Yfirlýsing frá skrifstofu Alþjóðlega bahá’í samfélagsins hjá Sameinuðu þjóðunum, New York
Þjóðir á tímamótum
Yfirlýsing frá Alþjóðlega bahá’í samfélaginu í tilefni hálfrar aldar afmælis Sameinuðu þjóðanna
„Sameining alls mannkyns er einkenni þess áfanga sem mannlegt samfélag er nú að nálgast. Eining fjölskyldunnar, ættbálksins, borgríkisins og þjóðarinnar eru áfangar sem hafa náðst hver á fætur öðrum og eru fullreyndir. Heimseining er það takmark sem marghrjáð mannkyn leitar að. Þjóðabyggingu er lokið. Stjórnleysið sem er innbyggt í fullveldi þjóðríkisins er að ná hámarki. Heimur á þroskabraut verður að hverfa frá þessu átrúnaðargoði, viðurkenna einingu og heild mannlegra tengsla og stofnsetja í eitt skipti fyrir öll það skipulag sem best getur uppfyllt þetta grundvallarlögmál lífsins.“
Shoghi Effendi, 1936
I. Yfirsýn: Tækifæri til íhugunar
Tuttugasta öldin, tímabil einhverra mestu hamfara í sögu mannkyns, hefur einkennst af fjölmörgum byltingum, umbrotum og róttæku fráhvarfi frá fortíðinni. Sum þessara umbrota, allt frá hruni nýlendukerfisins og hinna voldugu keisaradæma nítjándu aldar til upphafs og endaloka mikilla og gæfulausra tilrauna með einræði, fasisma og kommúnisma, hafa haft gríðarlega eyðileggingu í för með sér, valdið dauða milljóna, þurrkað út gamlar hefðir og lífsmynstur og leitt til hruns gamalgróinna stofnana.
Aðrir straumar og hreyfingar hafa verið sýnu jákvæðari. Vísindauppgötvanir og ný félagsleg innsýn hafa orðið aflvaki ýmissa framsækinna breytinga á sviði þjóðfélags-, efnahags- og menningarmála. Brautin hefur verið rudd fyrir nýja skilgreiningu á mannréttindum, staðfestingu á mannlegri reisn og auknum tækifærum til dáða, bæði af hálfu einstaklinga og samfélags. Djarfar, nýjar leiðir hafa verið opnaðar til að efla mannlega þekkingu og vitund.
Þessi samtvinnuðu ferli – hrun gamalla stofnana annars vegar og hugarfarsbreyting hins vegar – eru vitnisburður um eina og sömu hvöt sem hefur vaxið ásmegin síðustu hundrað árin: hvöt til aukinna innbyrðis tengsla og einingar mannkyns.
Þessi hvöt birtist með ýmsu móti, m.a. í samruna efnahagskerfa, sem fyrir sitt leyti endurspeglar hve háð mannkynið er margvíslegum og innbyrðis tengdum orkulindum, fæðu, hráefni, tækni og þekkingu, og í uppbyggingu heimsumlykjandi samskipta- og flutningskerfa. Hún endurspeglast í vísindalegum skilningi á samtengdu lífríki jarðar, sem fyrir sitt leyti hefur gefið þörfinni fyrir samræmingu á heimsvísu nýtt vægi. Hún birtist að vísu með eyðileggjandi hætti, í mætti nútíma vopnakerfa, sem smám saman hafa orðið öflugri þannig að nú geta fáeinir einstaklingar bundið enda á mannlega siðmenningu. Það er almenn meðvitund um þessa hvöt – bæði í uppbyggilegu og eyðandi formi sínu – sem gerir hina kunnuglegu ljósmynd af jörðunni svo áhrifaríka: hnöttur í bláu og hvítu sem snýst á braut sinni með óendanlegt svartnætti geimsins í bakgrunni. Í þeirri mynd kristallast vitundin um að við erum ein þjóð, auðug í margbreytileika, sem lifir í einu og sama ættlandi.
Þessi hvöt endurspeglast einnig í stöðugri viðleitni þjóða heims til að móta pólitískt heimsskipulag sem geti tryggt mannkyni möguleika á friði, réttlæti og hagsæld. Tvisvar á þessari öld hefur mannkynið reynt að koma á fót nýju alþjóðaskipulagi. Báðar tilraunir voru svör við vaxandi viðurkenningu á órofa hnattrænum tengslum, en eigi að síður var reynt að varðveita í óbreyttri mynd það kerfi, sem setur fullveldi þjóðríkisins ofar öllu öðru. Frá sjónarhorni þeirrar aldar sem nú er að renna sitt skeið, var Þjóðabandalagið bylting hvað varðar hugmyndina um sameiginlegt öryggi og fyrsta einbeitta skrefið í átt til heimsskipulags.
Önnur tilraunin fæddist af hamförum síðari heimsstyrjaldarinnar og byggist á stofnskrá sem var í meginatriðum samin af sigurvegurum þeirra stórátaka. Hún hefur í hálfa öld verið síðasta haldreipið á alþjóðavettvangi, einstæð stofnun og göfugt tákn um sameiginlega hagsmuni alls mannkyns.
Sem alþjóðleg samtök hafa Sameinuðu þjóðirnar sýnt fram á getu mannkyns til sameinaðs átaks á sviðum heilbrigðis- og landsbúnaðarmála, menntunar, umhverfisverndar og velferðar barna. Hún hefur staðfest sameiginlegan siðferðisvilja okkar til að byggja upp betri framtíð eins og sjá má í almennri staðfestingu alþjóðlegra mannréttindasáttmála. Hún hefur verið farvegur fyrir djúpstæða samúð mannkyns eins og kemur í ljós þegar efnahagsaðstoð og mannauði er beint til hjálpar nauðstöddum. Og á mikilvægustu sviðum friðaruppbyggingar, sáttaumleitana og friðargæslu, hafa Sameinuðu þjóðirnar rutt djarfa braut til framtíðar án stríða.
Samt hafa þau heildarmarkmið sem sett eru í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna reynst torveld viðureignar. Þrátt fyrir þær miklu vonir sem stofnendurnir bundu við Sameinuðu þjóðirnar fyrir um fimmtíu árum, mörkuðu þær ekki upphaf tímabils friðar og hagsældar fyrir alla.
Þótt Sameinuðu þjóðirnar hafi vissulega átt þátt í að koma í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina, hefur síðasti hálfi áratugurinn einkennst af fjölmörgum styrjöldum innan þjóðríkja og á afmörkuðum svæðum heims, sem kostað hafa milljónir mannslífa. Um leið og bætt tengsl stórveldanna höfðu rutt úr vegi hugmyndafræðilegum ástæðum slíkra átaka, tók að loga í gömlum glæðum þjóðernis- og sértrúardeilna og þær urðu ný uppspretta styrjalda. Þótt endalok kalda stríðsins hafi dregið úr ógn gereyðingarstríðs, eru samt enn til tól og tækni – og að nokkru leyti óleyst hitamál – sem gætu leitt til heimseyðingar.
Alvarleg vandamál blasa einnig við í málefnum þjóðfélagsins. Þótt samkomulag hafi náðst á hærri stigum um heimsáætlanir varðandi bætta heilbrigðisþjónustu, sjálfbæra þróun og mannréttindi, hafa aðstæður á mörgum svæðum versnað. Allt hnígur að einu og sama marki. Öfgafull kynþáttastefna og trúarofstæki hefur náð uggvænlegri útbreiðslu. Auðhyggja grefur um sig líkt og illkynja æxli, afbrot og skipulögð glæpastarfsemi eru orðin að faraldri, blint og tilefnislaust ofbeldi færist í aukana, bilið milli ríkra og fátækra breikkar stöðugt, áframhaldandi ójöfnuður blasir við konum, víðtækt hrun fjölskyldulífsins veldur skaða á komandi kynslóðum, öfgar og siðleysi stjórnlauss kapítalisma stigmagnast ásamt pólitískri spillingu. Að minnsta kosti einn milljarður manna býr við sárustu neyð og meira en þriðjungur heimsbúa er ólæs.
Tímabært er á hálfrar aldar afmæli Sameinuðu þjóðanna, þegar þetta tvíþætta ferli hruns og endurnýjunar knýr heiminn að einhvers konar suðumarki, að staldra við og íhuga hvernig mennirnir geti sameiginlega horfst í augu við framtíðina. Raunar hafa nýlega komið fram gagnlegar og víðfeðmar tillögur sem miða að því að styrkja Sameinuðu þjóðirnar og auka getu þeirra til að samræma viðbrögð þjóða við þessum ögrunum.
Þessar tillögur má í grófum dráttum flokka í þrennt. Í einum flokknum er fyrst og fremst tekist á við vanda skrifræðis, stýringar og fjármögnunar í stjórnkerfi Sameinuðu þjóðanna. Í öðrum flokknum eru tillögur sem miða að endurskipulagningu stofnana eins og Efnahags- og félagsmálastofnunarinnar, Trúnaðarráðsins, Alþjóðabankans og systurstofnana hans. Enn aðrir vilja breytingar á pólitískri gerð Sameinuðu þjóðanna og hvetja til dæmis til stækkunar Öryggisráðsins og/eða endurskoðunar á sjálfri stofnskrá Sameinuðu þjóðanna.
Flestar þessar tillögur eru spor í rétta átt, aðrar fela einnig í sér áeggjan. Meðal hinna best grunduðu er skýrsla nefndar um heimsstjórnun, sem nefnist Hnattræna hverfið okkar. Þar eru færð rök að víðtækri upptöku nýrra gilda og jafnframt gerðar tillögur um formgerðarbreytingar á Sameinuðu þjóðunum.
Með því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vill Alþjóðlega bahá’í samfélagið leggja sitt af mörkum til frekari umræðna og samráðs um þetta áríðandi málefni.
Sjónarmið okkar byggist á þremur frumtillögum. Í fyrsta lagi þurfa umræður um framtíð Sameinuðu þjóðanna að eiga sér stað í víðu samhengi þróunar og stefnu alþjóðaskipulags. Sameinuðu þjóðirnar hafa þróast samhliða öðrum miklum stofnunum síðari hluta tuttugustu aldar. Sem ein heild munu þessar stofnanir skilgreina – og sjálfar mótast af – þróun alþjóðaskipulagsins. Þess vegna ætti að skoða ætlunarverk, starfsreglur og jafnvel starfsemi Sameinuðu þjóðanna eingöngu í ljósi þess hvernig þær falla inn í víðari markmið þessa skipulags.
Í öðru lagi er líkami mannkynsins einn og ósundurgreinanlegur og sérhver meðlimur mannkynsins fæðist í heiminn í verndarskjóli heildarinnar. Þessi tengsl milli hins einstaka og hins almenna er siðferðilegur grundvöllur flestra mannréttinda sem deildir og stofnanir Sameinuðu þjóðanna reyna að skilgreina. Þau þjóna líka því hlutverki að skilgreina forgangsmarkmið fyrir alþjóðaskipulagið við grundvöllun og vernd réttinda einstaklingsins.
Í þriðja lagi verða umræðurnar um framtíð alþjóðaskipulagsins að ná til og vekja áhuga alls þorra mannkyns. Þessi umræða er svo mikilvæg að ekki er hægt að einskorða hana við leiðtoga þess – hvort sem þeir starfa á sviði stjórnmála, viðskipta, akademískra stofnana, trúarbragða eða borgaralegra félagasamtaka. Þvert á móti verður þessi umræða að ná til manna og kvenna í grasrótinni. Almenn þátttaka mun gera þetta ferli sjálfsstyrkjandi með því að efla vitund um heimsborgararétt og auka stuðning við útvíkkun alþjóðaskipulagsins.
II. Viðurkenning á sögulegu samhengi:
Ákall til heimsleiðtoga
Alþjóðlega bahá’í samfélagið lítur á ríkjandi glundroða í heiminum og hörmungarástand mannlegra málefna sem eðlilegan áfanga í lífrænu þroskaferli sem að endingu mun óhjákvæmilega sameina mannkynið í einu þjóðskipulagi með plánetuna að fósturjörð.
Mannkynið hefur, sem sérstök lífræn heild, gengið í gegnum þroskastig sem líkja má við frumbernsku og æskuár í lífi einstaklinganna og er nú að ná hámarki á umbrotasömu gelgjuskeiði sem er undanfari hins langþráða fullþroska þess. Ferli hnattrænnar sameiningar, sem þegar er veruleiki á sviði kaupsýslu, efnahagsmála og fjarskipta, má nú greina í verki á pólitískum vettvangi.
Frá sögulegu sjónarmiði hafa skyndilegir og hamfarakenndir atburðir hraðað þessari þróun. Eldskírn heimstyrjaldanna beggja ól af sér Þjóðabandalagið og Sameinuðu þjóðirnar, hvort á sínum tíma. Valkostirnir sem blasa við öllum sem á jörðunni búa eru hvort hliðstæð framtíðarafrek verða aðeins unnin að undangengnum sams konar óumræðilegum skelfingum eða með viljaátaki til samráðs. Það væri fullkomið ábyrgðarleysi að láta undir höfuð leggjast að grípa til afgerandi ráðstafana.
Þar sem valdið er nú hjá þjóðríkinu, hvílir sú skylda á þjóðarleiðtogum og ríkisstjórnum að ákveða í smáatriðum formgerð hins upprennandi alþjóðaskipulags. Við hvetjum leiðtoga á öllum stigum til að veita þeirri tillögu einarðan stuðning að haldin verði ráðstefna heimsleiðtoga fyrir aldamót sem fjalli um hvernig megi skilgreina alþjóðaskipulagið upp á nýtt og endurreisa það til að mæta þeirri áeggjan sem blasir við heiminum. Þessa ráðstefnu mætti, eins og sumir hafa lagt til, nefna Heimsráðstefnu um alþjóðlega stjórnun.
Þessi leiðtogafundur gæti byggt á reynslu sem áunnist hefur á afar vel heppnuðum ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna fyrr á þessum áratug. Þessar ráðstefnur, m.a. Heimsráðstefna um börn árið 1990, Ríó-ráðstefnan 1992, Mannréttindaráðstefnan 1993, Mannfjöldaráðstefnan 1994, Ráðstefna um félagslega þróun 1995 og fjórða heimsráðstefnan um málefni kvenna 1995, hafa lagt grunn að nýjum leiðum til umfjöllunar um mikilvæg hnattræn málefni.
