Hagsæld mannkyns
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Fyrir svo sem einum áratug hefði hugsjónin um heimsfrið engan veginn þótt líkleg til þess að rætast. Nú hefur hins vegar hindrunum verið rutt úr vegferð mannkynsins, þeim sem lengi þóttu ekki yfirstíganlegar. Deilur, þar sem sættir töldust fráleitar, hafa tekið að mildast og í staðinn komið samráð og skynsamleg niðurstaða. Vilji til þess að koma í veg fyrir beitingu vopnavalds hefur vaxið með sameiginlegu átaki um allan heim. Menn hafa leitast við að vekja með heimsfjöldanum og mörgum þjóðarleiðtogum nokkrar vonir um framtíð hnattarins okkar, vonir sem áður voru fast að því slokknaðar.
Um allan heim hefur mikil og vaxandi orka skynsemi og trúar leitað sér útrásar og stefnir í þveröfuga átt við vonbrigði síðustu áratuga. Alls staðar má sjá margvísleg merki þess að íbúar jarðarinnar leitast við að stöðva átök og binda endi á þjáningar og eyðileggingu sem ekkert land virðist framar óhult fyrir. Þessari breytingahvöt verður að beina í réttan farveg til þess að yfirstíga þær hindranir sem enn eru í vegi hins aldagamla draums um gullöld og fróðafrið. Sá stálvilji, sem þarf til þessa þrekvirkis, verður ekki til með því einu að biðja menn að vinna gegn hinu illa sem birtist í samfélaginu í ótölulegum myndum. Sá vilji þarf að stælast af hugsjóninni um mannlega farsæld í orðsins fyllstu merkingu og leiða til vakningar, sem nýtir færin til andlegrar og efnalegrar velferðar, sem nú er innan seilingar. Allir íbúar hnattarins verða að njóta hér góðs af, án nokkurs skilsmunar og skilyrða sem ekki koma við grundvallarmarkmiðinu um endurskipan mannlegra mála.
Mannkynssagan hefur fram að þessu fyrst og fremst greint frá viðgangi ættkvísla, menningarsamfélaga, stétta og þjóða. Með raunverulegum tengslum allra á jörðu á þessari öld og þeirri vissu, að sérhver jarðarbúi sé öðrum háður og samábyrgur, er mannkynssagan nú að hefjast sem saga einnar þjóðar. Hin langa, hæggenga siðun manna hefur verið dreifð og brotakennd þróun. Ljóst er að hún hefur komið misjafnt og óréttlátt niður í þeim efnislega ávinningi sem henni hefur fylgt. Eigi að síður verða jarðarbúar, í öllu sínu fjölbreytilega og menningarauðuga lífi, að takast á við það mikla viðfangsefni að beita sameiginlegri arfleifð af mikilli ábyrgðartilfinningu við að skapa sér framtíð. Þetta verða menn að gera vitandi vits og kerfisbundið.
Óraunsætt væri að ímynda sér að hugsjónin um næsta stig þróunarinnar rætist eða hún verði skýrð án þess að leita og rannsaka enn og aftur þau viðhorf og þá sannfæringu sem menn nú telja að sé forsenda félagslegrar og efnahagslegrar þróunar. Ekki fer á milli mála að þá þurfa menn að endurmeta dagleg úrlausnarefni, svo sem nýtingu auðlinda, áætlanagerð, hvaða aðferðum beita skuli og hvers konar skipulagningu. Eftir því sem þessu vindur fram birtast mönnum brátt grundvallarspurningar um hvaða langtímamarkmið setja skuli, hvers konar samfélagi við stefnum að og hversu breytast muni meginreglur um samfélagslegt réttlæti. Þá verður einnig að endurmeta eðli og hlut þekkingarinnar sem á að leiða af sér varanlegar breytingar. Hjá slíkri endurkönnun verður ekki komist til þess að leita víðtæks samkomulags um skilning á sjálfu hinu mannlega eðli.
Tveir eru þeir farvegir umræðunnar sem liggja beint áleiðis til allra þessara viðfangsefna, hvort sem þau eru í kenningu eða framkvæmd. Eftir þessum tveimur leiðum langar okkur, í því lesmáli sem á eftir fylgir, til að rannsaka hið mikla viðfangsefni hversu efla skuli heimsþróunina. Annars vegar eru ríkjandi skoðanir um eðli og tilgang þróunarferilsins; hins vegar eru þau hlutverk sem þátttakendur í þróuninni hafa tekið að sér eða munu taka.
