum orðum vísar hann til hinna helgu orða sem hljóða svo: „Sá sem gerir tilkall áður en þúsund ár eru liðin...“ Íhugið þetta! Hversu staðráðnir eru þeir ekki að ráða niðurlögum ‘Abdu’l‑Bahá! Hugleiðið í hjörtum ykkar setninguna „en hann get ég ekki útskýrt nánar“ og gerið ykkur grein fyrir hvað vakir fyrir þeim með þessu orðum. Þeir óttast að verði efni bréfsins útskýrt til fulls gæti það fallið öðrum í hendur og ráðagerðir þeirra verði að engu. Setningin segir aðeins að góð tíðindi séu í vændum, þ.e. að hvað þetta varðar hafi allar nauðsynlegar ráðstafanir verið gerðar.
Ó Guð, Guð minn! Þú sérð þennan rangtleikna þjón Þinn í klóm grimmra ljóna, gráðugra úlfa, blóðþyrstra villidýra. Náðarsamlega aðstoða mig sakir ástar minnar á Þér að teyga af þeim kaleik sem flóir yfir af trúfesti við Þig, fullur veglyndis Þíns og náðar svo að ég megi falla í dustið máttvana og án meðvitundar meðan klæði mín litast blóði. Þetta er ósk mín, þrá hjarta míns, von mín, stolt mitt, dýrð mín. Gef, ó Drottinn Guð minn og athvarf mitt, að lokastund mín megi dreifa moskusilmi dýrðar sinnar! Er nokkur blessun þessari meiri? Nei, við dýrð Þína! Ég kalla Þig til vitnis um að ekki líður sá dagur að ég drekki ekki fylli mína úr þessum bikar, svo hörmulegar eru misgerðir þeirra sem hafa rofið sáttmálann, efnt til sundurlyndis, sýnt illvilja sinn, starfað að undirróðri í landinu og vanheiðrað Þig meðal þjóna Þinna. Drottinn! Vernda máttugt virki trúar Þinnar frá þessum sáttmálsbrjótum og varðveit leyndan griðastað þinn fyrir atlögum hinna óguðlegu. Þú ert í sannleika hinn máttugi, hinn voldugi, hinn náðugi, hinn sterki.
Í stuttu máli, ó ástvinir Drottins! Höfuðpaur undirróðurs, Mírzá Muḥammad ‘Alí, hefur samkvæmt ótvíræðum orðum Guðs og sakir aragrúa misgerða sinna orðið á hörmuleg hrösun og verið aðskilinn hinu helga tré. Í sannleika beittum vér þá ekki rangindum en þeir gerðu sjálfum sér rangt til!
Ó Guð, Guð minn! Vernda trúfasta þjóna Þína gegn böli sjálfs og ástríðna, vernda þá með vökulu auga ástúðar Þinnar gegn allri óvild, hatri og öfund, varðveit þá í óvinnandi virki umsjár Þinnar og ger þá birtendur Þinna dýrlegu tákna, óhulta fyrir örvaskotum efasemda. Lýs upp ásjónur þeirra með geisladýrðinni af dagrenningu Þinnar guðlegu einingar, gleð hjörtu þeirra með söngvunum sem berast frá Þínu heilaga ríki og styrk lendar þeirra af Þínu allsráðandi afli frá dýrðarríki Þínu. Þú ert hinn örlátasti, verndarinn, hinn almáttugi og náðugi.
Ó þið sem eruð staðföst í sáttmálanum! Þegar sú stund rennur upp að þessi rangtleikni og vængbrotni fugl tekur flugið til herskara himinsins, hraðar sér til ríkis hins óséða og dauðlegur líkami hans týnist eða hylst dusti hvílir sú skylda á Afnán sem eru stöðugir í sáttmála Guðs og sprottið hafa af tré heilagleikans, Höndum (stoðum) málstaðar Guðs (yfir þeim hvíli dýrð Drottins) og öllum vinunum og hinum elskuðu, hverjum og einum, að hefjast handa í einingu af hjarta og sál að dreifa ljúfum ilmi Guðs, kenna málstað Hans og efla trú Hans. Þeim sæmir ekki að hvílast eitt andartak né leita næðis. Þeir verða að dreifa sér víða um lönd, fara um öll héruð og ferðast um öll landsvæði. Vökulir, án hvíldar og staðfastir allt til loka verða þeir að hefja upp í hverju landi sigurhrópið „Ó Þú dýrð allra dýrða!“ (Yá Bahá’u’l-Abhá), ávinna sér orðstír hvar sem þeir fara um heiminn, loga skært sem kerti á hverjum samfundi, tendra eld ástar Guðs á hverri samkomu til þess að ljós sannleikans fái skinið í sjálfu hjarta heimsins og hvarvetna í austri og vestri safnist mikill mannfjöldi saman í skjóli orða Guðs, ljúf angan heilagleikans berist, ásýndir skíni geislandi, hjörtun fyllist anda Guðs og sálirnar verði gerðar himneskar.
Á þessum dögum er leiðsögn þjóða og ættkvísla heims mikilvægust alls. Kennsla málstaðarins hefur mesta þýðingu því hún er helsti hyrningarsteinn undirstöðunnar. Þessi rangtleikni þjónn hefur eytt dögum sínum og nóttum í að útbreiða málstaðinn og hvetja fólkið til þjónustu. Hann gaf sér ekki andartaks hvíld uns orðstír málstaðar Guðs var kynntur heiminum og himneskir tónar Abhá ríkisins vöktu austrið og vestrið af svefni. Ástvinir Guðs verða einnig að fylgja sama fordæmi. Þetta er leyndardómur trúfestunnar, þetta er krafa þjónustunnar við fótskör Bahá!
