25: Hann er Guð. Ó þið sem eruð stöðug og staðföst…

læti á alla vegu til þess að geta blindað augu þeirra sem Hann elskar frá því skínandi bjarta Ljósi og hafið sig upp til frama og frægðar í skjóli drungamyrkurs næturinnar. Þar sem rök þeirra reyndust haldlaus gegn Honum, lögðu þær á ráðin um brottför Hinnar blessuðu fegurðar. Þær gripu til fjölmargra vélabragða í von um að Sól heimsins hnigi til viðar undir sjónarrönd Íraks og til að hindra að ljós heilagleikans gæti skinið frá hæðum guðlegrar einingar. Og þannig gerðist það að þær færðu Hina blessaða fegurð í útlegð frá austri til vesturs.

En þessi útlegð og einangrun varð til þess að upphefja orð Guðs og kom því til vegar að ilmurinn guðdómlegi barst víða. Örn málstaðar Hans sveif upp á hæstu tinda tignar og mikilleika og sól orða Hans skein ofar sjónarhring máttar og valds. Þessi niðurlæging varð uppspretta staðfestingar og þessi mikla fjarlægð kom til leiðar endurfundum. Lífskraftur trúar Guðs efldist og frægð hennar barst til annarra landa. Trúin var þegar þekkt í Persíu, en útlegðin varð til þess að öll jörðin ómaði af lofgjörð til hennar og orðstír hennar breiddist um allan heim.

Þótt þetta hefði átt að vera hinum fávísu lærdómur leiddi það til enn meira gáleysis. Skömmu síðar hófu þeir aftur fána haturs á loft, sáðu fræjum illsku og meinfýsi í hjörtun og espuðu ákveðna óvini gegn Honum. Þeir fundu bandamann í Mírzá Yaḥyá, þann sem Bábinn hafði tilnefnt. Hans tign sendiherrann notaði þennan fákæna einstakling sem sitt helsta tæki til að ala á svikabrögðum. Mírzá Yaḥyá hafði borið þá von í brjósti að ef hægt væri að fjarlægja lampa hins dýrlega ríkis frá gróp sinni í Vestri myndi það ráða niðurlögum þessa nýja málstaðar og mikillar náðar hans. Hann tók því höndum saman við sendiherrann og byrjaði opinskátt og í launi að þyrla upp moldviðri svika og undirróðurs. Hann taldi sér trú um að þetta myndi skaða Hina öldnu fegurð og valda blessaðri persónu Hans tjóni meðan hann sjálfur væri óhultur. En því fór víðs fjarri! Þegar eldur ágreinings logaði sem hæst var hinn fákæni sendur í útlegð jafnvel áður en Fegurð Hins miskunnsama hélt á brott og nú hefur hann kveinað sáran í afgrunni vonbrigða og tjóns allt fram á þennan dag.

En þegar þessi skínandi Sól reis yfir sjónarhring dýflissunnar flæddi ljós heilagleika Hans yfir landið helga, eldur Guðs brann í björtum loga og ylur ástar Hans vermdi hjarta heimsins. Alltumlykjandi veruleiki orðs Guðs steig frá lægstu lægðum upp í hæstu hæðir og leyndardómur þessara orða kom í ljós: „Fúslega myndu þeir slökkva ljós Guðs með munni sínum, en Guð fullkomnar ljós sitt þótt hinir trúlausu hati það.“ Hversu vel hefur skáldið ekki komist að orði: „Jafnvel óvinur getur orðið uppspretta góðs, ef það er ósk Drottins.“

Sjá hve voldug og órannsakanleg viska Guðs er. Fyrir um þrjú þúsund árum flutti Hann gleðitíðindi til landsins helga eins og þessi í orðastað spámannanna: Fagna, ó landið helga, því að þú verður fótskör Hins miskunnsama! Tjaldbúð Drottins verður slegin upp, ljúfur ilmur heilagleikans mun berast og sól heilagleikans brjótast fram úr skýjunum. Fagna mikillega, ó landið helga, fagna! Þessi bjarti máni mun skína á himni þínum og þessi dýrlega sól ljóma úr austri þínu.

Hann sem er þrá heimsins vildi með fullkominni visku sinni efna loforð spámannanna sem gefin voru fyrir um tveimur eða þremur þúsund árum. Hann vakti óvini sína og gerði þá að verkfærum síns alknýjandi valds, svo að þeir gætu með eigin höndum gengið af málstað sínum dauðum og sent þetta skínandi Ljós í útlegð frá heimalandi sínu með þeim afleiðingum að ljómi þess náði landinu helga og fyrirheit spámannanna rættust, þessi heilagi dalur varð samkomustaður vina Guðs og þessi helgu héruð miðdepill hins himneska vettvangs, ljós guðlegrar einingar skein og myrkur vanþekkingar hraktist á brott. Þetta kemur sannarlega frá fullkominni visku og margvíslegum gjöfum Drottins ykkar og alltumlykjandi miskunn Ástvinar hjartna ykkar.