Mikil þátttaka borgaralegra félagasamtaka hefur verið lykillinn að þessum árangri. Þaulhugsaðir samningar ríkisstjórnarfulltrúa um breytingar á pólitískri, félagslegri og efnahagslegri formgerð heimsins hafa mótast af upplýstri og öflugri þátttöku þessara félagasamtaka, sem hneigjast til að endurspegla þarfir og áhyggjuefni fólks í grasrótinni. Það er einnig þýðingarmikið að í sérhverju tilviki var fundur þjóðaleiðtoga í návist borgaralegs samfélags og heimsfjölmiðla eins konar löggilding ráðstefnanna og þess samkomulags sem þar náðist.
Þegar heimsleiðtogar búa sig undir þá ráðstefnu, sem lagt er til að verði haldin, væri viturlegt af þeim að draga lærdóm af þessu, reyna að ná til eins margra og unnt er og tryggja velvild og stuðning almennings í heiminum.
Sumir óttast að alþjóðlegar pólitískar stofnanir muni óhjákvæmilega þróast í átt til óhóflegrar miðstýringar og verða tilgangslaust skrifræðisbákn. Kunngera þarf skýrt og skorinort að sérhver ný formgerð heimsstjórnunar tryggi, bæði í meginreglu og reynd, að ábyrgðin á ákvarðanatöku hvíli á réttum stjórnstigum.
Ekki er alltaf auðvelt að finna hið rétta jafnvægi. Annars vegar getur aðeins fólkið sjálft, bæði sem einstaklingar og samfélag, náð raunverulegum þroska og framförum á grundvelli sérstakra íhugunarefna og þarfa hvers tíma og staðar. Hægt er að færa rök að því að valddreifing sé fortakslaust skilyrði þróunar. Hins vegar þarf að marka alþjóðaskipulaginu skýra og ákveðna stefnu og samræmingu á heimsvísu.
Í samræmi við meginreglur valddreifingar, sem voru útskýrðar hér að ofan, ætti því að veita alþjóðlegum stofnunum umboð til að bregðast við málefnum sem hafa alþjóðlega þýðingu, þegar ríki geta ekki gert ráðstafanir á eigin spýtur eða tryggt að réttindi þjóða og aðildarríkja njóti verndar. Öllum öðrum málum ætti að vísa til þjóða- eða svæðisstofnana.
Þegar sérstök frumdrög eru gerð að alþjóðlegri framtíðarskipan ættu leiðtogar einnig að íhuga hvernig nálgast eigi stjórnun á breiðum grundvelli. Lausnin þarf ekki að felast í einu sérstöku viðurkenndu stjórnarformi heldur gæti hún falið í sér sættir og samræmt þá heilbrigðu þætti sem hægt er að finna í þeim öllum.
Alríkiskerfið er til dæmis eitt þeirra stjórnunarlíkana, sem staðist hafa tímans tönn og gæti rúmað fjölbreytileika heimsins innan eins og sama ramma. Stefna sambandsstjórnar hefur reynst virk við að draga úr miðstýringu og dreifa ákvarðanatöku í stórum, flóknum og ósamstæðum ríkjum, samtímis sem hún viðheldur ákveðnu stigi heildareiningar og stöðugleika. Annað líkan sem er vert að íhuga er samveldið sem í alþjóðasamhengi myndi taka hagsmuni heildarinnar fram yfir hagsmuni einstakra þjóða.
Sérstaka aðgætni ætti að sýna við hönnun alþjóðaskipulags svo það úrkynjist ekki með tímanum í einhvers konar harðstjórn, fámennisstjórn eða veldi lýðskrumara sem spilla lífi og stjórnarfari þeirra pólitísku stofnana sem mynda kerfið.
Þegar endurskoðun fyrsta áratugarins fór fram á stofnskrá Sameinuðu þjóðanna árið 1955, afhenti Alþjóðlega bahá’í samfélagið Sameinuðu þjóðunum yfirlýsingu sem var byggð á hugmyndum, sem Bahá’u’lláh hafði sett fram nær einni öld áður. „Hugmynd bahá’ía um heimsskipulag er skilgreint þannig: Mynda verður yfirríki og í þess þágu munu allar þjóðir afsala sér sérhverju tilkalli til stríðsreksturs, tiltekinna réttinda til skattheimtu og öllum rétti til viðhalds vopnabúnaðar nema til þess að halda uppi lögum og reglu innan landamæra sinna. Slíkt ríki verður að hafa með höndum alþjóðlegt framkvæmdavald sem hefur fullt og óskorað umboð til að koma lögum yfir sérhvern þvermóðskufullan meðlim samveldisins; heimsþing sem kosið er til af þjóðunum og kjör þingmanna samþykkt af ríkisstjórnum viðkomandi landa; og hæstarétt sem fellir bindandi dóma, jafnvel í tilvikum þar sem málsaðilar hafa ekki samþykkt að mál þeirra yrðu lögð fyrir.“
Þótt við trúum því að þessi framsetning á heimsstjórnun sé hvorutveggja í senn endanlegur skjólgarður og óhjákvæmileg forlög mannkynsins, viðurkennum við að hún felur í sér langtímasýn á heimssamfélagið. Með hliðsjón af brýnni þörf ríkjandi ástands, þarf heimurinn á að halda djörfum, raunhæfum og framkvæmanlegum áætlunum sem gera annað og meira en að innblása framtíðarsýn. En ef við einbeitum okkur að heildarmyndinni, rís engu að síður skýr og samhangandi stefna fyrir þroskavænlegar breytingar úr díki mótsagnakenndra skoðana og kenninga.
III. Skilgreining á hlutverki SÞ innan upprennandi alþjóðaskipulags
Sameinuðu þjóðirnar voru meginstoð þess alþjóðlega kerfis sem sigurvegarar seinni heimsstyrjaldarinnar sköpuðu. Á áratugum hugmyndafræðilegra átaka milli austurs og vesturs voru þær vettvangur alþjóðlegra viðræðna. Með árunum hefur umboð þeirra verið aukið og felst ekki aðeins í setningu alþjóðlegra mælikvarða eða félagslegri og efnahagslegri þróunaraðstoð heldur einnig í friðargæslu á mörgum meginlöndum.
Á sama tíma hefur gjörtæk breyting orðið á pólitísku landslagi heimsins. Þegar SÞ tóku til starfa voru til um 50 sjálfstæð ríki. Nú eru þau ekki færri en 185. Í lok seinni heimstyrjaldarinnar voru ríkisstjórnir í aðalhlutverki á leiksviði heimsins. Í dag hafa vaxandi áhrif borgaralegra félagasamtaka og fjölþjóðlegra fyrirtækja skapað margbrotnara pólitískt landslag.
Þótt hlutverk Sameinuðu þjóðanna verði stöðugt flóknara, er uppbygging þeirra að meira eða minna leyti hin sama og þeirra nýju alþjóðlegu samtaka sem voru sköpuð fyrir um það bil hálfri öld. Engan þarf því að undra þótt fimmtugsafmælið hafi orðið tilefni nýrra umræðna um getu þeirra til að horfast í augu við pólitískan veruleika 21. aldarinnar. Því miður hefur borið miklu meira á lasti en lofi í þessari umræðu.
Mestöll gagnrýni sem beint er að starfsemi Sameinuðu þjóðanna byggist á samanburði við starf leiðandi samtaka í einkageiranum eða tekur mið af mælikvörðum sem byggðust á þeim uppskrúfuðu væntingum sem menn gerðu sér í upphafi. Þótt einhver sértækur samanburður geti komið að gagni við að auka skilvirkni Sameinuðu þjóðanna er almennari samanburður af þessu tagi í höfuðatriðum ósanngjarn. Sameinuðu þjóðirnar skortir ekki aðeins skýrt afmarkað valdsvið heldur einnig nauðsynleg úrræði til að bregðast við, í flestum tilvikum, svo að gagni megi koma. Ásakanir um mistök og vanrækslu SÞ eru í raun dómsáfelling yfir aðildarríkjunum sjálfum.
Ef Sameinuðu þjóðirnar eru dæmdar í einangrun frá þeim veruleika sem þær starfa í, mun okkur ætíð virðast aðgerðir þeirra skila litlum árangri. En ef litið er á þær sem þátt í stærra þróunarferli alþjóðlegs skipulags, mun hið skarpa kastljós greiningar færast af mistökum og vanköntum SÞ yfir á sigra þeirra og afrek. Þeim sem temja sér hugarfar framþróunar, er þessi byrjunarreynsla af Sameinuðu þjóðunum mikil uppspretta lærdóms um framtíðarhlutverk þeirra í alþjóðastjórnun.
Hugarfar framþróunar felur í sér getu til að sjá fyrir sér stofnun yfir langt tímaskeið, greina eðlislæga möguleika hennar til þróunar, koma auga á reglurnar sem liggja til grundvallar vexti hennar, setja fram áhrifamiklar áætlanir um skammtíma aðgerðir og jafnvel sjá fyrir róttæk rof sem kunna að verða á vegi hennar.
Ef Sameinuðu þjóðirnar eru skoðaðar frá þessum sjónarhóli koma í ljós þýðingarmikil tækifæri til að styrkja núverandi kerfi án þess að endurskipuleggja þurfi aðalstofnanir þeirra eða umbylta kjarnaferlum þeirra. Reyndar teljum við að engar tillögur til úrbóta á Sameinuðu þjóðunum geti komið að liði nema þær hafi innra samhengi og stýri SÞ eftir áætlaðri þróunarbraut í átt til auðkennilegs og viðeigandi hlutverks innan framtíðar alþjóðaskipulags.
Við trúum því að sambland tillagna sem lýst er í þessu skjali geti uppfyllt þessi skilyrði og að upptaka þeirra yrði hófsamlegt en þýðingarmikið skref í átt að réttlátara heimsskipulagi.
A. Endurlífgun Allsherjarþingsins
Sérhvert stjórnkerfi byggir á þeirri meginreglu að lög skuli ráða og sú grundvallarstofnun sem lögin setur er löggjafarsamkundan. Þótt svæðisbundin og þjóðleg lög séu yfirleitt virt, hefur ótti og tortryggni oft mótað viðhorf manna til svæðisbundinna og alþjóðlegra löggjafarþinga.
Skeytum hefur auk þess verið beint að Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir gagnsleysi þess. Þótt sumar þeirra ásakana sem beint er gegn því séu óréttmætar, eru að minnsta kosti tvenns konar ágallar sem koma í veg fyrir að Allsherjarþingið geti haft áhrif.
Í fyrsta lagi leggur ríkjandi skipulag óeðlilega áherslu á forræði þjóðríkisins, og afleiðingin er undarlegt sambland af stjórnleysi og íhaldssemi. Í endurskipulögðu kerfi Sameinuðu þjóðanna þarf löggjafavaldið og kosningafyrirkomulag þess að endurspegla þjóðir jarðarinnar jafnt sem þjóðríki.
Í öðru lagi eru ályktanir Allsherjarþingsins ekki bindandi nema hvert aðildarríki fyrir sig staðfesti þær sem sáttmála. Ef ríkjandi kerfi, sem setur fullveldi þjóðríkisins öllu ofar á að víkja fyrir kerfi sem getur einbeitt sér að hagsmunum eins samtengds mannkyns, verða ályktanir Allsherjarþingsins – innan afmarkaðra málasviða – að öðlast lagagildi, smám saman, með ákvæðum sem lúta bæði að framkvæmd og refsiaðgerðum.
Þessir tveir ágallar eru nátengdir þar sem meirihluti þjóða heimsins, sem tortryggja og óttast heimsstjórn, er ekki líklegur til að skjóta málum til alþjóðlegrar stofnunar nema hún tryggi sjálf betra jafnvægi milli þeirra.
Eigi að síður eru, til skemmri tíma litið, fimm leiðir færar til að styrkja Allsherjarþingið, bæta orðstír þess og aðlaga það stefnu til lengri tíma.
1. Hertar lágmarkskröfur fyrir aðild
Lágmarkskröfur sem gera verður til framferðis ríkisstjórnar gagnvart þjóð sinni hafa verið skýrt skilgreindar í mannréttindayfirlýsingunni og síðari alþjóðlegum sáttmálum, sem sameiginlega ganga undir nafninu Alþjóðlega mannréttindayfirlýsingin.
Án óhaggandi skuldbindingar við reglulegar, leynilegar og almennar kosningar, tjáningarfrelsi og önnur áþekk mannréttindi, hindrar aðildarríki virka og vitsmunalega þátttöku mikils meirihluta þegna sinna í málefnum eigin samfélags.
Við leggjum til að beita skuli þau aðildarríki viðurlögum, sem óvirða þessa mælikvarða. Á sama hátt ætti að neita þjóðum, sem leita viðurkenningar, um aðild þangað til þær hafa opinskátt samþykkt þessa mælikvarða eða sýna merkjanlega viðleitni í þá veru.
2. Skipun nefndar til að kanna landamæri
Óútkljáðar landamæradeilur halda áfram að vera meiri háttar uppspretta átaka og styrjalda og skýrir það hversu brýn þörf er á almennu samkomulagi um landamörk milli þjóða. Slíka sáttmála er aðeins hægt að gera að lokinni könnun á þeim geðþóttaákvörðunum sem lágu að baki upprunalegri skilgreiningu margra þjóðríkja og á öllum útistandandi kröfum þjóða og þjóðarbrota.
Í stað þess að vísa slíkum kröfum til heimsdómstóls, teljum við heppilegra að stofna sérstaka alþjóðlega umboðsnefnd til að fara í saumana á öllum kröfum, sem varða alþjóðleg landamæri og gera tillögur til aðgerða að lokinni vandlegri rannsókn málavaxta. Þannig gæti orðið til kerfi sem varaði við vaxandi spennu milli borgaralegra hópa eða þjóðernisminnihluta og lægi til grundvallar mati á stríðsógnum við aðstæður sem hægt væri að leysa tímabundið með diplómatískum leiðum.
Til að stofna raunverulegt samfélag þjóðanna til langs tíma er nauðsynlegt að leysa endanlega allan ágreining um landamæri. Þessi könnun myndi þjóna þeim tilgangi.
3. Leitað að nýjum rekstrargrund velli
Árlegur fjárlagahalli knýr Sameinuðu þjóðirnar inn í kreppustjórnarhugarfar. Orsökin er fyrst og fremst tregða nokkurra aðildarríkja við að greiða almenn aðildargjöld sín tímanlega, auk þess sem vald skortir til að innheimta vexti sem safnast upp vegna þessara tafa. Við þetta bætist enn óskilvirkni skrifræðis í hluta starfseminnar.