Lærisveinar Krists gleymdu sjálfum sér og öllu jarðnesku, skildu að baki eigur sínar og áhyggjur, hreinsuðu sig af sjálfi og ástríðu og fóru um allt í fullkominni sjálfslausn, önnum kafnir við að kalla þjóðir heimsins til guðdómlegrar handleiðslu, uns þeir að lokum gerðu heiminn að öðrum heimi, lýstu upp jörðina og reyndust jafnvel til hinstu stundar fórnfúsir á vegi þessa Ástvinar Guðs. Að lokum liðu þeir dýrlegt píslarvætti í ýmsum löndum. Látið þá sem eru menn dáða feta í fótspor þeirra!
Ó, elskuðu vinir mínir! Þegar þessi rangtleikni hverfur á braut, ber Aghṣán (greinum) og Afnán (kvistum) Hins helga lótusviðar, Höndum (stoðum) málstaðar Guðs og ástvinum Abhá fegurðarinnar að snúa sér til Shoghi Effendi – hins unga kvists sem greinst hefur af lótustrjánum helgu tveimur, ávaxtarins af sameiningu tveggja greina á meiði heilagleikans – því hann er tákn Guðs, hin útvalda grein, Verndari málstaðar Guðs sem allir Aghṣán, Afnán, Hendur málstaðar Guðs og ástvinir Hans verða að snúa sér til. Hann er útskýrandi orða Guðs og eftir hans dag tekur við frumburður afkomenda hans í beinan karllegg.
Hin helga og unga grein, Verndari málstaðar Guðs, og Allsherjarhús réttvísinnar sem stofna skal og kjósa allsherjarkosningu eru hvort tveggja undir umsjá og vernd Abhá fegurðarinnar, í skjóli og undir óskeikulli leiðsögn Hins upphafna (megi lífi mínu verða fórnað þeim báðum). Hvaðeina sem þeir ákveða er af Guði. Hver sem lætur hjá líða að hlýðnast honum og Húsi réttvísinnar hefur ekki hlýtt Guði, hver sem rís í gegn þeim hefur risið í gegn Guði, hver sem er andsnúinn honum er andsnúinn Guði, hver sem deilir við hann og Hús réttvísinnar hefur deilt við Guð, hver sem greinir á við hann hefur greint á við Guð, hver sem afneitar honum hefur afneitað Guði, hver sem véfengir hann véfengir Guð, hver sem víkur frá, aðskilur sig og snýr við honum baki hefur í sannleika vikið frá, aðskilið sig og snúið baki við Guði. Megi reiði, mikil vanþóknun og hegning Guðs koma yfir hann! Hið máttuga virki skal tryggja og gera óvinnandi með hlýðni við hann sem er Verndari málstaðar Guðs. Sú skylda hvílir á meðlimum Húss réttvísinnar, á öllum Aghṣán, Afnán og Höndum málstaðar Guðs að sýna Verndara málstaðar Guðs hlýðni, eftirlæti og undirgefni, snúa sér til hans og sýna lítillæti í návist hans. Sá sem stendur í gegn honum hefur staðið í gegn Hinum sanna, brýtur gegn málstað Guðs, grefur undan orði Hans og verður birtingarmynd undirróðursmannsins. Varist, varist að endurtaka það sem gerðist eftir uppstigningu Bahá’u’lláh þegar höfuðpaur undirróðurs fylltist drambi og uppreisnarhug, notaði einingu Guðs sem afsökun og varð því sjálfur afskiptur, kom róti á aðra og eitraði hug þeirra. Án efa mun sérhver hégómleg sál sem áformar misklíð og sundrungu ekki skýra opinskátt frá illri fyrirætlan sinni, nei öllu heldur mun hann eins og soragull grípa til ýmissa ráða og tylliástæðna til að tvístra samfundum fylgjenda Bahá. Tilgangur minn er að sýna fram á að Hendur málstaðar Guðs verða stöðugt að vera á verði og strax og þær sjá einhvern setja sig gegn og mótmæla Verndara málstaðar Guðs eiga þeir að vísa honum úr röðum fylgjenda Bahá og ekki taka neina afsökun gilda. Hve oft hefur ekki hörmuleg villa tekið á sig dulargervi sannleikans til að geta sáð fræjum efasemda í hjörtu mannanna!
Ó, þið ástvinir Drottins! Í lífi sínu ber Verndara málstaðar Guðs skylda til að skipa eftirmann sinn til þess að ekki komi til neins ágreinings að honum látnum. Sá sem skipaður er í þessa stöðu verður að skiljast frá öllu sem er af þessari veröld, vera tákn hreinleikans, auðsýna guðsótta, þekkingu, visku og lærdóm. Ef frumburður Verndara málstaðar Guðs sýnir ekki í sjálfum sér sannleika orðanna: „Barnið er leyndur kjarni föðurins“, þ.e. erfi hann ekki hið andlega innra með sér (Verndara málstaðar Guðs) og ef dýrlegu ætterni hans fylgir ekki göfug lyndiseinkunn verður hann (Verndari málstaðar Guðs) að velja aðra grein sem eftirmann sinn.
Hendur málstaðar Guðs verða að velja úr sínum eigin hóp níu einstaklinga sem ávallt skulu vera uppteknir af mikilvægri þjónustu í starfi Verndara málstaðar Guðs. Kosningu þessara níu verður annað hvort að samþykkja einróma eða með meirihluta atkvæða allra Handa málstaðar Guðs og þær eiga, hvort heldur einróma eða með meirihluta atkvæða, að samþykkja þann sem Verndari málstaðar Guðs hefur valið sem eftirmann sinn. Þetta samþykki skal gefið með þeim hætti að ekki verði greint á milli með- og mótatkvæða (þ.e. með leynilegri atkvæðagreiðslu).