Stefnan sem nú á dögum er yfirleitt tekin í þróunaráætlunum er að meginhluta efnisleg. Það er að segja, tilgangur þróunarinnar er skilgreindur í samræmi við þess konar samfélag, þar sem miðað er við að ná efnislegum ávinningi. Sá ávinningur með öllum sínum rangindum og raunum einkennir nú þegar vissa hluta heimsins. Þessi efnisafstaða er þó ekki einráð í umræðunni um þróunina. Menn viðurkenna þá mismun menningar og stjórnkerfishátta og þar með mismunandi viðhorf til æpandi hættumerkja sem fylgt hafa hnignun umhverfisins. Samt sem áður hafa menn ekki að neinu ráði tekist á við hina hefðbundnu efnishyggju sem er ríkjandi.
Nú þegar líður að lokum tuttugustu aldar er ekki lengur unnt að halda sig við þá trú, að sú félagslega og efnahagslega þróun sem efnishyggjan hefur hrundið áleiðis, sé fær um að svara þörfum mannkynsins. Bjartsýnisspár um þær breytingar, sem sú þróun gæti leitt af sér, hafa horfið ofan í það gap sem sífellt gliðnar á milli lífsmunaðar lítils og hlutfallslega fækkandi hóps jarðarbúa, og þeirra fátæktarkjara sem er hlutskipti mikils meiri hluta fólks í heimi hér.
Þessi fordæmislausa efnahagskreppa veldur – ásamt þeirri félagslegu afturför sem er fylgifiskur hennar – djúpstæðum rangskilningi á sjálfu hinu mannlega eðli. Því að þau svör, sem mennskir menn hafa látið frá sér fara í vörn fyrir ríkjandi hefð, eru ekki aðeins ófullnægjandi, heldur eins og út í hött, miðað við atburði líðandi stundar. Okkur er orðið ljóst, að verði samfélagsþróuninni ekki sett æðra mark en að gera núverandi aðstæður skárri mun hún ekki einu sinni ná því markmiði. Tilgangsins verðum við að leita í andlegum víddum lífsins og einsetja okkur að hefja okkur yfir þær efnahagslegu breytingar, sem alltaf gerast, og einkum yfir gerviskilvegginn á milli þeirra samfélaga manna sem kölluð hafa verið „þróuð“ eða „vanþróuð“.
Þegar tilgangur þróunarinnar hefur verið skilgreindur upp á nýtt verður líka nauðsynlegt að líta betur á sannfæringu manna um hin réttu hlutverk sem hver og einn á að fara með á ferlinum. Meginhlutverki stjórnanda, á hvaða sviði sem er, þarf ekki að lýsa í smáatriðum. En kynslóðum framtíðarinnar mun reynast nær óskiljanlegt það ástand á öld, sem aðhyllist jafnaðarskoðanir og skyld lýðræðisleg grundvallaratriði, að þróunaráætlanir skuli gera ráð fyrir því að alþýða manna, margmilljónir fólks, skuli fyrst og fremst eiga að vera viðtakendur ávinnings af aðstoð og þjálfun. Þótt menn geri ráð fyrir almennri þátttöku sem meginreglu leyfist miklum hluta manna ekki annað en taka ákvarðanir sem eru ekki frá þeim sjálfum komnar, heldur takmarkaðar við kosti sem fortölumenn gera þeim að velja um og þeim er gjarna ókleift að ná, enda oft einskorðaðir við markmið sem eru ósamrýmanleg veruleikanum.
Þetta ástand er jafnvel stutt, leynt og ljóst, með opinberum trúarsetningum. Ríkjandi trúarhugmyndir líða fyrir hefðarhelgaða forræðishyggju og virðast því ófærar um að skýra játaða trú í andlegum víddum mannlegs eðlis og breyta henni í trúnaðartraust sem gerði mannkyninu sameiginlega kleift að yfirstíga hina efnislegu þröskulda.