Frjáls framlög aðildarríkja verða aldrei trúverðug aðferð til að fjármagna alþjóðlega stofnun. Finna verður öflugar leiðir til tekjuöflunar svo að SÞ geti starfað með eðlilegum hætti. Við leggjum til að þegar verði myndaður átakshópur sérfræðinga til að hefja alhliða og gagntæka leit að lausnum.
Þegar valkostir eru skoðaðir, ætti átakshópurinn að hafa nokkrar grundvallarreglur í huga. Í fyrsta lagi ættu þjóðir sem ekki hafa þar atkvæðisrétt ekki að greiða til SÞ. Í öðru lagi ættu greiðslur, í nafni sanngirni og réttlætis, að vera stigbundnar. Í þriðja lagi ætti að finna leiðir til að hvetja til frjálsra framlaga frá einstaklingum og samfélögum.
4. Skuldbinding gagnvart alþjóðahjálpartungumáli og sameiginlegu skrifletri
Sex opinber tungumál eru nú notuð innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin myndi hagnast verulega á því að velja annað hvort eitt lifandi tungumál eða skapa nýtt sem nota ætti sem hjálpartungumál á vettvangi þess. Margir hópar hafa lengi mælt með að slíkt skref yrði stigið, allt frá esperantistum til Alþjóðlega bahá’í samfélagsins sjálfs. Auk þess að spara fé og einfalda starfsreglur, myndi slík ráðstöfun í ríkum mæli stuðla að anda einingar.
Við leggjum til að skipuð verði háttsett nefnd, skipuð meðlimum ýmissa svæða og viðeigandi málasviða, þar á meðal málvísindamönnum, hagfræðingum, félagsvísindamönnum og fulltrúum menntunar og fjölmiðla til að hefja vandlega könnun á málefnum alþjóða hjálpartungumáls og upptöku sameiginlegs skrifleturs.
Við sjáum fyrir að heimurinn hljóti að endingu, með allsherjarsamþykki, að taka upp hjálpartungumál og skrifletur sem kennt verður í skólum um allan heim auk þjóðtungu hvers lands. Tilgangurinn er að auðvelda umskipti í heimssamfélag með því að bæta samskipti þjóða, draga úr stjórnunarkostnaði fyrirtækja, ríkisstjórna og annarra sem taka þátt í hnattrænu framtaki og yfirleitt að hlú að betri tengslum milli allra meðlima í fjölskyldu mannsins.
Þessa tillögu ætti að skilja þröngum skilningi. Hún gerir ekki á nokkurn hátt ráð fyrir hnignun nokkurs lifandi tungumáls eða menningar.
5. Könnun á möguleikum einnar alþjóðamyntar
Þörfin fyrir að taka upp heimsmynt sem ómissandi þátt í sameiningu heimshagkerfis er augljós. Meðal annars telja hagfræðingar að ein mynt muni koma í veg fyrir spákaupmennsku og ófyrirsjáanlegar markaðssveiflur, stuðla að tekju- og verðjöfnun um allan heim og þannig hafa í för með sér umtalsverðan sparnað.
Möguleikinn á sparnaði mun ekki leiða til framkvæmda nema fyrir liggi mjög sannfærandi málsgögn sem svari áhyggjuefnum og vafaatriðum í hugum efasemdarmanna og þeim sé fylgt eftir af trúverðugri framkvæmdaáætlun. Við leggjum til að skipuð verði stjórnarnefnd hæfustu þjóðarleiðtoga, háskóla- og atvinnumanna til að hefja tafarlausa könnun á efnahagslegu gagni og pólitískum kostnaði við eina mynt og til að setja fram kenningar um hvernig megi hefja framkvæmd þessa máls.
B. Þróun innihaldsríks framkvæmdavalds
Á sviði alþjóðamála snertir mikilvægasti einstaki starfsvettvangurinn framkvæmd sameiginlegs öryggissáttmála.
Sameiginlegt öryggi felur í sér bindandi sáttmála meðal þjóðanna um að þær bregðist einhuga við ógnunum við heildina. Skilvirkni sáttmálans er undir því komin að hve miklu leyti meðlimirnir skuldbinda sig í þágu almennra hagsmuna, jafnvel þótt þjóðirnar séu knúnar af upplýstum eiginhagsmunum.
Innan Sameinuðu þjóðanna er framkvæmdastarfið að miklu leyti í höndum Öryggisráðsins en öðrum störfum framkvæmdavaldsins er deilt með framkvæmdastjórninni. Báðir aðilar eru hindraðir í að uppfylla tilskilin hlutverk sín. Öryggisráðið er ekki í stakk búið að grípa til afgerandi aðgerða. Framkvæmdastjórnin er undir þrýstingi flókinna krafna aðildarríkjanna.
Til skamms tíma litið eru fjórar raunhæfar ráðstafanir mögulegar til að styrkja framkvæmdahlutverkið innan Sameinuðu þjóðanna.
1. Takmörkun á beitingu neitunarvalds
Upphaflegt áform með því að veita fimm fastafulltrúum neitunarvald í stofnskrá SÞ, var að koma í veg fyrir að Öryggisráðið heimilaði hernaðaraðgerðir gegn fastafulltrúa eða krefðist beitingar á herafla hans gegn vilja hans. Raunin er sú að frá og með kalda stríðinu hefur neitunarvaldi ítrekað verið beitt af ástæðum sem varða svæðis- eða þjóðaröryggi.
Í tillögum sínum frá 1955 um endurbætur á SÞ, færði Alþjóðlega bahá’í samfélagið rök fyrir stigbundnu fráhvarfi frá hugmyndinni um „fastafulltrúa“ og „neitunarvald“ þegar traust á Öryggisráðinu ykist. Í dag, fjörutíu árum síðar, ítrekum við þessa afstöðu. Þó leggjum við einnig til að á breytingarskeiðinu verði ráðstafanir gerðar til að takmarka beitingu neitunarvalds þannig að það endurspegli upprunalegt áform stofnskrárinnar.
2. Heimild til sértækra hernaðaraðgerða
Til að styðja friðargæslustarf Sameinuðu þjóðanna og auka trúverðugleika ályktana Öryggisráðsins ætti að stofna alþjóðlegan herafla. Trúnað hans við SÞ og sjálfstæði hans frá þjóðarhagsmunum verður að tryggja. Framkvæmdastjóri SÞ ætti að fara með yfirstjórn slíks alvopnaðs herafla undir umsjá Öryggisráðsins. Allsherjarþingið ætti hins vegar að ákveða hvernig hann verður fjármagnaður. Þegar slíkum herafla yrði komið á fót, myndi framkvæmdastjórinn leitast við að fá hæft starfslið frá öllum svæðum heims.
Ef rétt er að þessu staðið, myndi þessi herafli einnig veita öryggiskennd sem gæti orðið hvatning til þess að hafin yrði allsherjarafvopnun og þannig gert kleift að setja bann við öllum eyðingarvopnum. Auk þess myndi skilningur vaxa smám saman á því að samkvæmt meginreglu sameiginlegs öryggis þurfa ríki aðeins að viðhalda vopnabúnaði, sem nægir til þeirra eigin varna og til að halda uppi innri reglu.
Stíga má tafarlaust skref í átt til stofnunar slíks herafla með því að heimila ríkjandi kerfi sértækra aðgerða að koma upp vísi að svæðisherafla sem hægt væri að beita tafarlaust í kreppu.
3. Hugmyndum um sameiginlegt öryggi beitt til lausnar öðrum vandamálum hnattrænnar sameignar
Þótt meginregla sameiginlegs öryggis hafi upphaflega orðið til í samhengi hernaðarógnunar, telja sumir að henni megi nú beita gagnvart öllum ógnunum sem kunna að virðast svæðisbundnar, en eru í raun afleiðing af flóknu hruni ríkjandi heimsskipulags. Þessar ógnanir varða meðal annars alþjóðlega eiturlyfjasölu, matvælaöryggi og nýjar farsóttir.
Við teljum að setja verði þetta málefni á dagskrá þess leiðtogafundar sem við höfum lagt til að verði haldinn. Hins vegar er ólíklegt að víðtæk skilgreining á sameiginlegu öryggi mundi fyrirbyggja grundvallarorsakir hernaðarstefnu.
4. Árangursríkar SÞ stofnanir með sjálfstætt framkvæmdahlutverk
Sum óháðari samtök innan fjölskyldu SÞ, svo sem Alþjóðlegi barnahjálparsjóðurinn, Alþjóðaflugmálastofnunin, Alþjóða póstsambandið, Alþjóða símamálastofnunin, Alþjóða vinnumálasambandið og Heilbrigðismálastofnunin hafa náð framúrskarandi árangri á mikilvægum sviðum sem tengjast alþjóðlegum hagsmunum.
Yfirleitt hafa þessi samtök sitt eigið óháða framkvæmdahlutverk. Sjálfstæði þeirra ætti að viðhalda og styrkja sem hluta af alþjóðlega framkvæmdavaldinu.
C. Styrktur alþjóðadómstóll
Í sérhverju stjórnkerfi er nauðsyn á sterku dómsvaldi til að tempra vald annarra deilda og til að skilgreina, kunngera, vernda og framfylgja réttlæti. Hvötin til að skapa réttlát samfélög hefur verið meðal grundvallarafla sögunnar – og ekki er hægt að renna stoðum undir varanlega heimssiðmenningu nema hún sé tryggilega grunduð á meginreglu réttlætis.
Réttlæti er eitt þeirra afla sem geta breytt vaknandi vitund um einingu mannkyns í sameiginlegan vilja sem hægt er að byggja með trausti á nauðsynlegum formgerðum heimssamfélags. Á öld þar sem þjóðir heims fá, í vaxandi mæli, aðgang að hvers kyns upplýsingum og fjölbreyttum hugmyndum mun réttlætið gera sig gildandi sem stjórnunarregla árangursríks þjóðskipulags.
Á sviði einstaklingsins er réttlæti eiginleiki í mannssálinni sem gerir sérhverjum manni kleift að greina sannleika frá falsi. Í augsýn Guðs, segir Bahá’u’lláh, er réttlætið „ástfólgnast alls“ því það gerir sérhverjum einstaklingi kleift að sjá með sínum eigin augum fremur en augum annarra, að þekkja af sinni eigin þekkingu fremur en þekkingu náunga síns eða hópsins sem hann tilheyrir.
Á sviði hópsins er umhyggja fyrir réttlætinu óhjákvæmileg leiðarsnúra í sameiginlegri ákvarðanatöku vegna þess að það er eina færa leiðin til að skapa einingu í hugsun og framkvæmd. Hún hvetur ekki til þess refsianda sem hefur oft gengið undir nafni hennar á liðnum öldum, heldur er hún raunhæf tjáning þeirrar vitundar að á mannlegum þroskaferli eru hagsmunir einstaklings og samfélags óaðskiljanlegir. Að því marki sem réttlæti verður leiðarsnúra í mannlegum samskiptum, er hvatt til samráðsanda sem leyfir að möguleikar séu skoðaðir hlutlægt og viðeigandi leiðir til aðgerða valdar. Í slíku andrúmslofti er stöðug tilhneiging til fláttskapar og flokkadrátta miklu ólíklegri til að hafa áhrif á ákvarðanatökuna.
Slík réttlætishugmynd mun smám saman styrkjast þegar skilningur vex á þeirri staðreynd að í heimi okkar eru hagsmunir einstaklings og samfélags samtvinnaðir og óaðskiljanlegir. Í þessu samhengi er réttlæti þráðurinn sem verður að samtvinnast mati á öllum mannlegum samskiptum, hvort heldur er innan fjölskyldunnar, í næsta nágrenni eða á heimsvettvangi.
Við teljum að í núverandi kerfi Sameinuðu þjóðanna sé grundvöllur fyrir styrktan alþjóðadómstól. Alþjóðadómstóllinn, sem var stofnaður 1945 sem aðaldómsstóll SÞ, hefur marga jákvæða þætti. Ríkjandi kerfi fyrir val á dómurum reynir til dæmis að skapa dómstól sem er fulltrúi fyrir breitt svið þjóða, svæða og dómskerfa.
Meginvankantar dómstólsins eru þeir að hann skortir myndugleika til að fella bindandi dóma nema í þeim tilvikum þar sem ríki hafa fyrir fram skuldbundið sig til að hlíta ákvörðunum hans. Án lögsögu skortir dómstólinn vald til að útdeila réttlæti. Með tímanum kunna ákvarðanir heimsdómstólsins að verða bindandi fyrir öll ríki; hins vegar má til skemmri tíma litið styrkja dómstólinn með tveimur öðrum ráðstöfunum.
1. Útvíkkun á lögsögu dómstólsins
Eins og nú standa sakir takmarkast lögsaga dómstólsins við fáeina málaflokka, og aðeins ríki hafa leyfi til að skjóta til hans málum. Við leggjum til að auk aðildarríkjanna fái aðrar stofnanir SÞ rétt til að vísa málum til dómstólsins.
2. Samræming á sérhæfðum dómstólum
Alþjóðadómstóllinn ætti að vera regnhlífardómstóll fyrir nýja og núverandi sérhæfða dómstóla, sem dæma og útkljá með gerðardómi á afmörkuðum sviðum alþjóðamála.
Frumþætti sameinaðs kerfis má þegar finna í sérhæfðum gerðardómstólum sem fjalla um málefni eins og viðskipti og flutninga og í tillögum um stofnanir eins og Alþjóðalega stríðsglæpadómstólinn og undirdómstól í umhverfismálum. Önnur málasvið sem kynni að þurfa að takast á við undir slíku kerfi mundu verða dómstólar fyrir alþjóðlega hermdarverkastarfsemi og eiturlyfjasölu.
IV. Afl einstaklingsins leyst úr læðingi: Ögrun upprennandi heimsskipulags
Frumtilgangur stjórnstofnana á öllum stigum er framþróun mannlegrar siðmenningar. Þessu markmiði er erfitt að ná án innblásinnar og vitsmunalegrar þátttöku alls þorra mannkyns í lífi og málefnum samfélagsins.