Ó vinir! Verndari málstaðar Guðs skal tilnefna og skipa Hendur málstaðar Guðs. Allar skulu þær vera í skugga hans og hlýða boði hans. Ef einhver, innan eða utan Handa málstaðar Guðs, óhlýðnast og leitar eftir sundrungu mun reiði Guðs og hegning koma yfir hann því hann hefur brotið gegn sannri trú Guðs.
Höndum málstaðar Guðs ber skylda til að dreifa hinum guðdómlega ilmi, uppfræða sálir manna, stuðla að lærdómi, bæta eðlisgerð allra manna og vera ævinlega og undir öllum kringumstæðum helgaðar frá öllu sem er af þessum heimi. Í framferði sínu, háttsemi, gerðum og orðum sýni þeir guðsótta.
Þessi stofnun Handa málstaðar Guðs lýtur stjórn Verndara málstaðar Guðs. Hann verður stöðugt að hvetja þá til að beina allri orku sinni að því að dreifa ljúfum ilmi Guðs og leiðbeina öllum þjóðum heims, því að það er ljós guðlegrar handleiðslu sem lýsir upp alheiminn. Að virða að vettugi, þótt ekki sé nema andartak, þetta bindandi boð sem öllum ber að hlýða, er óleyfilegt með öllu og tilgangur þess er sá að þessi jarðneska tilvera verði sem Abhá paradísin, jörðin gerist himnesk, deilur og átök milli fólks, ættingja, þjóða og ríkisstjórna hverfi, allir íbúar jarðar verði ein þjóð og einn kynþáttur og heimurinn allur sem eitt heimili. Komi upp ágreiningur skal hann jafnaður endanlega og í vinsemd af hinum æðsta dómstóli sem skipaður er fulltrúum allra ríkisstjórna og þjóða heims.
Ó ástvinir Drottins! Á þessu helga trúarskeiði eru átök og misklíð óheimil með öllu. Sérhver árásarmaður sviptir sig náð Guðs. Öllum ber skylda til að sýna öllum þjóðum og kynkvíslum jarðar fyllstu ást, grandvara breytni, hreinskiptni og einlæga góðvild, hvort sem um vini eða ókunnuga er að ræða. Svo innilegur verður andi ástarinnar að vera að hinn ókunnugi finni að hann er vinur, óvinurinn að hann er sannur bróðir og alls enginn greinarmunur verði gerður á þeim. Því að algildi er af Guði en allar takmarkanir jarðneskar. Því verður maðurinn að kosta kapps um að veruleiki hans birti dyggðir og fullkomnanir og ljós þeirra skíni á alla. Sólarljósið upplýsir allan heiminn og líknsamt regn guðlegrar forsjónar fellur á allar þjóðir. Lífgandi andvari vekur allt af dvala og allar lífverur fá sinn skerf af himnesku nægtaborði Hans. Á sama hátt verður ást og alúð þjóna hins eina sanna Guðs að beinast að öllu mannkyni af veglyndi og án nokkurrar aðgreiningar. Að þessu leyti eru hömlur og takmarkanir óleyfilegar með öllu.
Samneytið því, ó elskuðu vinir mínir, öllum þjóðum, kynkvíslum og trúarbrögðum veraldar af fullkominni sannleiksást, heiðarleika, trúfesti, gæsku, góðvild og vináttu til þess að tilveran öll megi fyllast heilögum unaði náðar Bahá’u’lláh, fáfræði, óvinátta, hatur og óvild hverfi úr heiminum og myrkur framandleika meðal þjóða og kynkvísla heimsins víki fyrir ljósi einingar. Sýni annað fólk og þjóðir ykkur ótryggð, sýnið þeim tryggð, beiti þær ranglæti, verið þeim réttlát, sýni þær fálæti, laðið þær að ykkur, sýni þær fjandskap, auðsýnið þeim vináttu, eitri þær líf ykkar, sýnið sálum þeirra blíðu, særi þær ykkur, græðið sár þeirra. Slíkar eru eigindir hinna einlægu! Slíkar eru eigindir hinna sannorðu.
Og nú hvað varðar Hús réttvísinnar, sem Guð hefur ákvarðað að verði uppspretta alls góðs og leyst frá allri villu. Það skal kosið með allsherjaratkvæði, það er að segja af átrúendunum. Meðlimir þess verða að sýna guðsótta og vera uppsprettur þekkingar og skilnings, staðfastir í trú Guðs og velunnarar alls mannkyns. Með þessu Húsi er átt við Allsherjarhús réttvísinnar, þ.e. í öllum löndum verður að setja á stofn annars stigs Hús réttvísinnar og þessi annars stigs Hús réttvísinnar skulu kjósa meðlimi Allsherjarhússins. Til þessarar stofnunar skal vísa öllum málum. Hún leiðir í lög allar tilskipanir og reglur sem ekki er að finna í hinum skýra helgitexta. Hlutverk hennar er að leysa öll erfið vandamál og Verndari málstaðar Guðs er helgur leiðtogi hennar og virtur meðlimur ævilangt. Sé hann ekki viðstaddur samráð hennar í eigin persónu, skal hann skipa fulltrúa í sinn stað. Drýgi einhver meðlimanna synd sem skaðar almannaheill, hefur Verndari málstaðar Guðs fulla heimild til að vísa honum á brott, en að því búnu verður fólkið að kjósa annan í hans stað. Þetta Hús réttvísinnar setur lögin og stjórnvöld framfylgja þeim. Löggjafarstofnunin verður að styrkja framkvæmdavaldið, framkvæmdavaldið verður að styðja löggjafarstofnunina til þess að náin eining og samstilling þessara tveggja meginafla renni styrkum stoðum undir málstað sanngirni og réttlætis og allur heimurinn verði sem paradís.
