39: Hann er Guð. Ó Þú sem gert hefur upphafna fótskör Þína…

Ég bið Þig með hjarta sem brennur í eldi ástar Þinnar, tárfellandi í löngun sinni til að komast í návist Þína og í þrá sinni að hljóta inngöngu í ríki dýrðar Þinnar og smakka sætleikann af trúfestinni við Þig, að aðstoða þennan þjón náðarsamlega með andvara heilagleika Þíns og unaðinum af samneytinu við Þig. Ger þennan þjón sigursælan, ó Guð minn, með herskörum Þíns aldýrlega ríkis og bylgjunum á úthafi alltumlykjandi náðar Þinnar, þennan þjón sem heillast af félagsskap engla Þinna á hæðum og upptendrast í eldi ástar Þinnar meðal þjóna Þinna. Hann þjónar málstað Þínum meðal þjóða heimsins og miklar nafn Þitt frammi fyrir valdhöfum þjóðanna. Hann dreifir ljúfum ilmi Þínum á mannfundum sem haldnir eru til að minnast Þín og hefur hafið á loft fána Þinn meðal fjöldans. Hann hefur beint ásjónu sinni að forgarði dýrðar Þinnar og er upplýstur ljósi óbifandi staðfestu í sáttmála Þínum og erfðaskrá. Hann leitast við að gera öllum kleift að vera staðfastir í boðum Þínum til þeirra sem Þú hefur útvalið og sem þú hefur ákvarðað þeim sem eru Þér kærir með innsigli endanlegra boða Þinna.

Ó Drottinn! Veit honum liðveislu með ósýnilegum herskörum Þínum og styrk hann með mætti heilagra engla Þinna. Ger hann að tindrandi stjörnu, geislandi ljósgjafa, skæru ljósi, andvara frá sléttum dýrðar Þinnar, ilm blómanna á völlum miskunnar Þinnar, geisla frá Þínu guðdómlega ríki, glampa frá sólinni á himni einingar Þinnar og gunnfána sem blaktir á tindum mikillar hátignar Þinnar og einstæðis. Ó Drottinn! Styrk lendar hans með sigursælum mætti Þínum og styð hann meðal manna með dýrlegu drottinvaldi Þínu. Gef því að öll hjörtu laðist að honum, sérhver hugur undrist í návist hans og allir ljái eyru máli hans; og einnig að allra sjónir beinist að glaðri ásýnd hans og öll hjörtu furði sig á birtunni sem frá henni stafar. Þú ert sannarlega hinn voldugasti, hinn upphafnasti, hinn aldýrlegi, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn miskunnsamasti, sá sem allt elskar.

Þótt þessum lítilláta þjóni gefist enginn tími til bréfaskipta þessa dagana, hefur ljúfur ilmurinn af kærleika ástvina Guðs heillað svo hjarta mitt að þegar ég skrifa renna taumar viljans úr greipum mér og orðin streyma óheft. Skrifin vekja mér sérstaka gleði og hamingju og færa mér unað þegar hugurinn beinist að þér sem í hjarta sínu þráir Guð. Þrenging breytist í hjartanlegan fögnuð og erfiði í blessun fyrir sálina.

Þetta er dagurinn þegar við ættum öll að safnast saman í forsælunni af orði einingarinnar. Logum eins og ljómandi kerti á hverjum mannfundi og brennum í eldi ástarinnar. Nú þegar fegurð Hins altignaða hefur stigið upp og sól ríkisins er gengin til viðar, að hverju getum við beint ást okkar og hvaða huggunar getum við vænst? Hvernig eigum við að finna hvíld og hver er sú von sem getur fært hjörtum okkar gleði? Ó hversu aumt væri ekki að leita rósemi eða huggunar eitt andartak. Vei okkur, þúsund sinnum vei ef við leituðum nokkurs friðar og rósemi í öðru en þrengingu, raunum og þjáningu sem þoluð er á vegi Hans.

Þessi heilaga Verund eyddi dögum sínum í hlekkjum og fjötrum og lifði allt til æviloka undir ógn sverðsins. Hann fann ekki andartaks hvíld og fékk hvergi ró. Ekki eitt andartak hvíldi Hann á góðum beði né lagði höfuð sitt á mjúkan svæfil. Sérhver fugl á sér hreiður og hver skepna sér hæli, en Hin blessaða fegurð tærðist í eldi grimmdar sem óvinir Hans kveiktu. Hér í heimi sofa mennirnir rótt á beðum sínum en Hinu mesta nafni veittist ekki andartaks næði og enginn friður. Hvaða mælikvarði sanngirni eða trúmennsku heimilar okkur að leita hvíldar eða sækjast eftir huggun og hægindum?