Meginhlutverk alþjóðlegra samtaka hefur verið að byggja upp stofnanir og skapa samfélag þjóða. Frá sögulegu sjónarmiði hafa þær verið fjarlægar huga og hjarta alls almennings. Langflestir menn eru aðskildir vettvangi alþjóðamála með mörgum stjórnstigum og umfjöllun fjölmiðla um slík mál rugla þá í ríminu. Þeir hafa því ekki enn fengið náin kynni af stofnunum eins og Sameinuðu þjóðunum. Aðeins þeir einstaklingar sem hafa einhverja persónulega nánd við alþjóðavettvang, til dæmis með starfi í borgaralegum samtökum, virðast geta samkennt sig þessum stofnunum.
Það kann að virðast mótsagnakennt að alþjóðlegar stofnanir geta ekki þróast í virkt og fullþroska stjórntæki og uppfyllt þann frumtilgang sinn að þróa mannlega siðmenningu, ef þær viðurkenna ekki og efla gagnkvæm tengsl við allan almenning. Slík viðurkenning mundi koma af stað jákvæðri hringrás gagnkvæms trausts og stuðnings sem mundi flýta fyrir umskiptum til nýrrar heimsskipunar.
Verkefnin sem felast í þróun hnattræns samfélags kalla á hæfnisstig sem eru langt handan þess sem mannkynið fram til þessa hefur getað tekist á hendur. Að ná þessum áföngum útheimtir að sérhver einstaklingur fái miklu betri tækifæri til að afla sér þekkingar en nú er. Alþjóðlegum stofnunum mun takast að laða fram og stýra getu sem fólgin er í þjóðum heimsins að svo miklu leyti sem meðferð þeirra á valdi temprast af þeirri skyldu sem á þeim hvílir að vinna trúnað, virðingu og heilshugar stuðning þeirra sem þær hafa tekið að sér að stjórna. Þær verða einnig að hafa fullt samráð við alla þá sem eiga hagsmuna að gæta.
Einstaklingar sem sýna þessum stofnunum trúnað og virðingu munu fyrir sitt leyti krefjast þess að ríkisstjórnir þeirra auki stuðning sinn, bæði pólitískan og efnahagslegan, við alþjóðaskipulagið. Þetta þýðir að með auknum áhrifum og völdum verða alþjóðlegu stofnanirnar betur í stakk búnar til að takast á hendur frekari framkvæmdir til að stofna lögmætt og skilvirkt heimsskipulag.
Með ráðstöfunum sem gerðar eru til að styrkja innviði sína verða Sameinuðu þjóðirnar að hafa frumkvæði að átaki sem leysir úr læðingi aflið sem blundar í öllum mönnum til þátttöku í þessu hvetjandi ferli. Til að þetta geti orðið verður að leggja sérstaka áherslu á vissa málaflokka sem hraða þróun einstaklings og samfélags. Meðal þeirra eru fjögur forgangsatriði: að stuðla að efnahagsþróun, slá vörð um mannréttindi, efla stöðu kvenna og leggja áherslu á siðræna þróun. Þessi mál eru svo nátengd framþróun menningar að þau ættu að verða hluti af dagskrá Sameinuðu þjóðanna.
A. Stuðlað að efnahagsþróun
Efnahagslegar þróunaráætlanir sem SÞ, Alþjóðabankinn og fjöldi ríkisstjórna hafa beitt sér fyrir á síðustu fimmtíu árum, hafa ekki náð tilætluðum árangri hversu einlæg sem áformin voru í hugsun og framkvæmd. Í miklum hluta heims hefur bilið milli ríkra og fátækra víkkað og eykst með viðvarandi ójöfnuði í tekjustigi. Félagsleg vandamál hafa ekki minnkað. Raunar hafa glæpir og sjúkdómar ekki aðeins aukist; þeir eru að komast á stig faraldurs og verða stöðugt torveldari viðfangs.
Þessa misbresti er hægt að rekja til margra þátta. Meðal þeirra er röng áhersla á umfangsmikil verkefni og skrifræðisleg miðstýring, ósanngjarnir skilmálar alþjóðaverslunar, almenn spilling sem leyft hefur verið að þróast í öllu kerfinu, útilokun kvenna frá ákvarðanatöku á öllum stigum, almenn vangeta til að tryggja að auðlindir nái til hinna fátæku og ráðstöfun fjármagns, sem ætlað er til þróunarhjálpar, til kaupa á hergögnum.
Þegar þessir þættir eru skoðaðir hlutlægt kemur í ljós algengur kerfisbundinn grundvallarágalli á núverandi viðmiðum efnahagsþróunar: oft er brugðist við efnislegum þörfum án þess að teknir séu með í reikninginn andlegir þættir og hreyfiafl þeirra.
Þróun ætti ekki að rugla saman við sköpun ósjálfbærs neysluþjóðfélags. Sönn hagsæld felur bæði í sér andlega og efnislega velferð. Fæða, drykkur, húsaskjól og ákveðin efnisleg þægindi eru nauðsynleg en mannlegar verur geta ekki og munu aldrei geta fundið fullnægju í þessum nauðsynjum. Hana er ekki heldur að finna í árangri svo sem félagslegri viðurkenningu og pólitískum völdum. Að endingu geta ekki einu sinni vitsmunaleg afrek fullnægt dýpstu þörfum okkar.
Það er í hungrinu í eitthvað meira, eitthvað handan okkar sjálfra, sem hægt er að öðlast sannan skilning á veruleika mannsandans. Þótt andleg hlið eðlis okkar myrkvist í daglegri baráttu fyrir efnisgæðum, er ekki lengur hægt að virða að vettugi þörf okkar fyrir hið yfirskilvitlega. Þannig verða sjálfbær þróunarviðmið að beinast bæði að andlegri eftirsókn mannanna og efnislegum þörfum þeirra og þrám.
Menntun er besta fjárfestingin í efnahagsþróun. „Maðurinn er æðsti verndargripurinn. Skortur á réttri uppfræðslu hefur hins vegar svipt hann því sem honum er eðlislægt,“ skrifar Bahá’u’lláh. „Lítið á manninn sem námu fulla af ómetanlega verðmætum gimsteinum. Menntun ein saman getur afhjúpað fjársjóði hennar og gert mannkyninu kleift að hagnast af þeim.“ Í menntun felst annað og meira en þekking á þröngu sviði eða öflun fagkunnáttu. Hún ætti í raun að vera grundvallarskilyrði þróunar, auka skilning á öflun þekkingar, efla vitsmuni og rökhyggju og gæða nemandann nauðsynlegri siðferðisvitund.
Það er þessi alhliða sýn á eðli menntunar sem gerir fólki kleift að leggja sitt af mörkum til sköpunar auðs og hvetur til réttlátrar skiptingar hans.
Raunverulegur auður skapast þegar menn vinna störf sín, ekki aðeins í því skyni að afla lífsviðurværis, heldur einnig til að leggja af mörkum til þjóðfélagsins. Við teljum að innihaldsríkt starf sé ein af grundvallarþörfum mannssálarinnar, jafn mikilvægt eðlilegum þroska einstaklingsins og næringarrík fæða, hreint vatn og ferskt loft eru líkama hans.
Það veldur okkur andlegu tjóni að vera öðrum háð og því eru áform sem miða eingöngu að endurdreifingu efnislegs auðs dæmdar til að mistakast þegar til lengdar lætur. Nálgast verður hugmyndir um skiptingu auðsins á virkan og réttlátan hátt. Raunar verður að skoða skiptingu auðs í nánu samhengi við myndun hans.
Við setjum fram eftirfarandi tillögur til Sameinuðu þjóðanna til að stuðla að virkari þróun.
1. Djörf herferð til framkvæmdar dagskrár 21
Framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sameinaði margs konar sjónarmið borgaralegs samfélags og grundvallarreglur sem eru í megindráttum ekki ósvipuð þeim sem gerð er grein fyrir í þessari yfirlýsingu. Því miður hafa aðildarríkin lítið gert til að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem lýst er í þessari áætlun.
Ef framkvæma á markmið Dagskrár 21, gæti stórátak reynst nauðsynlegt, annars eðlis en þó svipað umfangs og Marshalláætlunin um endurreisn Evrópu eftir stríð. Í þessu tilviki yrði leitað til Alþjóðabankans og systurstofnana hans til að beita sér fyrir djarfri sókn í því augnamiði að flýta fyrir framkvæmdum á þjóðlegum vettvangi. Umboð af þessu tagi getur aðeins orðið ávöxtur ráðstefnu sem myndi svipa til fyrstu fundanna um Alþjóðabankann fyrir fimmtíu árum og væri tileinkuð róttækri endurskoðun á honum og systurstofnunum hans. Tilgangur þessarar endurskoðunar ætti að vera sá að veita þjóðum heims aðgang að fjármagni og úrræðum svo hægt verði að efna til svæðisbundinna aðgerða. Auk þess gæti ráðstefnan líka bætt dýpri málefnum hnattræns efnahagsöryggis við dagskrá sína með því að endurskilgreina hlutverk núverandi stofnana eða skapa nýjar.
Ef vel tekst til ætti líka að beita þessu nýja kerfi í þeim tilgangi að samræma framkvæmdaáætlanir, sem skilgreindar voru á nýlegri ráðstefnu um félagslega þróun.
B. Verndun almennra mannréttinda
Á þeim fimm áratugum sem liðnir eru síðan Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, hefur skilningur aukist á nauðsyn þess að viðurkenna mannréttindi og vernda þau um allan heim. Þetta er forsenda þess að hægt verði að renna stoðum undir frið, félagslega framþróun og efnahagslega hagsæld.
Grundvöllur alþjóðlegs samkomulags um eðli mannréttinda er hin geysimikilvæga mannréttindayfirlýsing, sem samþykkt var af Sameinuðu þjóðunum árið 1948 og skilgreind nánar í tveimur alþjóðlegum sáttmálum um borgaraleg og pólitísk réttindi og um mannréttindi sem eru félags-, efnahags- og menningarlegs eðlis. Auk þess er í um 75 öðrum sáttmálum og yfirlýsingum að finna stuðning við og skilgreiningu á réttindum kvenna og barna ásamt trúfrelsi og réttinum til þróunar, svo fáein dæmi séu nefnd.
Á ríkjandi stjórnarfyrirkomulagi Sameinuðu þjóðanna eru tveir meiri háttar ágallar hvað varðar mannréttindi: takmörkuð efni til eftirlits og áréttingar og of lítil áhersla á þá ábyrgð sem er samfara hvers kyns réttindum.
Með framkvæmd mannréttinda á alþjóðavettvangi þarf að fara á svipaðan hátt og hernaðarárás undir sameiginlegri öryggisstjórn. Líta verður á brot á mannréttindum í einu ríki sem málefni þeirra allra, og leiðir til aðgerða verða að mótast af samræmdum viðbrögðum alls alþjóðasamfélagsins. Spurningunni um hvenær og hvernig á að skerast í leikinn til varnar mannréttindum er erfiðara að svara. Kröftug framkvæmd krefst þess að náðst hafi víðtækt hnattrænt samkomulag um hvað felist í grófu og vísvitandi broti.
Mikilvæg skref í átt til hnattræns samkomulags voru tekin við undirbúning heimsráðstefnunnar um mannréttindi 1993, sem staðfesti svo ekki verður um villst að þau eiga alls staðar við, eru ósundurgreinanleg og innbyrðis tengd. Þar var endir bundinn á langvarandi deilur um mikilvægi borgaralegra og pólitískra réttinda í samanburði við mikilvægi samfélags-, efnahags- og menningarlegra réttinda. Ályktanir ráðstefnunnar staðfestu einnig að mannréttindi verður að halda í heiðri án tillits til kynþáttar, ættflokka, trúar eða þjóðernis. Þær taka til jafnréttis karla og kvenna; kveða á um sama rétt til frjálsrar rannsóknar, upplýsingaleitar og trúariðkunar fyrir alla einstaklinga heimsbyggðarinnar; og þau fela í sér rétt til allra helstu nauðþurfta svo sem fæðu, húsaskjóls og heilbrigðisþjónustu. Auk þess sem nauðsynlegt er að efla samstöðu og styrkja framkvæmd mannréttinda, er mikilvægt að auka skilning á þeirri staðreynd að sérhverjum rétti fylgir samsvarandi ábyrgð.
Rétturinn til jafnræðis fyrir lögunum, felur til dæmis í sér þá ábyrgð að hlýðnast lögunum – og að gera bæði lögin og dómskerfið réttlátara. Á sviði félags- og efnahagsmála felur rétturinn til að giftast einnig í sér þá ábyrgð að sjá fyrir fjölskyldunni, uppfræða börnin og umgangast alla fjölskyldumeðlimi með virðingu. Réttinn til atvinnu er ekki hægt að skilja frá þeirri ábyrgð að menn ræki skyldur sínar samkvæmt bestu getu. Í víðasta skilningi felur hugmyndin um allsherjar mannréttindi í sér ábyrgð gagnvart mannkyninu í heild.
Þótt það sé að endingu undir hverjum og einum komið að uppfylla ábyrgð sína á sérhverju þessara sviða, er það á valdi alþjóðlegra stofnana að vernda tilsvarandi mannréttindi. Við leggjum til að strax verði gripið til eftirfarandi aðgerða.
1. Styrking á kerfi SÞ fyrir eftirlit, framkvæmd og áréttingu
Kerfi SÞ fyrir framkvæmd og eftirlit með því að ríkisstjórnir haldi alþjóðasáttmála er ekki nægilega skilvirkt. Mannréttindamiðstöðin hefur á að skipa takmörkuðu sérhæfðu starfsliði sem stendur í ströngu við að hafa eftirlit með að ríki uppfylli alla þá sáttmála sem þau hafa staðfest.
Við teljum að auka verði að miklum mun það fjármagn og mannafla sem þessi miðstöð hefur til umráða ef hún á að geta sinnt skyldum sínum.
2. Hvatt til allsherjar staðfestingar á alþjóðlegum sáttmálum um mannréttindi
Þar sem staðfesting á alþjóðasáttmálum um mannréttindi skyldar aðildarríkin til að halda þá, þótt eftirlit með framkvæmd sé í raun erfitt, gætu framkvæmdastjóri og allar stofnanir SÞ leitað leiða til að hvetja aðildarríkin til aðgerða á þessu sviði. Í raun gæti það reynst mjög hvetjandi ef Allsherjarþingið setti mjög ákveðin tímamörk fyrir allsherjarstaðfestingu.