Ó Drottinn, Guð minn! Hjálpa Þínum elskuðu að vera stöðugir í trú Þinni, ganga vegu Þína og vera staðfastir í málstað Þínum. Veit þeim náð til að standast atlögur sjálfs og ástríðna, að fylgja ljósi himneskrar leiðsagnar. Þú ert hinn voldugi, hinn náðugi, hinn sjálfumnógi, gjafarinn, hinn vorkunnláti og almáttugi, sá sem allt gefur.
Ó vinir ‘Abdu’l‑Bahá! Drottinn hefur sem tákn um óþrotlegt örlæti sitt veitt þjónum sínum af náð sinni þá hylli að leggja fram ákveðna upphæð (Rétt Guðs) sem færa skal Honum af skyldurækni þótt Hann, hinn sanni, og þjónar Hans hafi ætíð verið óháðir öllu sem skapað er. Guð er að sönnu eigandi alls, hafinn yfir gjafir skepna sinna. Þessi ákveðna fjárgjöf kemur því hins vegar til vegar að mennirnir verða stöðugir og staðfastir og kallar yfir þá aukna blessun Guðs. Hana skal færa með milligöngu Verndara málstaðar Guðs svo henni megi verja til þess að dreifa ilmi Guðs og upphefja orð Hans, til góðgerðarstarfsemi og almannaheilla.
Ó þið ástvinir Drottins! Ykkur ber að vera undirgefnir öllum réttlátum valdhöfum og sýna trúnað sérhverjum réttlátum konungi. Þjónið valdhöfum heims af fyllstu sannleiksást og hollustu. Verið þeim hlýðnir og óskið þeim velfarnaðar. Hafið engin afskipti af stjórnmálum án leyfis þeirra því að ótryggð gagnvart réttlátum valdhafa er ótryggð gagnvart Guði sjálfum.
Þetta er ráð mitt og boð Guðs ykkur til handa. Heill þeim sem breyta samkvæmt því.
(Þetta ritaða skjal var lengi varðveitt neðan jarðar og raki komst í það. Þegar það var tekið upp kom í ljós að rakinn hafði skaðað ákveðna hluta þess og vegna uppnáms og rósturs í landinu helga var það látið ósnert.)
Annar hluti
Hann er Guð
Ó Drottinn minn, hjartans þrá mín, Þú sem ég stöðugt ákalla, Þú sem ert hjálp mín og skjól, stoð mín og athvarf! Þú sérð mig umlukinn hafi hörmunga sem eru sálinni ofraun, þolrauna sem þjaka hjartað, ógæfu sem dreifir samfundi Þínum, meinsemdum og sársauka sem tvístra hjörð Þinni. Sárar raunir hafa umlukið mig á alla vegu og hætta steðjar að mér úr öllum áttum. Þú sérð mig sokkinn í ómælisdjúp þrenginga, staddan í afgrunni, þjakaðan af óvinum mínum og brennandi í haturseldi kveiktum af ættmennum mínum, sem Þú gerðir við máttugan sáttmála Þinn og trausta erfðaskrá þar sem Þú býður þeim að beina hjörtum sínum að þessum rangtleikna, að halda frá mér hinum fávísu og ranglátu og vísa öllu sem þá greinir á um í helgri bók Þinni til þessarar einmana sálar, svo að þeir komi auga á sannleikann, efasemdir þeirra hverfi og augljós tákn Þín berist víða vegu.
Á þessari stundu sérð Þú samt, ó Drottinn, Guð minn, með auga Þínu sem ekki sefur hvernig þeir hafa rofið sáttmála Þinn og snúið við honum baki, hvernig þeir með hatri og uppreisnarhug hafa villst frá erfðaskrá Þinni og risið upp gegn mér með illt í huga.
Mótlætið varð enn alvarlegra þegar þeir hófust handa með óbærilegri grimmd og reyndu að yfirbuga mig og knésetja með því að dreifa víðs vegar ritum efasemda sinna og blekkinga og létu lastmælum rigna yfir mig. Forsprakki þeirra, ó Guð minn, gerði sér þetta ekki að góðu og dirfðist að afbaka bók Þína, breyta sviksamlega helgum og skýrum texta Þínum og falsa það sem aldýrlegur penni Þinn opinberaði. Af meinfýsni sinni bætti hann því einnig við sem Þú opinberaðir þeim sem beitti þig mestri grimmd, trúði ekki á Þig og afneitaði undursamlegum táknum Þínum. Þessu bætti hann við orðin sem Þú opinberaðir þessum rangtleikna þjóni Þínum og allt þetta gerði hann til að blekkja sálir mannanna og véla hjörtu Þinna trúföstu með óhróðri sínum. Þessu bar næstráðandi þeirra vitni og játaði það skriflega með sinni eigin rithönd, innsiglaði með innsigli sínu og dreifði um öll héruð. Ó Guð minn! Eru til meiri ranglætisverk en þessi? Þeir unnu sér samt ekki hvíldar og leituðust við með þverúð, falsi og rógburði, með fyrirlitningu og hrakyrðum, að æsa til undirróðurs í stjórn þessa lands og víðar sem varð til þess að hún taldi mig undirróðursmann. Jafnframt fylltu þeir hugi manna með því sem eyranu er andstyggð. Ríkisstjórnin varð því felmtri slegin, ótta setti að einvaldinum og grunsemdir fyrirmanna vöknuðu. Áhyggjur leituðu á hugi manna, mál komust í uppnám, sálum varð órótt, brjóstin fylltust sorg og angist, mikil geðshræring greip hin helgu lauf (á heimilinu), þau grétu sáran með andvörpum og kveinstöfum og hjörtu þeirra brunnu af harmi yfir þessum rangtleikna þjóni Þínum, fórnarlambi í höndum ættmenna sinna, nei, raunverulegra óvina sinna!