Lof sé Guði að þú þjónar málstað Hans dag og nótt og kappkostar af einlægni að dreifa ilmi Hans og útbreiða dýrðina af ljósi þekkingar Hans. Við þitt eigið líf! Þetta er hylli sem veitist meðal gjafa Guðs og engin önnur gjöf í þessari veröld fær nokkru sinni jafnast á við hana. Áður en langt um líður mun dýrð hennar birtast og ilmþrunginn andvari berast vítt um lendur, mildur andblærinn af sléttum hennar líða yfir og logntært vatn streyma úr lindum hennar. Þá munt þú sjá spottarana færa þakkir og þá sem kveina og andvarpa flytja lofgjörð. Þú munt sjá öfundarmennina iðrast og rægitungurnar skera hendur sínar og hrópa: „Máttugi Guð! Þetta er ekki dauðleg vera! Þetta er ekki annað en göfugur engill.“ „Sannlega bíður hinna guðhræddu farsæld.“

Í stuttu máli: eftir uppstigningu sína hélt Hinn sjálfumnógi fyrirheit sín. Hann færði læknisdóm sem græddi hjörtun og lét mildan andvara gleðinnar berast yfir. Hann aðstoðaði ástvini sína með hersveitum hins ósýnilega og staðfesti þá með mætti ríkisins. Hann hjálpaði vinum um alla jörð og liðsinnti ástvinum sínum í sérhverju landi. Geislar dýrðar Hans breiddist um austrið og áhrif Hans bárust um vestrið. Óvinir Hans sættu hvarvetna niðurlægingu og fjandmenn Hans stóðu eftir einir og yfirgefnir. Sérhver valdsmaður missti máttinn og sérhver drembinn misgerðamaður laut lágt og enginn hjálpaði þeim.

Hugleið hvernig hinir fávísu á jörðinni hófust handa og beittu leyndum leiðum til að skapa deilur og sundurlyndi, reittu stjórnvöld í Persíu til reiði, tóku þátt í uppreisn og sköpuðu glundroða. Þannig kom berlega í ljós að þeir voru undirrót allra misgerða og uppspretta allrar illkvittni. Þannig voru þeir sem stuðla að friði skildir frá hinum uppreisnargjörnu og atburðirnir sem gerðust í kjölfarið afhjúpuðu duldar fyrirætlanir þeirra. Þannig varð ljóst að þeir voru úlfar í sauðargæru, þjófar dulbúnir sem varðmenn, þrúgandi myrkur í heiminum og geigvæn hindrun fyrir velferð og farsæld allra manna.

Á sama hátt safnaðist saman hópur óvina í borginni miklu og leituðust við með hverskyns svikabrögðum, refjum og launráðum að eyðileggja málstað Guðs, dreifa fundum ástvina Hans og valda klofningi meðal fylgjenda Hans. Ég sver við Hina öldnu fegurð! Þegar þessi fjandmannafjöld tók höndum saman við hinn blygðunarlausa Jamálu’d-Dín, kveiktu þeir slíkan uppreisnareld í borginni miklu, að óttast var að logar hennar gætu teygt sig til háleits aðseturs Hans sem allt á jörðu hverfist um og að skaðinn sem af því hlytist myndi ógna undirstöðum málstaðar Guðs. Þá birtist hönd almættisins úr ósýnilegu ríki Hans og tvístraði þeim svo að ekkert stóð eftir nema handfylli af ryki og þeir voru dæmdir til eilífrar glötunar.

Þess vegna skulum við í þakkarskyni fyrir guðlega staðfestingu Hans kosta kapps dag og nótt við að upphefja orð Hans, gleðjast við eld kærleika Hans og hefja upp raustir okkar til að minnast Hans og vegsama. Hvernig getum við haldið kyrru fyrir í ljósi slíkrar miskunnar, slíkra gjafa, aðstoðar og liðveislu? Hvernig getum við setið þögul? Ó, hversu aumkunarvert væri það ekki ef við stöldruðum við, hikuðum eða létum undir höfuð leggjast að fórna sálum okkar! Hversu aumkunarvert væri það ekki ef við beindum hjörtum okkar að hverfulum hlutum í stað þess að bergja þetta dulúðga vín! Vei okkur ef við höldum áfram að láta eftir eigingjörnum hneigðum okkar, erum upptekin af jarðneskum áhyggjum og fylgjum freistingum ástríðna, sem svipta okkur þessum náðargjöfum, og neitum okkur um skerf af þessu alskæra ljósi. Sem ég lifi! Sannarlega væri það ekki annað en augljóst tjón.