3. Tryggð virðing fyrir eftirlitsstofnunum SÞ sem varða mannréttindi
Þar sem umboð eftirlitsstofnana með mannréttindum er mjög alvarlegs eðlis, þurfa SÞ að fylgjast sérstaklega með því viðhorfi, sem uppbygging og ferli þessara umboðsskrifstofa skapar, ætíð staðráðnar í að finna lausn á vafaatriðum.
Við teljum að á tilnefningarferlinu væri skynsamlegt að kanna hæfni aðildarríkja sem eiga fulltrúa í áberandi stöðum og að útiloka sérhvert það aðildarríki frá kosningu til mannréttindanefndarinnar og annarra eftirlitsstofnana sem ekki hefur enn staðfest alþjóðasáttmálana. Meðan þessi aðildarríki gætu enn verið fyllilega fær um að taka þátt í viðræðum, mundi þetta vernda SÞ fyrir hugsanlegum vandræðum og vafasömum aðstæðum.
Við teljum að eina undantekningu megi gera við ofangreinda reglu. Ekki ætti að útiloka aðildarríki frá kosningu í áberandi stöður, sem ekki eru undir eftirliti SÞ og sem hafa nægilega vernd grundvallarmannréttinda innbyggða í stjórnarskrár sínar, en hafa af innri pólitískum ástæðum ekki getað lokið staðfestingarferlinu.
Loks gæti virst skynsamlegt að aðildarríki sem hafa staðfest alþjóðasáttmála en eru undir eftirliti vegna stórfelldra mannréttindabrota væru dæmd vanhæf til að gegna embættum á ráðstefnum og öðrum samkomum mannréttindanefndarinnar. Þetta myndi koma í veg fyrir að menn teldu almennt að um hreinan skrípaleik væri að ræða.
C. Stuðlað að bættri stöðu kvenna
Sköpun friðsamrar og sjálfbærrar heimssiðmenningar er útilokuð án fullrar þátttöku kvenna á öllum sviðum mannlegra framkvæmda. Þótt þessi tillaga njóti vaxandi stuðnings, er sá stuðningur meira í orði en á borði.
Það er kominn tími til þess að stofnanir heimsins, sem aðallega lúta stjórn karlmanna, beiti áhrifum sín til að stuðla að kerfisbundinni þátttöku kvenna í stjórnun, ekki af yfirlæti eða með tilfinningu fórnarlundar heldur í þeirri trú að framlag kvenna sé nauðsynlegt til þess að samfélagið taki framförum. Aðeins þegar framlag kvenna er virt að verðleikum verður þess leitað og það ofið inn í samfélagsmynstrið. Árangurinn verður friðsælli, yfirvegaðri, réttlátari og hagsælli siðmenning.
Augljós líffræðilegur munur á kynjunum þarf ekki að stuðla að misrétti eða óeiningu. Frekar er hér um gagnkvæma uppfyllingu að ræða. Ef hlutverk kvenna sem mæðra er réttilega metið, verður verk þeirra við að þroska og uppfræða börnin virt og réttilega umbunað. Einnig ætti að viðurkenna að barnsburðarhlutverkið minnkar ekki hæfni til forystu eða grefur undan vitsmunalegri, vísindalegri eða skapandi hæfni. Í raun kann það að auka hana.
Við teljum að framfarir á fáeinum mikilvægum vígstöðum myndu hafa mest áhrif á stöðu kvenna. Við viljum koma á framfæri eftirfarandi sjónarmiðum sem eru grundvöllurinn að þeim tillögum sem fylgja á eftir.
Fyrst og fremst verður að uppræta ofbeldi gagnvart konum og stúlkum, eitt blygðunarlausasta og útbreiddasta mannréttindabrot sem til er. Ofbeldi hefur verið viðvarandi ástand fyrir margar konur um allan heim án tillits til hörundslitar, stéttar eða menntunar. Í mörgum samfélögum gerir hefðbundin trú á að konur séu annars flokks borgarar eða byrði, þær að auðveldum skotspæni reiði og skaprauna. Jafnvel ákveðin lagaúrræði og leiðir til aðgerða munu hafa lítil áhrif nema þeim fylgi breyting á viðhorfi karlmanna. Konur munu ekki verða óhultar uns ný samfélagssamviska nær tökum, samviska sem mun valda því að yfirlætislegt viðhorf til kvenna, hvað þá hvers konar líkamlegt ofbeldi, verður tilefni djúprar smánar.
Í öðru lagi verður fjölskyldan áfram hornsteinn samfélagsins og hegðun sem þar er höfð fyrir börnum verður varpað yfir á samskipti á öllum öðrum stigum samfélagsins. Þess vegna verða meðlimir fjölskyldunnar að umbreytast þannig að meginregla jafnréttis karla og kvenna sé þeim innrætt og gerð eðlislæg. Ef bönd ástar og einingar styrkja fjölskyldutengsl, mun áhrifanna gæta utan fjölskyldunnar og hafa áhrif á samfélagið í heild.
Í þriðja lagi má benda á, að þótt heildarmarkmið sérhvers samfélags ætti að vera að uppfræða alla þegna sína, er á þessu stigi í mannkynssögunni mest þörf fyrir menntun kvenna og stúlkna. Í meira en tuttugu ár hafa rannsóknir sýnt staðfastlega fram á það, að af öllum þeim fjárfestingum sem völ er á, skilar menntun kvenna og stúlkna sér best til aukinnar félagslegrar þróunar, upprætingar fátæktar og þjóðfélagsframfara.
Í fjórða lagi verður hnattræn umræða um hlutverk karla og kvenna að stuðla að viðurkenningu á því að bæði kynin bæta hvert annað upp af nauðsyn. Því að munurinn á þeim er eðlileg tjáning á nauðsyn þess að karlmenn og konur vinni saman til að þróa siðmenninguna ekki síður en til að viðhalda mannkyninu. Slíkur munur er áskapaður gagnvirku eðli þeirra sem mannvera. Í þessari umræðu verður að íhuga sögulegu öflin sem hafa leitt til undirokunar kvenna og skoða nýjan félagslegan, pólitískan og andlegan veruleika sem í dag eru að umbreyta siðmenningu okkar.
Lagt er til að byrjað verði að íhuga þessa samlíkingu úr bahá’í ritningunum: „Heimur mannsins hefur tvo vængi – annar eru konur, hinn eru karlmenn. Fuglinn getur ekki flogið fyrr en báðir vængir hafa þroskast jafnt. Ef annar er veikburða, getur hann ekki náð flugi.“ Auk þess styðjum við eftirfarandi þrjár sértækar ráðstafanir.
1. Aukin þátttaka kvenna í sendinefndum aðildarríkja
Við leggjum til að aðildarríkin verði hvött til þess að skipa fleiri konur í sendiherrastöður eða sambærilegar diplómatískar stöður.
2. Hvatt er til allsherjar staðfestingar á alþjóðlegum sáttmálum sem vernda rétt kvenna og bæta stöðu þeirra
Líkt og gerist með alþjóðlega mannréttindasáttmála, ætti framkvæmdastjóri og allar stofnanir SÞ að nota sérhvert tækifæri til að hvetja aðildaríki til að halda áfram að leita staðfestingar á sáttmálum og viðaukum sem vernda réttindi kvenna og vinna að eflingu þeirra.
3. Undirbúningur að framkvæmd á samþykktum Peking-ráðstefnunnar
Yfirlýsing um aðgerðir til aldamóta (The Forward-Looking Strategies Declaration) sem samþykkt var á Naíróbí ráðstefnunni var mjög djörf og hugmyndarík, en framkvæmd hennar var þó fremur óskilvirk. Við teljum að draga eigi lærdóm af þessari óheppilegu reynslu og vanda beri til verka svo að framkvæmdaáætlunin sem samþykkt var á ráðstefnunni í Peking hljóti ekki sömu örlög.
Við leggjum til að komið verði á fót eftirlitskerfi sem semji skýrslur um stöðu og framkvæmd þessara samþykkta og leggi þær á hverju ári fyrir Allsherjarþingið, með sérstakri áherslu á efstu tuttugu og lægstu tuttugu aðildarríkin hvað varðar framkvæmd þeirra.
D. Áhersla á siðferðisþroska
Þótt menning og landafræði hafi sitt að segja, má rekja sameiningu manna í stöðugt stærri samfélögum að mestu leyti til trúarbragðanna, öflugustu leiðinni til að breyta viðhorfum manna og hegðun. Með trúarbrögðum er átt við sjálfan grundvöll eða raunveruleika trúarbragðanna, ekki þær kreddur eða blindar eftirlíkingar sem smám saman hafa hlaðist utan á þau og valda hnignun þeirra og tortímingu.
Með orðum ‘Abdu’l‑Bahá: „Efnislegri siðmenningu má líkja við líkama mannsins. Hversu þokkafullur, fagur og glæsilegur sem hann er, þá er hann líflaus. Guðlegri siðmenningu má líkja við andann, og það er andinn sem gefur líkamanum líf . . . Án andans er heimur mannkynsins andvana.“
Hugmyndin um að efla sérstakt siðgæði eða gildi gæti virst umdeilanleg, sérstaklega á þessari öld húmanískrar afstæðishyggju. Engu að síður trúum við því statt og stöðugt að til séu sameiginleg siðagildi sem ekki hafa notið viðurkenningar af völdum þeirra sem í pólitísku skyni ýkja óverulegan mun trúarlegra eða menningarlegra iðkana. Þessar grundvallardyggðir, sem öll andleg samfélög kenna, eru undirstaða siðferðisþroska.
Íhugun á því sem hinum miklu trúarlegu og siðferðilegu kerfum heimsins er sameiginlegt sýnir svo ekki verður um villst að sérhvert þeirra aðhyllist einingu, samvinnu og samstillingu meðal þjóðanna, kveður á um mælikvarða fyrir ábyrga hegðun og styður þróun dyggða sem eru grundvöllur samskipta sem byggjast á gagnkvæmu trausti og siðareglum.
1. Stuðlað að þróun námsefnis fyrir siðræna uppfræðslu í skólum
Við mælum með allsherjarherferð sem hefur það að markmiði að efla siðferðisþroska. Með einföldum orðum, þessi herferð ætti að hvetja og aðstoða svæðabundin frumkvæði um allan heim til að fella hina siðferðilegu vídd inn í uppfræðslu barna. Nauðsynlegt kann að vera að halda ráðstefnur, gefa út viðeigandi efni og vinna margs konar annað uppbyggjandi starf, en allt er þetta fjárfesting sem mun skila sér til kynslóða framtíðarinnar.
Þessi herferð fyrir siðræna þróun gæti hafist með fáeinum einföldum lífsreglum. Til að mynda eru ráðvendni, traustverðugleiki og heiðarleiki grundvöllur stöðugleika og framfara; fórnfýsi ætti að verða leiðarljós allrar mannlegrar viðleitni svo að einlægni og virðing fyrir réttindum annarra verði óaðskiljanlegur þáttur í gerðum sérhvers einstaklings; þjónusta við mannkynið er sönn uppspretta hamingju, heiðurs og tilgangs í lífinu.
Við teljum einnig að herferðin verði aðeins árangursrík að því marki sem treyst er á afl trúarinnar í þessari viðleitni. Kenningar um aðskilnað ríkis og kirkju ætti ekki að nota sem múra til að hindra þessi heillavænlegu áhrif. Sérstaklega verður að tryggja að trúarleg samfélög komi inn sem samstarfsaðilar í þessu mikilvæga átaki.
Þegar til lengdar lætur, mun þessi herferð flýta fyrir einstaklingsþroska sem mun umbreyta samskiptum þjóðfélags og einstaklinga án tillits til stéttar, þjóðfélagsstöðu, þjóðernis, hörundslitar og trúarbakgrunns.
V. Þjóðir á tímamótum: Hvatning til heimsleiðtoga
Við erum komin að tímamótum í þróun þjóðanna.
„Sameining alls mannkyns er einkenni þess áfanga sem mannlegt samfélag er nú að nálgast. Eining fjölskyldunnar, ættbálksins, borgríkisins og þjóðarinnar eru áfangar sem hafa náðst hver á fætur öðrum og eru fullreyndir. Heimseining er það takmark sem marghrjáð mannkyn leitar að. Þjóðabyggingu er lokið. Stjórnleysið sem er innbyggt í fullveldi þjóðríkisins er að ná hámarki. Heimur á þroskabraut verður að hverfa frá þessu átrúnaðargoði, viðurkenna einingu og heild mannlegra tengsla og stofnsetja í eitt skipti fyrir öll það skipulag sem best getur uppfyllt þetta grundvallarlögmál lífsins.“
Fyrir meira en einni öld kenndi Bahá’u’lláh að það sé aðeins einn Guð og aðeins eitt mannkyn og að öll heimstrúarbrögðin séu áfangar í opinberun vilja og ásetnings Guðs fyrir mannkynið. Bahá’u’lláh kunngerði að sá tími væri kominn, sem spáð er í öllum helgiritum mannkyns, þegar mannkynið mundi loks sjá allar þjóðir sameinast í friðsælu og einhuga samfélagi.
Hann sagði að ætlunarverk mannsins væri ekki aðeins að skapa efnislega farsælt samfélag heldur einnig að byggja upp heimssiðmenningu þar sem einstaklingarnir eru hvattir til að hegða sér eins og siðaðar verur, sem skilja raunverulegt eðli sitt og geta þroskast til meiri lífsfyllingar en nokkur efnisgæði ein og sér geta fært honum.
Bahá’u’lláh var einnig meðal hinna fyrstu til að nota orðin „nýtt heimsskipulag“ til að lýsa afdrifaríkum breytingum í pólitísku, samfélagslegu og trúarlegu lífi heimsins. Hann skrifaði: „Tákn yfirvofandi hamfara og öngþveitis má þegar greina því að ríkjandi skipulag virðist hörmulega gallað . . . Brátt mun ríkjandi skipulagi verða vafið saman og nýtt breitt út í þess stað.“
Í þessu skyni lagði hann þessa ábyrgð á herðar leiðtogum og þegnum samfélagsins. „Þess er ekki að miklast sem elskar ættjörð sína heldur þess sem elskar allan heiminn. Jörðin er aðeins eitt land og mannkynið íbúar þess.“
Framar öllu öðru þurfa leiðtogar næstu kynslóðar að láta leiðast af einlægri þrá til að þjóna öllu samfélaginu og skilja að forysta er ábyrgðarhlutverk en ekki leið til forréttinda. Of lengi hafa leiðtogar og þjóðfélagsþegnar litið á forystu sem leið til að tryggja sér forræði yfir öðrum. Þessi öld krefst að sönnu nýrrar skilgreiningar á leiðtogahlutverkinu og nýrrar gerðar leiðtoga.