Drottinn! Þú sérð alla hluti gráta yfir mér og ættingja mína gleðjast yfir bágindum mínum. Við dýrð Þína, ó Guð minn! Meðal óvina minna eru jafnvel nokkrir sem hryggjast yfir andstreymi mínu og raunum og meðal öfundarmannanna nokkrir sem hafa fellt tár vegna erfiðleika minna, útlegðar og þrenginga. Það gerðu þeir vegna þess að hjá mér mættu þeir aðeins ástúð og umhyggju og urðu ekki vitni að neinu nema gæsku og miskunn. Er þeir sáu flóðbylgju þrenginga og mótlætis steypast yfir mig berskjaldaðan fyrir skeytum örlaganna, fylltust hjörtu þeirra samúð, þeir táruðust og vitnisburður þeirra er þessi: „Drottinn er okkur til vitnis, ekki höfum við þekkt hann að neinu nema trúfesti, veglyndi og dýpstu samúð.“ Sáttmálsbrjótarnir, forboðar hins illa, gerðust þó heiftugri í grimmd sinni og glöddust þegar ég varð fórnarlamb hryggilegra rauna. Þeir bundust samtökum gegn mér og kættust yfir þeim hjartaskerandi atburðum sem urðu í kringum mig.
Ég ákalla Þig, ó Drottinn Guð minn, með tungu minni og öllu hjarta, að refsa þeim ekki fyrir grimmd þeirra og rangsleitni, kænsku þeirra og illræði, því þeir eru fávísir og lítilmótlegir og vita ekki hvað þeir gera. Þeir greina ekki gott frá illu, skynja hvorki rétt frá röngu né réttlæti frá ranglæti. Þeir láta leiðast af ástríðum sínum og feta í fótspor hinna ófullkomnustu og fákænustu í hópi sínum. Ó Drottinn minn! Haf miskunn með þeim, skýl þeim fyrir allri mæðu á þessum þrengingatímum og gef að allar raunir og erfiðleikar megi koma í hlut þessa þjóns Þíns sem hefur fallið í þetta dimma díki. Ætla mér einum sérhverja mæðu og ger mig að fórnargjöf fyrir alla ástvini Þína. Ó Drottinn, hinn hæsti! Megi sál minni, lífi mínu, verund minni, anda og öllu sem mér tilheyrir verða fórnað þeim. Ó Guð, Guð minn! Auðmjúkur, sárbænandi, fallinn fram á ásjónu mína, grátbæni ég Þig með brennandi ákalli, að fyrirgefa hverjum þeim sem hefur sært mig, veita honum aflát sem hefur bruggað launráð gegn mér og misboðið mér og hreinsa þá af misgerðum sínum sem gerðu mér rangt til. Gef þeim góðar gjafir Þínar, veit þeim gleði, lina sorg þeirra, fær þeim frið og farsæld, gef þeim unað Þinn og úthell yfir þá örlæti Þínu.
Þú ert hinn máttugi, hinn miskunnsami, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi!
Ó ástkæru vinir! Mikill háski steðjar að mér og von um líf jafnvel einnar stundar í viðbót er mér horfin. Ég er því nauðbeygður til að rita þessar línur til þess að vernda málstað Guðs, varðveita lög Hans, verja orð Hans og kenningar. Ég sver við Hina öldnu fegurð! Þessi rangtleikni hefur með engum hætti borið né ber kala til neins, elur ekki í brjósti sér óvild til nokkurs manns og mælir ekki orð nema til góðs fyrir heiminn. Æðsta skylda mín knýr mig þó af nauðsyn til að verja og vernda málstað Guðs. Með mikilli eftirsjá ráðlegg ég ykkur þess vegna og segi: Verjið málstað Guðs, verndið lög Hans og óttist sundrungu framar öllu öðru. Þetta er undirstaða trúar fylgjenda Bahá (megi lífi mínu verða fórnað þeim): „Hans heilagleiki, hinn upphafni (Bábinn) er opinberandi einingar og eindar Guðs og fyrirrennari Hinnar öldnu fegurðar. Hans heilagleiki, Abhá fegurðin (megi lífi mínu verða fórnað staðföstum vinum Hans) er æðsti opinberandi Guðs og dagsbrún guðdómlegs kjarna Hans. Allir aðrir eru þjónar Hans og fylgja boði Hans.“ Allir verða að snúa sér til hinnar helgustu bókar. Öllu sem ekki er skráð þar skýrum stöfum skal vísa til Allsherjarhúss réttvísinnar. Það sem þessi stofnun ákvarðar, hvort heldur einróma eða með meirihluta atkvæða, er vissulega sannleikurinn og áform Guðs sjálfs. Hver sem víkur frá því tilheyrir vissulega þeim sem elska ósamlyndi, sýna meinfýsi og snúa baki við Drottni sáttmálans. Með þessu Húsi er átt við það Allsherjarhús réttvísinnar sem kjósa skal með atkvæðum frá öllum löndum, þ.e. þeim löndum í austri og vestri þar sem ástvinirnir dvelja, að hætti hefðbundinna kosninga í vestrænum löndum á borð við England.