Afstöðu sem þessa skortir gildi þess sem er líklega mikilvægasta félagslega fyrirbæri okkar tíma. Ef það er rétt, að ríkisstjórnir heimsins reyni fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna að koma á nýrri heimsreglu er það ekki síður satt, að þjóðir heimsins eru brennandi í andanum að láta sams konar hugsjón rætast. Viðbrögð þeirra koma fram í skyndilegri gróðrartíð, þegar upp spretta ótölulegar hreyfingar og stofnanir, ætlaðar til félagslegra breytinga, á stærri eða smærri svæðum, eða jafnvel í heiminum öllum. Almenn mannréttindi, betri staða kvenna, krafan um haldgóða efnahagsþróun í samfélaginu, fordómaleysi, siðferðilegt uppeldi barna, lestrarkunnátta, frumskyldur í heilbrigðisþjónustu og fjöldi annarra bráðnauðsynlegra viðfangsefna krefjast hvert um sig bráðaþjónustu stofnana sem haldið er uppi af vaxandi fjölda fólks um allan heim.
Þetta svar fólksins sjálfs í heiminum við hinni sáru þörf tímanna endurómar það kall sem Bahá’u’lláh hóf fyrir meira en heilli öld: „Sinnið heilshugar þörfum þeirrar aldar sem þér lifið á og beinið athygli yðar að nauðþurftum hennar og kröfum.“ Gjörbreyting þess, hvernig aragrúi venjulegs fólks lítur á sjálft sig – breyting sem er svo gríðarlega snögg þegar litið er á sögu heimsmenningarinnar – vekur grundvallarspurningar um það hlutverk sem allt mannkynið verður að gegna, þegar við ráðgerum framtíð hnattarins okkar.
Grundvöllur þeirrar aðferðar, sem fengið getur allar þjóðir heims til þess að takast á hendur ábyrgð á sameiginlegum örlögum sínum, hlýtur að vera sannfæringin um einingu mannkynsins. Svo einfalt sem það er, leiðir það þó oft til rangskilnings, þegar menn meta þær grundvallarkröfur sem gera verður til stofnana nútíma samfélags. Sumir snúast til andstöðu við núgildandi borgaralegt stjórnarfar, þar sem flestum er kennt að hlýða lögum og reglu. Þessir menn dýrðast yfir baráttunni milli allra stétta og þjóðfélagshópa. Aðrir segja sem svo að andi samkeppninnar sé og eigi að vera ríkjandi í öllu nútíma samfélagi. Hvort heldur er, er ráð fyrir því gert, að átök og deilur séu meginuppspretta mannlegra samskipta. Þetta sýnir aðeins enn aðra framsetningu hins félagslega skipulags í efnislegri túlkun lífsins, framsetningu sem hefur stöðugt fest sig í sessi tvær síðustu aldir.
Bahá’u’lláh skrifaði Viktoríu drottningu bréf fyrir meira en öld og bar þar saman heiminn og líkama mannsins. Hann tók líkingu af manninum og taldi hana benda til þess, að okkur væri gefið sannfærandi fyrirheit um skipulag samfélags sem næði yfir alla veröldina. Í sannleika sagt er ekkert annað fyrirbæri í tilverunni sem við getum af nokkurri skynsemi miðað við. Mannlegt félag er ekki bara eins og ótal kommóður með mörgum skúffum. Sérhver einstaklingur er gæddur gáfum og vilja. Eigi að síður sýna þeir hegðunarhættir, sem einkenna mannlegt lífeðli, nokkur grundvallaratriði í tilverunni. Hið allra helsta er eining með fjölbreytni. Svo mótsagnakennt sem það virðist er það einmitt hið einfalda og flókna í hinni reglubundnu gerð mannlegs líkama – og hin fullkomna samþætting þess í líkamanum – sem gerir okkur kleift að átta okkur á hinum sérstöku hæfileikum sem innbyggðir eru í sérhverja mannlega veru. Enginn þáttur manna lifir utan líkamans, hvort sem hann kann að láta eitthvað í té eða þiggur aðeins sinn skerf af framlagi heildarinnar. Líkamleg vellíðan, sem þannig fæst, finnur sér tilgang í því að gera mannlega tjáningu vitundarinnar mögulega, það er að segja, tilgangur líffræðilegrar þróunar er æðri en svo, að líkaminn og hlutar hans séu bara til.