Þetta á sérstaklega við á alþjóðlegum vettvangi. Til að vinna traust og trúnað manna og innræta þeim virðingu og velvild til stofnana alþjóðaskipulags verða þessir leiðtogar að íhuga sínar eigin gerðir.
Þeir verða með óflekkuðum persónulegum heiðri að leggja sitt af mörkum til að endurnýja trúnað og traust á stjórnvöldum. Þeir verða sjálfir að tileinka sér og sýna í verki eiginleika eins og heiðarleika, auðmýkt og einlægni í þeirri viðleitni að leita sannleikans við allar aðstæður. Þeir verða að láta stjórnast af skuldbindingum og meginreglum gagnvart langtímahagsmunum alls mannkyns.
„Látið sýn ykkar ná til alls heimsins fremur en ykkar eigin sjálfs,“ ritaði Bahá’u’lláh. „Verið ekki upptekin af ykkar eigin hagsmunum; látið hugsanir ykkar snúast um það sem getur endurreist farsæld mannkynsins og helgað hjörtu og sálir manna.“
Þjóðir á tímamótum
Boutros Boutros-Ghali. 1992. „An Agenda for Peace: Peace-making and Peace-Keeping“ (Skýrsla framkvæmdastjóra sem fylgdi yfirlýsingu leiðtogafundar Öryggisráðsins, 31. janúar, New York: Sameinuðu þjóðirnar.)
Inngangurinn að stofnskrá Sameinuðu þjóðanna hlýtur að teljast með innblásnustu köflum í sögu stjórnunar:
„VIÐ AÐILDARRÍKI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA FASTRÁÐUM
„að bjarga komandi kynslóðum frá plágu styrjalda, sem hefur tvívegis á ævi okkar kallað óumræðilegar hörmungar yfir mannkynið, og
„staðfesta trú okkar á grundvallarmannréttindi, á reisn og verðleika mannsins, á jafnrétti manna og kvenna og allra þjóða, stórra og smárra, og
„skapa þær kringumstæður þar sem hægt er að halda í heiðri réttlæti og virðingu fyrir þeim skyldum sem felast í sáttmálum og öðrum alþjóðalögum, og
„stuðla að þjóðfélagslegum framförum og betra lífi í meira frelsi,
„OG Í ÞESSU AUGNAMIÐI
„ástunda umburðarlyndi og lifa saman í friði hver með öðrum eins og góðir grannar, og
„sameina krafta okkar til viðhalds alþjóðlegum friði og öryggi, og
„tryggja með samþykkt meginreglna og stofnun skipulags, að herafla skuli ekki beitt nema í þágu sameiginlegra hagsmuna, og
„virkja alþjóðlegt stjórnkerfi til að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum allra þjóða,
„HÖFUM BUNDIST FASTMÆLUM UM AÐ VINNA SAMAN AÐ ÞESSUM MARKMIÐUM.
„Þar af leiðandi hafa ríkisstjórnir landa okkar og fulltrúar þeirra fulltrúa sem eru samankomnir í San Francisco með fullu og óskoruðu umboði, samþykkt að leggja fram stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og leggja hér með grunn að þeim alþjóðlegu samtökum, sem eiga að nefnast Sameinuðu þjóðirnar.“
Sameinuðu þjóðirnar. 1994. Stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og lög um Alþjóðadómstólinn. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna DPI/511 - 93243 - Apríl 1994 - 40M.
Alþjóðabankinn. 1994. World Development Report. (Skýrsla um þróunarmál í heiminum). (Oxford: Oxford University Press.) bls. 162-163.
Allmargar nýlegar tillögur fjalla um þörf á umbótum á ýmsum málasviðum innan Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslu alþjóðlegrar nefndar um umhverfi og þróun, Our Common Future (Sameiginleg framtíð okkar), er t.d. stungið upp á ýmsum breytingum, svo sem stofnun sérstakrar „Nefndar um sjálfbæra þróun“ sem myndi samræma þróunarstarf SÞ jafnframt því sem hún stuðlaði að umhverfisvernd.
The World Commission on Environment and Development, Our Common Future. (Oxford: Oxford University Press, 1987.)
Einnig eru gerðar tillögur í skýrslu Brandt nefndarinnar, Common Crisis North-South: Co-operation for World Recovery um umbætur í viðskiptum, verslun og orkumálum þegar slík málefni raska jafnvæginu milli norðurs og suðurs.
The Brandt Commission, Common Crisis North-South: Co-operation for World Recovery. (London: Pan Books, 1983.)
Fjölmargar tillögur hafa verið gerðar um víðtækar breytingar á Sameinuðu þjóðunum og þeim fjölgar enn í tilefni hálfrar aldar afmælis SÞ. Fyrsta merka tilraunin til endurmats á SÞ var gerð á sjötta áratugnum á 10 ára afmæli stofnskrárinnar árið 1958 með útgáfu bókarinnar World Peace Through World Law eftir Louis B. Sohn og Grenville Clark. Í þeirri bók er að finna fyrstu markverðu tillögurnar um afnám neitunarvalds.
Grenville Clark, and Louis B. Sohn, World Peace Through World Law. (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1966.)
Meðal nýlegri tillagna má nefna Stokkhólmsskýrsluna (The Stockholm Initiative), þar sem reifaðar eru almennar tillögur um treystingu SÞ. Einnig nýja vinnuskýrslu sem Harold Stassen hefur samið: United Nations: A Working Paper for Restructuring, en þar er fjallað um endurskoðun einstakra greina stofnskrár Sameinuðu þjóðanna. Síðasta bók Benjamin Ferencz New Legal Foundations for Global Survival hefur að geyma uppástungur um umbætur sem byggja á þeirri forsendu að þjóðir, þjóðabrot og einstaklingar verði að hafa frelsi til að fara sínar eigin leiðir með hverjum þeim hætti sem þau kjósa – að því tilskildu að það grafi ekki undan grundvallarmannréttindum annarra og rétti þeirra til að lifa í friði og með sæmd.
The Stockholm Initiative on Global Security and Governance 1991. Common Responsibility in the 1990’s. (Stockholm: Prime Minister’s Office, Stockholm, Sweden.)
Harold Stassen, United Nations: A Working Paper for Restructuring. (Minneapolis: Learner Publications Company, 1994.)
Benjamin Ferencz, New Legal Foundations for Global Survival. (Oceana Publications, 1994)
Nefnd um heimsstjórnun, Our Global Neighborhood. (New York: Oxford University Press, 1995.)
Margir hugsuðir hafa viðurkennt veruleika einingarinnar og gert sér grein fyrir áhrifum hennar á þróun mannlegs samfélags, þar á meðal fornleifafræðingurinn Richard Leaky: „Við erum ein tegund, ein þjóð. Sérhver einstaklingur á jörðinni tilheyrir „homo sapiens sapiens“, og sá landfræðilegi munur sem er á mönnum eru einfaldlega líffræðileg tilbrigði við meginstefið. Hæfileiki mannsins til menningarsköpunar gefur honum svigrúm til að móta hana á margvíslegan og litskrúðugan hátt. Það ætti ekki að líta á þann djúpstæða mun sem oft er á þessum menningarheildum sem óbrúanlegt bil milli manna. Í stað þess ætti að líta á sérhverja menningu sem endanlega yfirlýsingu um að þegnar hennar séu orðnir hluti af mannkyninu.“
Richard E. Leakey og Rodger Lewin, Origins: What new discoveries reveal about the emergence of our species and its possible future. (New York: Dutton, 1977.)
Frá almennu sjónarmiði eru rit Shoghi Effendi nákvæm og ítarleg útskýring á hugtakinu „eining mannkyns“. Gagnorða útlistingu á hugtakinu eins og bahá’íar skilja það má finna í The World Order of Bahá’u’lláh.
Shoghi Effendi, The World Order of Bahá’u’lláh. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1938.) bls. 42-43.
Við erum ekki einir um þessa tillögu. Nefnd um alþjóðastjórnun ritar í Our Global Neighborhood: „Tillaga okkar er sú að Allsherjarþingið samþykki að halda alþjóðaráðstefnu um heimsstjórnun árið 1998. Ákvarðanir hennar ætti að staðfesta og taka gildi fyrir árið 2000.“
The Report of the Commission on Global Governance, Our Global Neighborhood. (New York: Oxford University Press. 1995.) bls. 351.
Tvær algengar frumreglur lýsa þessu innsæi. „Smátt er fagurt“ er regla sem sett var fram snemma á áttunda áratugnum sem hagfræðileg frumregla á einnig við um stjórnun. Schumacher segir: „Í mannlegum málefnum virðist oft vera þörf fyrir a.m.k. tvennt samtímis sem á yfirborðinu virðist ósamrýmanlegt og ósættanlegt. Við höfum alltaf þörf fyrir hvorutveggja í senn: frelsi og skipulag. Við þurfum fjölmargrar frjálsar, litlar sjálfstæðar eindir, og samtímis skipulag í stórum stíl, hugsanlega hnattrænt, einingu og samræmingu.“
E. F. Schumacher, Small is Beautiful: Economics as if People Mattered. (New York: Harper and Row, 1973.) bls. 65.
„Hugsið á heimsvísu, starfið á svæðisvísu“ var slagorð sem umhverfis- og þróunarsinnar notuðu oft og lýsir sjónarmiði þar sem þörfin fyrir samræmingu á heimsvísu er löguð að þörfinni fyrir svæðisbundið og þjóðlegt sjálfræði.
„[Kerfi heimsstjórnunar] miðar alls ekki að umbyltingu á undirstöðum þjóðfélagsins heldur leitast við að breikka grundvöll þess og endurmóta stofnanir þess í samræmi við þarfir síbreytilegs heims. Það getur ekki verið í andstöðu við nein lögmæt bandalög né grafið undan grundvallarhollustu. Tilgangur þess er hvorki sá að kæfa loga heilbrigðrar og vitsmunalegrar föðurlandsástar í hjörtum manna né afnema kerfi þjóðarsjálfræðis sem er svo nauðsynlegt ef forðast á meinsemdir öfgafullrar miðstýringar. Það virðir ekki að vettugi né reynir að bæla fjölbreytileika þjóðernisuppruna, aðstæðna, sögu, tungumáls og hefða, hugsunar og venja, sem aðgreina þjóðir og kynþætti mannkynsins. Það hvetur til víðari hollustu og meiri metnaðar en þess sem hefur einkennt mannkynið fram til þessa. Það krefst þess að þjóðernistilhneigingar og hagsmunir séu beygðir undir knýjandi kröfu sameinaðs heims. Það hafnar öfgafullri miðstýringu annars vegar og vísar á bug öllum tilraunum til einsleitni hins vegar.“
Shoghi Effendi, The World Order of Bahá’u’lláh. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1974.) bls. 41-42.
Shoghi Effendi sem var leiðtogi bahá’í heimssamfélagsins fjallaði á fjórða áratugnum um hlutverk og ábyrgð heimsþings framtíðarinnar. Hann ritaði m.a.: „heimslöggjafarþing, sem skipað er meðlimum sem munu sem trúnaðarmenn alls mannkyns… setja lög sem þörf er á til að stýra lífi, fullnægja þörfum og bæta tengsl allra kynþátta og þjóða.“
Shoghi Effendi, The World Order of Bahá’u’lláh. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1974.) bls. 203.
Fræðimenn eins og Jan Tinbergen, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði 1969, var sömu skoðunar. Hann sagði: „Þjóðstjórnir geta ekki lengur leyst vandamál heimsbyggðarinnar. Til þess þarf heimsstjórn. Þessu takmarki er best hægt að ná með því að styrkja innra skipulag Sameinuðu þjóðanna.“
United Nations Development Programme (UNDP). Human Development Report 1994. Global Governance for the 21st Century. (New York: Oxford University Press.) bls. 88.
Alþjóða bahá’í samfélagið. Proposals to the United Nations for Charter Revision. 23. maí, 1955.
Alls staðar í ritum sínum notar Bahá’u’lláh markvisst orðin „skipulag“, „heimsskipulag“ og „nýtt heimsskipulag“ til að lýsa hinum miklu og viðvarandi breytingum á pólitísku, félagslegu og trúarlegu lífi mannanna. Árið 1867-8 skrifaði hann: „Jafnvægi heimsins er úr skorðum gengið vegna gagntakandi áhrifa þessa mesta og nýja heimsskipulags. Skipulögðu lífi mannkynsins hefur verið umbylt fyrir tilstilli þessa einstæða, undarsamlega kerfis hvers líka dauðleg augu hafa aldrei litið.“
Bahá’u’lláh, Kitab-i-Aqdas. Upprunalega þýtt á ensku úr persnesku af Shoghi Effendi og nefnd við bahá’í heimsmiðstöðina. (Haifa: Bahá’í World Centre, 1992.)
‘Abdu’l‑Bahá, The Secret of Divine Civilization. Þýðing Marzieh Gail. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1957.) bls. 24.
Rannsóknarstofnun Sameinuðu þjóðanna um félagslega þróun (UNRISD), States of Disarray: The Social Effects of Globalization. (London: KPC Group. 1995) bls. 106-109.