Sú skylda hvílir á þessum meðlimum (Allsherjarhúss réttvísinnar) að koma saman á ákveðnum stað og fjalla um öll vandamál sem valdið hafa ágreiningi, spurningar sem eru óljósar og málefni sem eru ekki skráð skýrum stöfum í Bókinni. Hvaðeina sem þeir ákveða hefur sama gildi og textinn sjálfur. Og líkt og þetta Hús réttvísinnar hefur vald til að setja lög sem ekki eru skráð skýrum stöfum í Bókinni og varða daglegar gerðir, þannig hefur það einnig vald til að fella þau lög úr gildi. Þannig til dæmis setur Hús réttvísinnar ákveðin lög í dag og framfylgir þeim en að hundrað árum liðnum eru kringumstæður gjörbreyttar og aðstæður allt aðrar og þá hefur annað Hús réttvísinnar vald til að breyta þeim lögum í samræmi við kröfur tímans. Þetta getur það gert vegna þess að þessi lög eru ekki hluti af hinum skýra helga texta. Hús réttvísinnar hefur bæði frumkvæði að sinni eigin löggjöf og fellir hana úr gildi.
Og ein veigamesta grundvallarregla málstaðar Guðs er að sniðganga sáttmálsbrjótana og forðast þá með öllu því þeir munu tortíma málstað Guðs, útrýma lögum Hans og gera að engu alla viðleitni sem sýnd var í fortíðinni. Ó, vinir! Það sæmir ykkur að minnast með ástúð þjáninga Hans heilagleika, hins upphafna og sýna Hinni blessuðu fegurð tryggð. Ýtrustu viðleitni skal sýna svo að allar hörmungar, raunir og þjáningar, allt það hreina og helga blóð sem úthellt var á vegi Guðs, verði ekki til fánýtis. Þið vitið vel hvað höfuðpaur undirróðurs, Mírzá Muḥammad ‘Alí, og samherjar hans hafa gert. Meðal þess sem hann gerði var að rangfæra hinn helga texta eins og ykkur, Drottni sé lof, er öllum kunnugt og þið vitið einnig að þetta er augljóst, sannað og staðfest með vitnisburði bróður hans, Mírzá Badí‘u’lláh, sem ritaði játningu sína með eigin hendi og setti á hana innsigli sitt. Hún hefur verið prentuð og henni dreift víða. Þetta er aðeins ein af misgjörðum hans. Er hægt að gera sér í hugarlund stórfelldari synd en þá að auka við hinn helga texta? Nei, sem Drottinn er réttlátur! Syndir hans eru skráðar í sérstökum ritlingi. Guð gefi að þið lesið hann til hlítar.
Í stuttu máli, samkvæmt hinum skýra guðlega texta mun minnsta synd verða þessum manni að falli, og hvaða synd er hrapallegri en tilraun til að eyða voldugri byggingu Guðs, rjúfa sáttmálann, villast frá erfðaskránni, falsa hinn helga texta, sá fræjum efasemda, lastmæla ‘Abdu’l‑Bahá, setja fram kröfur sem Guð hefur ekki heimilað, efna til misgerða og leitast við að úthella sjálfu blóði ‘Abdu’l‑Bahá auk margra annarra illverka sem ykkur er öllum kunnugt um! Því er augljóst að ef þessum manni tekst að skapa umrót í málstað Guðs myndi hann gersamlega eyða honum og útrýma. Varist að nálgast þennan mann því að nálgast hann er verra en að nálgast eyðandi eld!
Náðugi Guð! Eftir að Mírzá Badí‘u’lláh hafði lýst því yfir með eigin rithönd að þessi maður (Muḥammad ‘Alí) hefði brotið sáttmálann og sagt frá fölsun sinni á hinum helga texta varð honum ljóst að afturhvarf til hinnar sönnu trúar og hollusta við sáttmálann og erfðaskrána myndi á engan hátt verða eigingjörnum ástríðum hans til framdráttar. Hann iðraðist því, sá eftir því sem hann hafði gert og reyndi með leynd að safna saman prentuðum játningum sínum, bruggaði ásamt höfuðpaur undirróðurs launráð gegn mér, og gaf honum daglega upplýsingar um allt sem skeði á heimili mínu. Hann hefur jafnvel tekið forystu í því misferli sem síðan hefur átt sér stað. Guði sé lof að málin komust í samt lag og vinirnir fengu einhvern frið. En strax sama daginn og hann kom aftur til okkar byrjaði hann að sá fræjum undirróðurs að nýju. Sumt af leynimakki hans og ráðabruggi verður skráð í sérstökum ritlingi.
Það sem fyrir mér vakir er þó að sýna að vinunum, sem eru staðfastir og sterkir í sáttmálanum og erfðaskránni, ber ávallt að vera á verði svo að þessi slóttugi og sístarfandi misgerðamaður valdi ekki sundrungu þegar þessi rangtleikni er horfinn á braut, sái ekki á laun fræjum efasemda og sundrungar og uppræti ekki með öllu málstað Guðs. Forðist félagsskap hans þúsund sinnum. Gefið gaum og verið á verði. Fylgist vel með. Hafi einhver, opinskátt eða á laun, minnsta samband við hann, vísið honum úr ykkar hópi því hann mun vissulega valda sundrungu og misklíð.
Ó þið ástvinir Drottins! Leitist við af öllu hjarta að verja málstað Guðs frá atlögum hinna óhreinlyndu því að slíkar sálir gera hið beina bogið og öll góðviljuð viðleitni leiðir til hins gagnstæða.
Ó Guð, Guð minn! Ég kalla Þig, spámenn Þína og sendiboða, dýrlinga Þína og Þína heilögu, til vitnis um að ég hef endanlega og með afgerandi hætti kunngert ástvinum Þínum sannanir Þínar og útskýrt allt skilmerkilega fyrir þeim til þess að þeir megi vaka yfir trú Þinni, verja Þinn beina veg og vernda skínandi lögmál Þitt. Þú ert vissulega hinn alvitri, hinn alvísi!