Það sem satt er um líf einstaklingsins, á sér hliðstæðu í mannlegu félagi. Tegundin maður er líffræðileg heild, vaxtarbroddurinn á ferli framþróunarinnar. Það, að mannleg vitund er óhjákvæmilega virk í ótölulegum fjölda einstaklinga, hugarfari þeirra og fyrirætlunum, þarf alls ekki að leiða þá frá sinni eðlislægu einingu. Í raun er það nákvæmlega svo, að meðfædd fjölbreytni skilur að einingu annars vegar og einsleitni og fábreytni hins vegar. Bahá’u’lláh hefur sagt, að það sem þjóðir heimsins eru nú að upplifa, sé þeirra sameiginlega framtíðaröld, og með þroska af þessu tagi kemur í fullt gildi meginreglan um einingu í fjölbreytni. Frá alfyrstu stigum sameiningar í fjölskyldulífi hefur félagsleg þróun gerst stig af stigi frá einföldum samfélögum ættar og kynkvíslar til hinna margflóknu gerða borgarsamfélags og síðan tilkomu þjóðríkisins, og á öllum stigum hafa orðið til dýrmæt ný tækifæri til þess að þjálfa mannlega getu.
Vissulega hefur framför kynstofnsins ekki sýnst verða á kostnað einstaklingseinkenna manna. Eftir því sem samfélagið hefur tekið meiri skipulagningu hefur tjáningarsvið þeirra hæfileika, sem fólgnir eru í hverri mannlegri veru, víkkað. Vegna þess að tengslin milli einstaklings og samfélags eru gagnkvæm, verður sú umsköpun sem nú er nauðsynleg að gerast samtímis í mannlegri meðvitund og gerð samfélagslegra stofnana. Í þeim tækifærum, sem nú bjóðast á þessum tvöfalda breytingaferli, finnur aðferðin til þess að auka þroska heimsins alls tilgang sinn. Á þeim stóralvarlegu tímum, sem við upplifum, hlýtur tilgangurinn að vera sá að koma á fót varanlegum stofnunum, þar sem siðmenning á jörðinni allri getur átt sér stað.
Til þess að leggja grundvöll að nýrri alheimssiðmenningu þarf að setja lög og koma upp stofnunum sem alþjóðlegar séu bæði í eðli og að valdsviði. Tilraunir til slíks geta þá fyrst hafist, þegar menn hafa áttað sig á einingu mannkynsins og viðurkennt hana af sannfæringu og öllu hjarta, og þá einkum þeir sem takast munu á hendur ábyrgðina á ákvörðunum, – og þegar grundvallarreglur þessu skyldar eru kenndar bæði í almennum skólum og í fjölmiðlum hvers konar. Þegar stigið hefur verið yfir þennan þröskuld hefur sá ferill hafist sem í því er fólginn að setja almenn markmið og berjast fyrir því að þeim verði náð. Aðeins slík grundvallarumsköpun getur líka varið menn gegn hinum aldagamla djöfli þjóðernislegra og trúarlegra átaka. Aðeins fyrir þá vaknandi vitund, að allir menn myndi eina þjóð, mun íbúum þessarar jarðar verða auðið að snúa af vegi átakanna og deilnanna, sem hafa ríkt í skipulagi samfélagsins hingað til, og hefja för sína út á veginn til samvinnu og sættar. Bahá’u’lláh skrifar: „Velferð mannkyns, friður þess og öryggi, verður aldrei að veruleika nema og þangað til eining þess er tryggilega staðfest.“
Réttlæti er eina aflið sem getur yfirfært vaknandi meðvitund um einingu allra manna inn í sameiginlegan vilja. Slíkur vilji einn getur komið til leiðar nauðsynlegri breytingu á gerð mannlegs félags um allan heim, svo að tryggt sé. Á þeim tímum, þegar þjóðir heimsins hafa sívaxandi færi á upplýsingum um alla skapaða hluti og geta kynnst fjölskrúðugum hugmyndum mun sannast að réttlæti er ráðandi meginatriði í árangursríku félagslegu skipulagi. Æ oftar verða uppástungur um þróunina á jörðinni okkar að játast undir hið bjarta ljós sem réttlætið krefst og þarfnast.