Slíkri nefnd eða jafnvel heimslöggjafarþingi standa margar leiðir opnar til að ákveða sanngjörn og réttlát landamæri milli allra þjóða. En jafn ógnvekjandi og verkefnið gæti virst er það mikilvægur liður í uppbyggingu nýs skipulags. ‘Abdu’l‑Bahá skrifaði: „Sönn siðmenning mun hefja upp fána sinn í hjarta heimsins þegar ákveðinn fjöldi menntaðra og göfugra þjóðhöfðingja hennar – skínandi fordæmi hollustu og einbeitni – munu í þágu velferðar alls mannkyns rísa upp til að staðfesta með einörðum hug og skýrri sýn málstað alþjóðlegs friðar. Þeir verða að taka ráð saman um málstað friðarins og reyna með öllum ráðum að stofnsetja bandalag þjóða heimsins. Þeir verða að gera með sér bindandi samning og festa með sér sáttmála, og fyrirmæli hans skulu skynsamleg, einörð og hafin yfir allan efa. Þeir verða að lýsa honum fyrir öllum heimi og fá til þess umboð alls mannkyns. Þessi mikla og göfuga framkvæmd, sem er raunveruleg uppspretta alls friðar og velferðar í heiminum, skyldi talin heilög af öllum þeim sem á jörðu dvelja. Öll öfl mannkynsins skyldu virkjuð til að tryggja stöðugleika og varanleika þessa æðsta sáttmála. Í þessum alltumlykjandi samningi skyldu landamæri hverrar þjóðar skýrt takmörkuð; hann skyldi innihalda ákveðin lög sem fjalla um samskipti ríkisstjórna og í honum á að ganga frá öllum alþjóðlegum samningum og skyldum. Á sama hátt skyldi takmarka strengilega vopnabúnað sérhverrar ríkisstjórnar, því ef vopnum fjölgar og vígbúnaður eykst vekur það grunsemdir annarra. Grundvallarregla samningsins skyldi vera sú að ef einhver ríkisstjórn riftir einhverju ákvæði hans, muni allar aðrar ríkisstjórnir jarðarinnar rísa gegn henni og beygja hana til algjörrar hlýðni; nei, allt mannkynið skyldi fastráða að eyða þeirri ríkisstjórn með öllum tiltækum ráðum. Ef þessari hinni mestu lækningu verður beitt á sjúkan líkama heimsins, mun hann vissulega verða heill af meinum sínum og verða hólpinn og óhultur að eilífu.“
‘Abdu’l‑Bahá, The Secret of Divine Civilization. Marzieh Gail þýddi úr persnesku á ensku. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1957.) bls. 64-65.
Samkvæmt nýrri grein í The New York Times jukust framlög til góðgerðarmála í Bandaríkjunum árið 1994 um 3,6%, í 130 milljarða dollara.
Karen W. Arenson, „Charitable Giving Rose 3.6% in 1994, Philanthropy Trust Says,“ The New York Times, fimmtudag, 25. maí 1995, A-hluti, bls. 22.
„Varðandi allar hliðar spurningarinnar um alþjóðatungumál . . . Okkur er sem bahá’íum mikið áhorfsmál að alþjóðlegt hjálpartungumál verði tekið upp eins fljótt og unnt er; við erum ekki málsvarar neins sérstaks tungumáls sem gæti gegnt þessu hlutverki. Ef ríkisstjórnir heims koma sér saman um að nota lifandi tungumál í þessu skyni eða tilbúið nýtt mál sem hægt væri að nota á alþjóðavettvangi, munum við heilshugar styðja þá ákvörðun því við óskum þess að sjá þetta skref, í þágu einingar mannkynsins, tekið eins fljótt og hægt er.“
Shoghi Effendi, Directives of the Guardian. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust.) bls. 39.
Þegar við setjum fram þessa tillögu vekjum við athygli á orðinu „hjálpartungumál“. Bahá’í kenningar meta gildi menningarlegrar fjölbreytni og vilja stuðla að henni, einsleitni vakir ekki fyrir þeim. Á þessu stigi sögunnar sjáum við ekki fyrir okkur að eitt tungumál verði tekið upp um allan heim. Við gerum okkur öllu fremur í hugarlund að þjóðir og kynstofnar jarðar varðveiti málsvæði og þjóðtungur sínar – en þær verði jafnframt hvattar til að læra alþjóðatungumál. Að endingu ætti vissulega að gera slíkt tungumál að skyldunámsgrein í öllum skólum heims. En þetta ætti á engan hátt að draga úr eðlilegum og réttmætum fjölbreytileika menningar og tungumála.
„Sá dagur nálgast þegar allar þjóðir heims taka upp eitt allsherjar tungumál og eitt sameiginlegt ritmál,“ reit Bahá’u’lláh á síðari hluta nítjándu aldar. „Þegar þetta hefur tekist mun mönnum finnast sem þeir komi inn á sitt eigið heimili, til hvaða borgar sem þeir ferðast.“
Shoghi Effendi, þýðing, Gleanings from the Writings of Bahá’u’lláh. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1983.) bls. 250.
Í „sérstöku framlagi“ til þróunarskýrslunnar 1994, segir James Tobin, Nóbels-verðlaunahafi í hagfræði 1981, að „sameiginlegur gjaldmiðill“ myndi koma í veg fyrir, að miklu ef ekki öllu leyti, umbrot og sveiflur sem nú tengjast mjög umfangsmikilli spákaupmennsku á heimsmörkuðum. Hann telur að sennilega sé langt í slíka heimsmynt og leggur til að á meðan verði settur „alþjóðlegur flatur skattur“ á kauphallarviðskipti með gjaldeyri.
United Nations Development Programme (UNDP). Human Development Report 1994. A Tax on International Currency Transactions. (New York: Oxford University Press.) bls. 70.
Bahá’u’lláh setti fram meginregluna um sameiginlegt öryggi fyrir meira en einni öld í bréfum til konunga og stjórnenda heimsins: „Verið sameinaðir, ó konungar jarðar, því þannig mun storma sundurlyndis lægja meðal yðar og þjóðir yðar finna hvíld, ef þér tilheyrið þeim sem skilja. Grípi einhver yðar til vopna gegn öðrum, rísið allir gegn honum því þetta er ekki annað en augljóst réttlæti.“
Shoghi Effendi þýddi úr persnesku: Gleanings from the Writings of Bahá’u’lláh. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1976.) bls. 254.
Skýrsla sjálfstæðs vinnuhóps um framtíð SÞ. The United Nations in its Second Half-Century. (Yale University Press Service, 1995.) bls. 16.
Glenview Foundation, The Stassen Draft Charter for a New United Nations to Emerge from the Original, to Serve World Peace and Progress for the Next Forty Years. (Philadelphia: Glenview Foundation. 1985.)
Grenville Clark and Louis B. Sohn, World Peace Through World Law. (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1966.)
Keith Hindell, „Reform of the United Nations?“ í: The World Today: Journal of the Royal Institute of International Affairs. (Stóra Bretland, febrúar 1992.) Bindi 48, Nr. 2. bls. 30-33.
John Logue, „New World Order Means Reformed U.N.“, World Federalist News, Júlí 1992. Benjamin
B. Ferencz and Ken Keyes Jr., Planethood: The Key to Your Future. (Coos Bay, Oregon: Love Line Books. 1991.)
Boutros Boutros-Ghali 1992. An Agenda for Peace: Peace-making and Peace-Keeping. Report of the Secretary-General Pursuant to the Statement Adopted by the Summit Meeting of the Security Council, January 31. New York: United Nations.
Þetta þýðir ekki að bann við þessum vopnum eigi að bíða þangað til slíkum herafla hefur verið komið á fót og hann sé í viðbragsstöðu. Við styðjum heilshugar þau skref sem nú eru tekin til að endurnýja sáttmálann um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna og alhliða bann við tilraunum með kjarnavopn. Auk þess styðjum við alla viðleitni sem miðar að útrýmingu kjarna-, líffræðilegra- og efnavopna. Einnig verður að grípa til víðtækari aðgerða til að takmarka og hafa eftirlit með hefðbundnum vopnum, svo sem jarðsprengjum, sem drepa almenna borgara.
Mahbub ul Haq, 1994. Aðalráðgjafi UNDP og leiðtogi hóps sem undirbýr árlega þróunarskýrslu UNDP sem hefur á síðari árum miðlað nýju innsæi í þróun bæði hvað varðar kenningu og framkvæmd og sett fram nýja skilgreiningu á hugtakinu sameiginlegt öryggi.
Erskine Childers, ed. Challenges facing the United Nations: Building a Safer World. (New York: St. Martin’s Press. 1994.) bls. 21-25.
John Huddleston, The Search for a Just Society. (Kidlington, Oxford: George Ronald. 1989.)
Fyrir um 75 árum lagði ‘Abdu’l‑Bahá fram eftirfarandi tillögur um alþjóðadómstól framtíðarinnar: „Þjóðþing sérhvers lands ættu að kjósa 2-3 einstaklinga sem eru hinir fremstu meðal þeirrar þjóðar og eru vel upplýstir um alþjóðalög og milliríkjasamskipti og meðvitaðir um meginþarfir mannkynsins á þessum tímum. Fjöldi þessara fulltrúa ætti að vera í réttu hlutfalli við fjölda íbúa þess lands. Kosningu þessara sálna sem eru kjörnar af þjóðþinginu verður að staðfesta í efri deild, af þingi og ríkisstjórn og einnig af forseta eða konungi þannig að þessar persónur séu útvaldar af allri þjóðinni og ríkisstjórninni. Æðsti dómstóllinn verður skipaður þessu fólki og þannig mun allt mannkynið eiga aðild að honum, því að sérhver þessara fulltrúa hefur fullt umboð þjóðar sinnar. Þegar hinn æðsti dómstóll kveður upp dóma í sérhverju alþjóðamáli, hvort sem það er einróma eða með meirihluta atkvæða, verður ekki lengur nein átylla til aðgerða fyrir ákærandann né ástæða til mótmæla fyrir verjandann. Sýni einhver ríkisstjórn eða þjóð vanrækslu eða ábyrgðarleysi við framkvæmd óvéfengjanlegra ákvarðana hins æðsta dómstóls, munu aðrar þjóðir rísa í gegn henni því að allar stjórnir og þjóðir styðja þennan æðsta dómstól. Íhugið hversu stöðugur þessi grundvöllur er! En með þröngu og takmörkuðu bandalagi verður tilganginum ekki náð eins og vera ætti.“
Selections from the Writings of ‘Abdu’l‑Bahá. Tekið saman af rannsóknardeild Allsherjarhúss réttvísinnar. Þýtt úr persnsku af nefnd við bahá’í heimsmiðstöðina og af Marzieh Gail. (Stóra Bretland: W & J Mackay Ltd. 1978.) bls. 306-307.
Eins og sakir standa takmarkast lögsaga dómstólsins við 1) mál sem aðilar skjóta til hans sameiginlega með sérstöku samkomulagi, 2) mál sem varða sáttmála eða samninga sem eru í gildi og innihalda ákvæði um möguleika á málskoti til dómstólsins, og 3) sérstakir flokkar milliríkjadeilna sem viðkomandi ríki hafa skuldbundið sig til að hlíta ákvæðum dómstólsins.
Europa World Year Book 1994. Vol.I. International Court of Justice. bls. 22.
Shoghi Effendi, þýðing úr persnesku. Gleanings from the Writings of Bahá’u’lláh. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1983.) bls. 260.
„Fyrsta og brýnasta þörfin er efling menntunar. Það er óhugsandi að nokkur þjóð geti notið hagsældar eða náð árangri nema þessi mikilvægasta grundvallarskylda sé virt. Höfuðástæðan fyrir hnignun og falli þjóða er fáfræði. Í dag er þorri fólks óupplýstur, jafnvel um venjuleg málefni, og enn síður skilur hann kjarna mikilvægra vandamála og flókinna þarfa tímans.“
‘Abdu’l‑Bahá. The Secret of Divine Civilization. Marzieh Gail þýddi úr persnesku. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1957.) bls. 109.
„Þennan sama mun má sjá á dýrunum. Sum hafa verið tamin og uppfrædd, önnur eru villt. Sönnunin er skýr um að ríki náttúrunnar er ófullkomið og heimur menntunar fullkominn. Það er að segja: maðurinn er frelsaður frá heimi náttúrunnar með þjálfun og menningu; þess vegna er menntun skylda og höfuðnauðsyn. En þjálfun er af ýmsum toga. Líkamleg þróun og ögun tryggir afl og vöxt. Til er vitsmunaleg menntun eða hugræn þjálfun sem skólum og menntastofnunum er ætlað að sinna. Þriðja tegund menntunar er andlegs eðlis. Með anda heilags anda er manninum lyft upp í heim siðagildanna og upplýstur af ljósi guðlegra gjafa. Til hins siðferðilega heims er aðeins hægt að komast með ljóma sólar raunveruleikans og endurlífgandi afli hins guðlega anda.“
‘Abdu’l‑Bahá, ávarp sem flutt var í St. Paul 20. september 1912. The Promulgation of Universal Peace, bls. 329-330.
Ríkisstjórnir og samherjar þeirra verða að hafa í huga að efnislegt jafnrétti er hvorki mögulegt né æskilegt. Fullkomið jafnrétti er tálsýn. Á ýmsum stigum á þróunarbrautinni verður samt sem áður nauðsynlegt að skipta upp einhverju af auði heimsins. Það er til dæmis að koma betur og betur í ljós að óheftur kapítalismi hefur ekki heldur svarið við vandamálunum. Einhverjar reglur og skipting eru nauðsynlegar til að tryggja efnislegt réttlæti. Í þessu tilliti er tekjuskattur ein sanngjarnasta og réttlátasta leiðin. Einnig verður að vera svigrúm fyrir skiptingu auðs af frjálsum og fúsum vilja – bæði fyrir einstaklinga og stofnanir. Jöfn tækifæri til efnahagsþróunar og framfara verða hins vegar að vera fastur þáttur í hinu nýja skipulagi. Að endingu er mikilvægasta reglan í sérhverja efnahagskerfi sú siðferðisregla sem hefst í huga og hjarta mannanna.
Stofnun Alþjóða umhverfissjóðsins (Global Environment Facility - GEF) er lofsvert fyrsta skref í rétta átt og getur komið að gagni þegar til lengri tíma litið sem eitt þeirra tækja sem gæti orðið grundvöllur fyrir fjármögnun Dagskrár 21, ef víkka á starfssvið þess og endurskilgreina umboð þess.
Alþjóðaráðstefna um mannréttindi. Vínar yfirlýsingin og aðgerðaskráin. 14.-25. júní 1993. Vín-Austurríki.
Frekari útskýringar á þessu hugtaki er hægt að finna í Hagsæld mannkyns, yfirlýsingu frá Alþjóðlega bahá’í samfélaginu, upplýsingaþjónustu, gefið út í febrúar 1995 (gefin út á íslensku af Andlegu þjóðarráði bahá’ía á Íslandi, 1995 í þýðingu Gísla Jónssonar): „Í órjúfanlegum tengslum við vitundina, sem greina kann mannlegt eðli, er sú könnun raunveruleikans sem hver og einn einstaklingur reynir að gera á sjálfum sér. Frelsið til að rannsaka tilgang tilverunnar og til þess að efla mannlega þroskakosti, sem gera mönnum kleift að öðlast það, þarfnast verndar. Sérhver einstaklingur verður að vera frjáls að því að vita. Þó að slíkt frelsi sé oft misnotað og sú misnotkun eigi sér oft stað í ríkum mæli í nútíma þjóðfélagi dregur það á engan hátt úr gildi sannleiksleitarinnar sjálfrar.