Þriðji hluti
Hann er vitnið, sá sem öllu nægir
Ó Guð minn, minn ástfólgni, hjartans þrá mín! Þú veist, Þú sérð hvað fallið hefur í hlut þessa þjóns Þíns sem stendur auðmjúkur við dyr Þínar og Þú þekkir syndirnar sem hinir illviljuðu drýgja gegn honum, þeir sem hafa rofið sáttmála Þinn og snúið baki við erfðaskrá Þinni. Á daginn þjökuðu þeir mig með hatursskeytum, og að næturþeli bundust þeir samtökum í kyrrþey um að valda mér tjóni. Í dögun frömdu þeir það sem vakti hryggð herskaranna á hæðum og að kvöldlagi brugðu þeir gegn mér sverði kúgunar, brigsluðu mér og lastmæltu í viðurvist hinna óguðlegu. Þrátt fyrir misgerðir þeirra sýndi lítillátur þjónn Þinn langlundargeð og þoldi sérhverja raun af þeirra hálfu, enda þótt hann hefði með afli Þínu og mætti getað hrakið og ónýtt orð þeirra, slökkt eld þeirra og uppreisnarbál.
Þú sérð, ó Guð minn, hvernig langvarandi þjáningar mínar, umburðarlyndi mitt og þögn hafa hert þá í grimmd sinni, hroka og drambi. Við dýrð Þína, ó Ástvinur! Þeir hafa ekki trúað á Þig og risið í gegn Þér og ekki veitt mér andartaks hvíld eða ró til þess að ég gæti hafist handa eins og rétt er og viðeigandi um að upphefja orð Þitt meðal mannkyns og þjóna við fótskör heilagleika Þíns af hjarta sem er barmafullt af gleði íbúa Abhá ríkisins.
Drottinn! Bikar þjáninga minna er yfirfullur og á mér dynja heiftug högg frá öllum hliðum. Ég er skotspænir þjáninga á alla vegu og örvum óhamingju hefur rignt yfir mig. Þannig hefur andstreymið yfirþyrmt mig, og vegna árása fjandmannanna varð styrkur minn að veikleika innra með mér meðan ég stóð einn og yfirgefinn mitt í þrengingunni. Drottinn! Haf miskunn með mér, lyft mér upp til Þín og lát mig drekka af kaleik píslarvættis því ekkert rými er mér lengur búið í heiminum og allri víðáttu hans.
Þú ert sannarlega hinn miskunnsami, hinn samúðarfulli, hinn náðugi, hinn algjöfuli!
Ó þið sannir, einlægir, trúfastir vinir þessa rangtleikna! Allir þekkja og trúa þeim raunum og þrengingum sem hafa fallið í hlut þessa rangtleikna, þessa fanga, af hendi þeirra sem hafa rofið sáttmálann, þegar hjarta hans brann af sorg eftir að Sól heimsins hneig til viðar.
Óvinir Guðs um allan heim hrósuðu happi eftir að Sól sannleikans settist og hófu skyndilega af öllum mætti atlögur sínar en á sama tíma og mitt í þeirri ógæfu hófust sáttmálsbrjótarnir handa af mikill grimmd við að skaða og skapa óvináttu. Á hverju andartaki frömdu þeir misgerð, byrjuðu að sá fræjum hörmulegs undirróðurs og leggja í rúst volduga byggingu sáttmálans. En þessi rangtleikni, þessi bandingi, gerði sitt ítrasta til að breiða yfir gerðir þeirra til þess að þeir mættu iðrast og fyllast eftirsjá. Langlundargeð hans og umburðarlyndi gagnvart misgerðum þeirra gerði uppreisnarseggina enn hrokafyllri og djarfari uns þeir sáðu fræjum efasemda með bæklingum sem þeir rituðu eigin hendi. Þeir gáfu út þessa bæklinga og dreifðu þeim víða um heim í þeirri trú að svo fávíslegt athæfi myndi ónýta sáttmálann og erfðaskrána.
Því næst risu ástvinir Drottins upp innblásnir mikilli fullvissu og staðfestu og studdir mætti Guðsríkis, guðlegum styrk, himneskri náð, óbrigðulli hjálp og guðlegu veglyndi. Þeir andæfðu óvinum sáttmálans í nær sjötíu ritgerðum, studdu mál sitt fullnaðarsönnunum, órækum vitnisburði og skýrum texta hinna helgu rita og hröktu rit efasemda og hina skaðlegu bæklinga. Höfuðpaur undirróðurs var þannig yfirbugaður í lymskufullri tilraun sinni, reiði Guðs kom yfir hann, hann varð niðurlægingu og vansæmd að bráð sem vara mun til dómsdags. Auvirðilegt og vesælt er hlutskipti illgerðamannanna, þeirra bíður hrapallegt tjón!
Og þegar málstaður þeirra var tapaður, vonir þeirra í atlögunni að ástvinum Guðs brugðust, þeir sáu fána sáttmála Hans blakta yfir öllum svæðum og urðu vitni að mætti sáttmála Hins miskunnsama, blossaði upp slíkur öfundareldur innra með þeim að orð fá ekki lýst því. Af miklum krafti og dugnaði, heift og fjandskap fóru þeir aðra leið, gengu aðra vegu, gerðu aðra áætlun sem fólst í því að tendra loga undirróðurs í innsta hring sjálfrar ríkisstjórnarinnar og koma því þannig til vegar að þessi rangtleikni, þessi bandingi, yrði talinn ófriðarseggur, óvinveittur stjórninni, hatursmaður og andstæðingur tyrknesku krúnunnar. Kannski yrði ‘Abdu’l‑Bahá líflátinn, nafn hans hyrfi og þá gæti óvinum sáttmálans opnast leikvangur þar sem þeir gætu hvatt stríðsfákinn, sótt fram, valdið öllum ómældum skaða og grafið undan undirstöðunum að voldugri byggingu málstaðar Guðs. Því svo hörmuleg er háttsemi og hegðun þessa óhreinlynda fólks, að því má líkja við öxi sem heggur að sjálfum rótum hins blessaða trés. Ef þeim leyfðist að halda sínu fram myndu þeir á fáeinum dögum útrýma málstað Guðs, orði Hans og sér sjálfum.