Að því er snertir hvern einstakan mann er það réttlætið sem gerir sál hans fært að greina satt frá lognu. Fyrir augliti Guðs, staðhæfir Bahá’u’lláh, er réttlætið „kærast alls“, því það gerir hverjum manni fært að sjá með eigin augum, fremur en annarra, og að vita sinni eigin vitneskju fremur en vitneskju náungans eða hópsins. Réttlætið krefst heiðarleika í hugsun og dómgreind manns, og það krefst sanngirni í garð annarra og er þannig stöðugur og ráðandi förunautur í öllu sem hendir okkur í daglegu lífi.
Að því er snertir hópa manna er umhyggja fyrir réttlætinu skilyrðislaus leiðarvísir í ákvörðunum margmennis, því það er eina tækið til þess að gera mönnum fært að ná fram einingu í hugsun og athöfn. Ekki er það uppörvandi, að andi hefnigirni og refsingar hefur oft klæðst dulargervi réttlætisins á liðnum öldum. Eiginlegt réttlæti lýsir sér í því að við gerum okkur ljóst, á vaxandi þroskaferli manna, að hagsmunir einstaklingsins og samfélagsins eru órjúfanlega samantengdir. Með það að markmiði, að réttlæti verði eftirsóknarverðasti kosturinn í gagnkvæmum samskiptum manna, þarf að skapa viðhorf eða andrúmsloft sem hvetur til þess að menn geti valið hleypidómalaust og með nákvæmni þær réttu aðferðir sem menn vilja beita. Í þvílíku andrúmslofti verður ævagömul tilhneiging til hrossakaupa og málamiðlana miklu ólíklegri en fyrr til þess að flækja þráðinn, þegar ákvarðanir eru teknar.
Ákaflega flóknar eru allar forsendur félagslegrar og fjárhagslegrar þróunar. Umhyggja fyrir réttlæti auðveldar það verk, að skilja framfarir frá freistingunni til að fórna velsæld alls almennings – og jafnvel jörðinni sjálfri – fyrir ávinning sem tæknilegar uppfinningar geta fært tiltölulega fámennum forréttindahópum. Við gerð áætlana og framtíðaráforma tryggir réttlætið að takmarkaðar auðlindir séu ekki aðeins til þess að moða úr fyrir fámenna forréttindahópa í samfélaginu. Umfram allt verða allar þróunaráætlanir að gera ráð fyrir að mæta þörfum fjöldans á sanngjarnan og réttlátan hátt, enda á alþýða manna mest í húfi um það, hvernig til tekst. Mikilvægustu kostir manna, svo sem heiðarleiki, vinnugleði og samstarfshvöt geta áorkað þrekvirkjum, þar sem þörf er á miklum sameiginlegum átökum almennings – og reyndar allra tegunda félagasamtaka – svo að hver og einn geti treyst því, að hann sé nægilega verndaður og öruggur um að fá sinn hlut af gæðum lífsins.
Mannréttindi eru því eitt hið allra mikilvægasta viðfangsefni, þegar ræða skal hversu félagsleg og efnahagsleg þróun skuli vera. Mótun stefnu í þessu efni krefst þess að mannréttindabarátta sé frelsuð undan fargi tvískinnungs þess sem allt of lengi hefur haldið henni í gíslingu. Sannfæringin um að sérhver mannleg vera skuli njóta hugsana- og athafnafrelsis sér til persónulegs ávinnings réttlætir ekki ræktun þeirrar einstaklingshyggju sem spillir svo mjög mannlegu lífi nú á dögum. Né heldur réttlætir sannfæringin um almenna velferð að ríkið sé gert að eins konar guði sem eigi að vera uppspretta allrar mannlegrar velsældar. Þetta er allt öðruvísi: Saga aldar okkar sýnir alltof ljóslega að slík kenning og slík flokkapólitík með öllum sínum áróðri hefur orðið sínum eigin stuðningsmönnum verst í reyndinni. Aðeins með samráði og samvinnu, sem er því aðeins möguleg að menn vinni vísvitandi að einingu mannkynsins, er hægt að berjast fyrir alhliða mannréttindum á löglegan og árangursríkan hátt.