„Það er þessi greiningarhvöt og sannleiksleit mannlegrar vitundar sem kemur af stað hinum siðræna boðskap í framsetningunni um kröfu margra þeirra réttinda sem helguð eru í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og skyldum sáttmálum. Almenn menntun, ferðafrelsi, réttur til að afla upplýsinga og til þess að taka þátt í stjórnmálalífi, allt eru þetta dæmi um það sem tryggja verður rækilega í hinu alþjóðlega samfélagi. Sama á við um hugsanafrelsi og trúfrelsi, þar með talið frelsi til að tjá trú sína opinberlega, og ekki síst rétturinn til að halda fram skoðunum sínum og gera grein fyrir þeim sómasamlega.
„Þar sem mannkynið er eining sem ekki verður sundurkubbuð er hver einasta vera kynstofnsins borin í þennan heim í verndarskjóli heildarinnar. Þessi verndarskylda leggur hinn siðræna grunn að flestum öðrum réttindum – einkanlega fjárhagslegum og félagslegum – sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna reyna sömuleiðis að skilgreina. Öryggi fjölskyldu og heimilis, eignaréttur, rétturinn til einkalífs, allt er þetta byggt inn í þetta verndarkerfi. Skyldur samfélagsins ná til réttarins til þess að hafa atvinnu, andlegrar og líkamlegrar heilsugæslu, félagslegs öryggis, sanngjarnra launa, hvíldar og endurnæringar og fjölda annarra eðlilegra þarfa sem mannlega vera gerir sér von um að uppfylltar séu af þjóðfélagsheildinni.
„Grunnreglan um vernd og traust heildarinnar veitir og sérhverjum manni réttinn til þess að vænta sér þvílíkra menningarskilyrða sem honum hæfa best til þess að njóta öryggis af lögum lands síns og alþjóðalögum. Rétt eins og ótölulegur fjöldi genanna hefur sitt mikla hlutverk í manninum sjálfum og umhverfi hans er auður hinnar gríðarlegu fjölbreytni mismunandi menningar, sem mannkyninu hefur hlotnast á þúsundum ára, lífsnauðsynlegur í félagslegri og efnahagslegri þróun mannkynsins sem það mun upplifa í einingu komandi aldar. Hann felur í sér arfleifð sem mun fá að bera ávöxt í siðmenningu alls heimsins. En vissulega er menningarstarfseminni nauðsyn verndar, svo að hún verði ekki kæfð í áhrifaflóði efnishyggjunnar. Og svo er hitt, að menningin verður að vera frjáls að því að stofna með mönnum gagnkvæm kynni á hinum síbreytilegum sviðum og svæðum. Menningin verður að vera frjáls af handafli þeirra sem vilja nota hana í flokkspólitískum tilgangi.“
Alþjóðlega bahá’í samfélagið, Miðstöð upplýsingaþjónustu við almenning, Hagsæld mannkyns. (Reykjavík: Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Íslandi. 1995.)
Þegar allt kemur til alls verður virðing fyrir mannréttindum að byrja hjá fjölskyldunni: „Við getum líkt þjóðum heims við fjölskyldumeðlimi. Fjölskyldan er smækkuð mynd af þjóðinni. Stækkið einfaldlega hring heimilisins og þið hafið þjóðina. Stækkið hring þjóðanna og þið hafið allt mannkynið. Aðstæðurnar sem fjölskyldan býr við eru aðstæður þjóðarinnar. Atburðirnir innan fjölskyldunnar eru atburðir í lífi þjóðarinnar. Myndi það auka þróun og framfarir fjölskyldunnar ef deilur risu milli meðlima hennar, allir berðust, rændu hvern annan, afbrýðisamir og hefnigjarnir, hver og einn leitandi eiginhagsmuna sinna? Nei, þetta myndi valda útþurrkun framfara og þroska. Þannig er það einnig í hinni miklu fjölskyldu þjóðanna því þjóðir eru aðeins samansafn fjölskyldna. Því er það að líkt og deilur og sundurlyndi eyða fjölskyldum og hindra framfarir þeirra, þannig eyðast þjóðir og framþróun þeirra er tálmað.“
‘Abdu’l‑Bahá, The Promulgation of Universal Peace: Talks Delivered by ‘Abdu’l‑Bahá during His Visit to the United States and Canada in 1912. Samantekt: Howard MacNutt. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1982.) bls. 157.
„Þegar allt mannkynið nýtur sömu menntunartækifæra og jafnrétti karla og kvenna verður veruleiki hverfa allar átyllur til styrjalda fullkomlega úr sögunni. Þetta er ógjörlegt án jafnréttis því að mismunun og aðgreining stuðla að sundurlyndi og deilum. Jafnrétti karla og kvenna stuðlar að afnámi hernaðar því að konur munu aldrei fást til að samþykkja hann. Mæður munu ekki fórna sonum sínum á vígvellinum eftir að hafa alið önn fyrir þeim og elskað þá í tuttugu ár frá barnæsku, án tillits til hvaða málstað þeir eru kvaddir til að verja. Enginn efi leikur á því að þegar konur öðlast jafnrétti munu menn aldrei heyja stríð framar.“
‘Abdu’l‑Bahá, The Promulgation of Universal Peace. Tekið saman af Howard MacNutt. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1982.) bls. 174-175.
„Gerum það enn einu sinni heyrinkunnugt að þar til karlar og konur viðurkenna jafnréttið og gera það að veruleika, eru félagslegar og pólitískar framfarir útilokaðar, bæði hér og annars staðar. Því að heimur mannsins samanstendur af tveimur hlutum eða útlimum: annar er konan, hinn er karlinn. Þar til þessir limir eru jafnir að styrkleika er ekki hægt að koma á einingu mannkynsins og hamingja og velferð mannkynsins getur ekki orðið veruleiki. Guð gefi að þetta verði.“ Ávarp flutt af ‘Abdu’l‑Bahá á fundi samtaka kvennaklúbba, Chicago, Illinois 2. maí, 1912.
‘Abdu’l‑Bahá, The Promulgation of Universal Peace. Tekið saman af Howard MacNutt. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1982.) bls. 77.
„Á liðnum öldum hefur heiminum verið stjórnað með valdbeitingu og karlmaðurinn hefur drottnað yfir konunni í krafti óbilgjarnari eiginleika sinna og árásarhneigðar, bæði andlegrar og líkamlegrar. En metaskálarnar eru að færast til nú þegar; valdbeitingin má sín minna en áður og hugræn árvekni, innsæi og hinar andlegu eigindir ástar og þjónustu, sem eru hinar sterku hliðar konunnar, eru að ná yfirráðum. Þannig mótast nýi tíminn minna af eigindum karlmannsins en meira af kvenlegum hugsjónum, eða réttara sagt, þetta verður sá tími þegar meira jafnvægi kemst á milli karllegra og kvenlegra þátta siðmenningarinnar.“
‘Abdu’l‑Bahá, tilvitnun í bók John E. Esslemont, Bahá’u’lláh og nýi tíminn, í þýðingu Eðvarðs T. Jónssonar. (Reykjavík: Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Íslandi, 1978) bls. 154.
Sú meginregla að stúlkur og konur fái forgang til menntunar fram yfir drengi og karlmenn á sér langa sögu í bahá’í kenningunum. Í ávarpi sem ‘Abdu’l‑Bahá flutti árið 1912 sagði hann: „Þegar hann [Bahá’u’lláh] kunngerði einingu mannkynsins kenndi hann að karlar og konur væru jafnrétthá fyrir augliti Guðs og að engan greinarmun mætti gera á þeim. Eini munurinn sem er á þeim núna stafar af skorti á menntun og uppfræðslu. Ef konu eru gefin sömu tækifæri til menntunar mun aðgreining og vanmáttartilfinning hverfa... Auk þess er menntun kvenna mikilvægari en menntun karla því þær eru mæður kynstofnsins og mæðurnar ala upp börnin. Mæðurnar eru fyrstu kennarar barnanna. Þess vegna verða þær að fá góða þjálfun til að mennta bæði syni sína og dætur. Mörg ákvæði er að finna í kenningum Bahá’u’lláh þar að lútandi.
„Hann boðaði að konur og karlar skyldu ganga sama menntaveg. Dætur og synir verða að fylgja sömu námsskrá og með þeim hætti verður stuðlað að einingu kynjanna.“
‘Abdu’l‑Bahá, The Promulgation of Universal Peace. Tekið saman af Howard MacNutt. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1982.) bls. 174-175.
Lawrence H. Summers, varaforseti og aðalhagfræðingur Alþjóðabankans, Investing in All the People. 1992. Einnig, USAID. 1989. Technical Reports in Gender and Development. Making the Case for the Gender Variable: Women and the Wealth and Well-being of Nations. Office of Women in Development.
Selections from the Writings of ‘Abdu’l‑Bahá. Rannsóknardeild Allsherjarhúss réttvísinnar tók saman. Þýtt af nefnd við bahá’í heimsmiðstöðina og af Marzieh Gail. (Stóra Bretland: W & J. Mackay Ltd. 1978.) bls. 302.
The Nairobi Forward-Looking Strategies for the Advancement of Women. As adopted by the World Conference to Review and Appraise the Achievements of the United Nations Decade for Women: Equality, Development and Peace, Nairobi, Kenya, 15.-26. júlí, 1985.
Selections from the Writings of ‘Abdu’l‑Bahá. Rannsóknardeild Allsherjarhúss réttvísinnar tók saman. Marzieh Gail og nefnd við bahá’í heimsmiðstöðina þýddi. (Stóra Bretland: W & J. Mackay Ltd. 1978.) bls. 303.
Í yfirlýsingunni „Stefnt að hnattrænu siðferði,“ sem samþykkt var á þingi andlegra og trúarlegra leiðtoga nær allra stærri trúarbragða og andlegra hreyfinga árið 1993 á Trúarbragðaþinginu í Chicago, segir að trúarbrögð heims geti fundið sameiginlegan grundvöll að þessu leyti. Í yfirlýsingunni segir: „Við staðfestum að sameiginleg kjarngildi er að finna í kenningum trúarbragðanna og að þau eru grundvöllur hnattræns siðferðis . . . Þegar eru til fornar leiðarsnúrur um mannlega hegðun sem hægt er að finna í kenningum heimstrúarbragðanna og eru forsendur sjálfbærs heimsskipulags.“
Gullna reglan, kenningin um að við ættum að koma fram við aðra eins og við vildum að þeir kæmu fram við okkur, er siðfræðiboðskapur sem finna má í öllum stóru trúarbrögðunum:
Búddhismi: „Særðu ekki aðra á hátt sem myndi valda þér sjálfum sárindum.“ Udana-Varqa, 5:18.
Saraþústratrú: „Náttúran er aðeins góð þegar hún gerir ekki öðrum það sem er ekki gott fyrir hana sjálfa.“ Dadistan-i Dinik, 94:5.
Gyðingdómur: „Það sem er þér andstyggð, skaltu ekki gera öðrum. Þetta er allt lögmálið, afgangurinn er útskýringar.“ Talmúd, Shabbat, 31a.
Hindúismi: „Þetta er kjarni sanns réttlætis: komdu fram við aðra eins og þú vildir að komið væri fram við þig. Gerðu náunga þínum ekkert sem þú myndir ekki vilja að hann gerði þér.“ Mahabharata.
Kristindómur: „Það sem þér viljið að menn geri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Lúkas 6:31.
Íslam: „Enginn yðar er átrúandi fyrr en hann óskar bróður þess sem hann óskar sjálfum sér.“ Súnna.
Taóismi: Góður maður „ætti að hafa samúð með illgjörnum hneigðum annarra; að skoða ávinning þeirra sem sinn eigin og tjón þeirra sömuleiðis.“ Thai-Shang.
Konfúsíanismi: „Að sönnu er þetta meginregla ástúðar: Gerið ekki öðrum það sem þið viljið ekki að þeir geri þér.“ Analects, XV, 23
Bahá’í trúin: „Hann ætti ekki að óska öðrum þess sem hann ekki óskar sjálfum sér né lofa því sem hann ekki efnir.“ Gleanings.
Shoghi Effendi, The World Order of Bahá’u’lláh. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1938.) bls. 202.
Bahá’u’lláh. The Proclamation of Bahá’u’lláh, (Yfirlýsing Bahá’u’lláh). (Haifa: Bahá’í World Centre. 1978.) bls. 113.
Bahá’u’lláh, Tablets of Bahá’u’lláh. Tekið saman af rannsóknardeild Allsherjarhúss réttvísinnar. Habib Taherzadeh þýddi með aðstoð nefndar við bahá’í heimsmiðstöðina. (Haifa: Bahá’í World Centre. 1982.) bls. 167.
Nefnd um hnattræna stjórnun skrifar: „Nú þegar við heimsbyggðinni blasir þörf fyrir upplýst viðbrögð við þeim ögrunum sem koma upp í byrjun nýrrar aldar, höfum við áhyggjur af skorti á forystu á víðu sviði mannlegra málefna. Á þjóðar-, svæðis- og alþjóðasviði, innan samfélaga og í alþjóðlegum samtökum, í ríkisstjórnum og stofnunum utan þeirra, þarfnast heimurinn trúverðugrar og staðfastrar forystu.
„Hún þarfnast forystu sem horfir fram á við og bregst ekki aðeins við áreiti, sem er innblásin, ekki aðeins virk, sem horfir til lengri tíma og framtíðar kynslóða sem eiga nútímann að trúnaðargjöf. Hún þarfnast leiðtoga sem eru öflugir í krafti sýnar, viðhaldið af siðgæði, og opinbera pólitískt hugrekki sem sjá lengra en til næstu kosninga.
„Þetta getur ekki verið forysta innan múra heimalands. Hún verður að ná yfir land, kynþátt, trúarbrögð, menningu, tungumál, lífsstíl. Hún verður að innifela víðara mannlegt kjördæmi, fyllast umhyggju fyrir öðrum, bera ábyrgðartilfinningu gagnvart hinu hnattræna hverfi.“
Report of the Commission on Global Governance, Our Global Neighborhood. (New York: Oxford University Press. 1995.) bls. 353.
Gleanings from the Writings of Bahá’u’lláh. Þýtt af Shoghi Effendi. (Wilmette, Ill.: Bahá’í Publishing Trust. 1976.) bls. 7.