Því verða ástvinir Drottins að sneiða hjá þeim með öllu, forðast þá, koma í veg fyrir ráðagerðir þeirra og rógburð, verja lög Guðs og trú Hans, fá alla til að helga sig því verkefni að dreifa ljúfum ilmi Guðs víðs vegar og gera sitt ýtrasta til að kunngera kenningar Hans.
Hver sem í hlut á, hver sem sá fundur er sem kemur í veg fyrir að ljós trúarinnar skíni, þeim hinum sömu skulu ástvinirnir ráðleggja og segja: „Af öllum gjöfum Guðs er gjöf kennslunnar mest. Hún laðar að okkur náð Guðs og er frumskylda okkar. Hvernig getum við svipt okkur slíkri gjöf? Nei, líf okkar, eigur, þægindi og hvíld – öllu þessu fórnum við Abhá fegurðinni og kennum málstað Guðs.“ Þó skal gæta varúðar og skynsemi líkt og skráð er í bókina. Blæjunni má ekki svipta í sundur í skyndi. Dýrð allra dýrða sé með ykkur.
Ó þið trúfastir ástvinir ‘Abdu’l‑Bahá! Ykkur ber skylda til að bera mesta umhyggju fyrir Shoghi Effendi, kvistinum sem hefur sprottið af heilögu og guðdómlegu lótustrjánum tveimur og ávextinum sem þau hafa borið, til þess að enginn vottur örvæntingar og sorgar megi flekka geislandi eðli hans og hann megi dag frá degi verða hamingjusamari, glaðari og andlegri, vaxa og bera ríkulegan ávöxt.
Því hann er, að ‘Abdu’l‑Bahá gengnum, Verndari málstaðar Guðs. Afnán, Hendur (stoðir) málstaðarins og ástvinir Drottins verða að hlýðnast honum og snúa sér til hans. Sá sem ekki hlýðnast honum, hefur ekki hlýðnast Guði, sá sem snýr baki við honum hefur snúið baki við Guði og sá sem afneitar honum hefur afneitað Hinum sanna. Varist að nokkur mistúlki og rangfæri þessi orð líkt og þeir sem rufu sáttmálann eftir uppstigningardag Bahá’u’lláh, setji fram tylliástæður, dragi að hún fána uppreisnar, fyllist mótþróa og opni á gátt dyr falstúlkana. Engum er gefinn réttur til að setja fram sína eigin skoðun eða láta í ljósi sína persónulegu fullvissu. Allir verða að leita leiðsagnar og snúa sér að Miðju málstaðarins og Húsi réttvísinnar. Og sá sem snýr sér eitthvað annað hefur vissulega ratað í hrapallega villu.
Dýrð allra dýrða hvíli yfir ykkur!
Fyrsti hluti
Hér vísar ‘Abdu’l‑Bahá til sáttmálans sem Bahá’u’lláh gerði við fylgjendur sína. ‘Abdu’l‑Bahá ber einnig lof á þá átrúendur sem ekki hafa látið afvegaleiðast af orðum og gerðum sáttmálsbrjótana. Hann líkir sáttmálanum við skjöld og voldugt virki sem hefur verndað bahá’í trúna gegn þeim klofningi sem sundrað hefur öðrum heimstrúarbrögðum.
‘Abdu’l‑Bahá vísar hér til Shoghi Effendi sem er ávöxtur af sameiningu fjölskyldna Bábsins og Bahá’u’lláh. Dagur hins mikla aðskilnaðar er uppstigning Bahá’u’lláh 27. maí 1892.
Hin blessaða fegurð, Abhá fegurðin, Sól heimsins, Hinn rangtleikni eru myndhvörf sem vísa til Bahá’u’lláh.
Mírzá Yaḥyá var hálfbróðir Bahá’u’lláh. Hann var upphafsmaður þeirra miklu þrenginga sem steðjuðu að bahá’í samfélaginu eftir píslarvætti Bábsins og stóðu meðan Bahá’u’lláh lifði, eða í um 40 ár.
Mírzá Muḥammad ‘Alí var hálfbróðir ‘Abdu’l‑Bahá og vann gegn honum alla hans ævi. Eftir uppstigningu Bahá’u’lláh tók hann ófrjálsri hendi nokkur mikilvæg skjöl og innsigli sem Bahá’u’lláh hafði falið í vörslu ‘Abdu’l‑Bahá. Hann breytti texta í nokkrum þeirra og notaði þau í tilraunum sínum til að sölsa undir sig forystu í bahá’í samfélaginu og skapa ótta og uppnám tyrkneskra stjórnvalda. Hann skipulagði einnig nokkur morðtilræði við ‘Abdu’l‑Bahá.
Mírzá Badí‘u’lláh var annar hálfbróðir ‘Abdu’l‑Bahá. Hann gaf út skriflega játningu um að hafa séð Muḥammad ‘Alí falsa skjölin sem hann tók ófrjálsri hendi frá ‘Abdu’l‑Bahá. Badí‘u’lláh gekk síðan aftur til liðs við sáttmálsbrjótana. Þegar hann var fimmtán ára sendi hann frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann væri hinn fyrirheitni sem Bábinn hafði sagt fyrir um.
Sonur Mírzá Muḥammad ‘Alí.
Annar hluti