Á okkar dögum eru stofnanir, sem við þekkjum, sem hafa viljað taka að sér útbreiðslu og varðveislu almennra mannréttinda og bjarga þeim undan þeim öflum sem hafa viljað skemma fyrir þessum stofnunum. Þær eiga rætur sínar að rekja til harmleikja tveggja skelfilegra heimsstyrjalda og reynslunnar af efnahagslegu hruni um allan heim. Táknrænt má það kalla að orðalagið „almenn mannréttindi“ hefur verið á hvers manns vörum allt frá því að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna var gerður 1945 og mannréttindayfirlýsing þeirrar stofnunar var samþykkt þremur árum síðar. Á þessum heimssögulegu tímamótayfirlýsingum hafa menn heitið að virða þjóðfélagslegt réttlæti sem jafngildi þess að heimsfriður haldist. Sú staðreynd að mannréttindayfirlýsingin var samþykkt án nokkurs einasta mótatkvæðis hefur gefið henni myndugleikastöðu sem hefur styrkst öll þau ár sem síðan eru liðin.
Í órjúfanlegum tengslum við vitundina, sem greina kann mannlegt eðli, er sú könnun raunveruleikans sem hver og einn einstaklingur reynir að gera á sjálfum sér. Frelsið til að rannsaka tilgang tilverunnar og til þess að efla mannlega þroskakosti, sem gera mönnum kleift að öðlast það, þarfnast verndar. Sérhver einstaklingur verður að vera frjáls að því að vita. Þó að slíkt frelsi sé oft misnotað og sú misnotkun eigi sér oft stað í ríkum mæli í nútíma þjóðfélagi dregur það á engan hátt úr gildi sannleiksleitarinnar sjálfrar.
Það er þessi greiningarhvöt og sannleiksleit mannlegrar vitundar sem kemur af stað hinum siðræna boðskap í framsetningunni um kröfu margra þeirra réttinda sem helguð eru í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna og skyldum sáttmálum. Almenn menntun, ferðafrelsi, réttur til að afla upplýsinga og til þess að taka þátt í stjórnmálalífi, allt eru þetta dæmi um það sem tryggja verður rækilega í hinu alþjóðlega samfélagi. Sama á við um hugsanafrelsi og trúfrelsi, þar með talið frelsi til að tjá trú sína opinberlega, og ekki síst rétturinn til að halda fram skoðunum sínum og gera grein fyrir þeim sómasamlega.
Þar sem mannkynið er eining, sem ekki verður sundurkubbuð, er hver einasta vera kynstofnsins borin í þennan heim í verndarskjóli heildarinnar. Þessi verndarskylda leggur hinn siðræna grunn að flestum öðrum réttindum – einkanlega fjárhagslegum og félagslegum – sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna reyna sömuleiðis að skilgreina. Öryggi fjölskyldu og heimilis, eignaréttur, rétturinn til einkalífs, allt er þetta byggt inn í þetta verndarkerfi. Skyldur samfélagsins ná til réttarins til þess að hafa atvinnu, andlegrar og líkamlegrar heilsugæslu, félagslegs öryggis, sanngjarnra launa, hvíldar og endurnæringar og fjölda annarra eðlilegra þarfa sem mannleg vera gerir sér vonir um að uppfylltar séu af þjóðfélagsheildinni.
Grunnreglan um vernd og traust heildarinnar veitir og sérhverjum manni réttinn til þess að vænta sér þvílíkra menningarskilyrða sem honum hæfa best til þess að njóta öryggis af lögum lands síns og alþjóðalögum. Rétt eins og ótölulegur fjöldi genanna hefur sitt mikla hlutverk í manninnum sjálfum og umhverfi hans er auður hinnar gríðarlegu fjölbreytni mismunandi menningar, sem mannkyninu hefur hlotnast á þúsundum ára, lífsnauðsynlegur í félagslegri og efnahagslegri þróun mannkynsins sem það mun upplifa í einingu komandi aldar. Hann felur í sér arfleifð sem mun fá að bera ávöxt í siðmenningu alls heimsins. En vissulega er menningarstarfseminni nauðsyn verndar, svo að hún verði ekki kæfð í áhrifaflóði efnishyggjunnar. Og svo er hitt, að menningin verður að vera frjáls að því að stofna með mönnum gagnkvæm kynni á hinum síbreytilegu sviðum og svæðum. Menningin verður að vera frjáls af handafli þeirra sem vilja nota hana í flokkspólitískum tilgangi.
„Ljós mannanna,“ segir Bahá’u’lláh, „er réttlætið, slökk það ekki með misvindum kúgunar og harðstjórnar. Tilgangur réttlætis er að eining birtist meðal manna. Hafsjór guðlegrar visku streymir í þessu göfuga orði, en veraldlegar bækur ná ekki innihaldi þess eða dýpri merkingu.“
Nauðsynlegt er að endurmeta öll mannleg tengsl í grundvallaratriðum til þess að skilgreina hvað séu almenn mannréttindi, nú þegar ákvarða skal hvernig móta beri og staðfesta það ástand sem ríkja skuli á alþjóðlegum vettvangi. Skilningur nútímans á því, hvað séu eðlileg og réttmæt tengsl milli mannanna sjálfra innbyrðis, milli manna og náttúru, milli einstaklings og þjóðfélags og milli þjóðfélagsþegna og stofnana – þessi skilningur endurspeglar þau viðhorf sem menn hafa tileinkað sér á fyrri og lægri þróunarstigum. Ef mannkynið á í rauninni að verða fullveðja, ef allir íbúar jarðarinnar eiga að mynda eina persónu, ef réttlæti á að vera ríkjandi grunnregla í gerð samfélagsins – þá verður að breyta ríkjandi skoðunum sem fæddust af fáfræði um þessar staðreyndir sem nú eru að verða ljósar.
Ferðin í þessa átt er naumast hafin. Í ljós kemur að leiðin liggur að nýjum skilningi á eðli fjölskyldunnar og réttindum og skyldum hvers og eins innan hennar. Hún mun gerbreyta hlutverki konunnar á öllum sviðum samfélagsins. Hún mun valda því að ný skipan er gerð á verksviði manna, og þeim mun einnig opnast ný sýn á þau efnahagslögmál sem líf þeirra lýtur. Hún mun koma til leiðar gertækum breytingum á stjórn mannlegra mála og þeirra stofnana sem ætlað er að sjá um þau. Fyrir tilstilli þessarar nýju leiðar mun hlutverk þeirra stofnana, sem ekki eru á vegum stjórnvalda, aukast fljótt og vel. Hún mun tryggja gerð bindandi lagasetningar sem bæði verndar umhverfið og eykur þroskakosti alls almennings. Að lokum mun endurskipulagning eða umsköpun Sameinuðu þjóðanna, sem þessi nýja hreyfing vinnur nú þegar að, án efa leiða til þess að stofnað verður heimssamband þjóða með eigin löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi.
Mjög mikilvægur er, þegar á að endurmeta öll mannleg samskipti, það ferli sem Bahá’u’lláh vitnar til í heilræðum sínum: „Nauðsynlegt er að hafa samráð um öll málefni,“ er ráðlegging Hans: „Skilningsþroskinn er birtur með atbeina samráðs.“
Sá mælikvarði sannleiksleitar sem þetta ferli krefst er langt handan við þau svið samninga og málamiðlana sem einkenna nútímabollaleggingar um mannleg málefni. Menn uppfylla ekki þann mælikvarða – og reyndar standa alvarlegar hindranir í vegi fyrir uppfyllingu hans – með mótmælaávana sem er annar algengur þáttur í nútímasamfélagi. Stælur, áróður, að vera alltaf upp á móti, allt flokkakerfið eins og það leggur sig, sem hefur svo lengi verið kunnuglegasti þátturinn í öllum fjöldahreyfingum, vinnur fullkomlega og skaðsamlega gegn tilgangi sínum: það er að segja að komast að samkomulagi um sannindi ástands sem menn gefa sér að sé viturlegasti kosturinn sem um sé að velja á tilteknu andartaki.
En það, sem Bahá’u’lláh stefnir að, er samráðsferill, þar sem hver og einn á ferlinum reynir að hefja sig yfir sín eigin þröngu sjónarmið til þess að geta verið góður og gildur þegn samfélags sem hefur sín eigin keppikefli og markmið. Í slíku andrúmslofti, sem einkennist bæði af einlægni og háttvísi, eru hugmyndir ekki einkaeign þess sem dettur eitthvað í hug, meðan viðræður fara fram, heldur tilheyra þær hópnum öllum, og menn spyrja hver annan hvað skuli upp taka, hverju henda og hvað endurskoða til þess að komast að niðurstöðu sem best henti því sem að er stefnt. Samráðið skal vera svo víðtækt, að ákvarðanir hljóti stuðning allra, hvað sem líður einkaskoðunum í upphafi umræðnanna. Þegar menn haga þannig til, er auðvelt að endurmeta fyrri ákvarðanir, hafi reynslan sýnt að þær séu ekki gallalausar.
Séð í ljósi alls þess, sem nú hefur verið lýst er samráð ríkjandi aðferð til þess að framfylgja réttlæti í málefnum manna. Það er svo lífsnauðsynlegt í framgangi sameiginlegrar viðleitni, að með því verður að leggja grunninn undir færan veg til efnahagslegrar og félagslegrar þróunar. Hluttaka fólks, sem árangur þessarar aðferðar byggist á, er í raun svo mikilvæg, að leiðin verður því aðeins fær að samráð sé ríkjandi grunnregla á öllum sviðum. „Enginn maður getur fundið sinn rétta stað,“ er ráðlegging Bahá’u’lláh, „nema fyrir tilstilli réttlætis síns. Ekkert vald getur átt sér stað nema fyrir tilstilli einingar. Enginn vellíðan, engin velsæld er fáanleg, nema fyrir tilstilli samráðs.“
Þau verk, sem nauðsynleg eru fyrir þróun heimssamfélags, krefjast hæfileika sem eru langt umfram það sem mannkynið hefur hingað til búið yfir. Til þess að öðlast þá hæfni er nauðsynlegt að menn fái færi á gríðarlegri upplýsingaöflun, hvort heldur sem er hver maður um sig eða stofnanir samfélagsins. Almenn menntun er fortakslaust skilyrði á þessum ferli til að byggja upp getu, en erfiðið mun þá fyrst verða árangursríkt, þegar mannleg málefni hafa tekið þeim stakkaskiptum sem gera bæði einstaklingum og hópum á öllum sviðum samfélagsins fært að öðlast þekkingu og nota hana síðan til að bæta mannleg kjör.
Í skráðri sögu mannkynsins hefur mannleg vitund verið háð tveimur grundvallarsviðum þekkingarinnar, sem mannkynið hefur byggt sókn sína til framfara á: það eru vísindi og trú. Með tilstilli þessa tvenns hefur mannkynið fellt reynslu sína í kerfi, gert grein fyrir umhverfi sínu, kannað dulda krafta sína og sett reglur um andlegt og siðrænt líf sitt. Bæði tvö hafa verið helstu hreyfiöfl og smiðvélar siðmenningarinnar. En sé horft til baka, er enn fremur augljóst að áhrif þessarar tvenndar hafa orðið heilladrýgst á þeim tímabilum, þegar trú og vísindi, hvort á sínu sviði, hafa verið þess umkomin að stilla saman strengi sína.
Ef við föllumst á að vísindin eigi skilið þann heiður sem þau almennt eru haldin í, má vel við þau una í sjálfum sér án endursköpunar. Þegar ákveða skal aðferðina til félagslegrar og efnahagslegrar þróunar er spurningin frekar sú, hvernig eigi að skipuleggja vísindalega og tæknilega athafnasemi. Ef starfið er fyrst og fremst unnið út frá því sjónarmiði að varðveita áunnin kjör forréttindahópa meðal fárra þjóða er augljóst að hin gríðardjúpa gjá, sem ríkjandi fyrirkomulag hefur þegar staðfest milli ríkra og snauðra í veröldinni, mun halda áfram að stækka, með skelfilegum afleiðingum fyrir fjárhagskerfi heimsins alls. Ef stærsta hluta mannkynsins er aðeins ætlað að vera þiggjendur þess sem vísindi og tækni framleiða annars staðar er vafalaust að áætlanir, sem eiga að líta út fyrir að vera í þjónustu þeirra sem þurfandi eru, verðskulda ekki nafnið þróun.
Því er aðalvandinn, og hann hvorki lítill né léttleystur, sá að koma vísindum og tækniþróun út á meðal sem flestra. Hreyfiöfl félagslegra og efnahagslegra breytinga, sem það geta, verða að hætta að vera verkfæri í þágu fámennra hópa samfélagsins, og þau verður að skipuleggja svo að öllum mönnum, hvar sem er, leyfist að vera með í þróunarstarfinu í samræmi við getu sína. Auk þess að gera áætlanir um að nauðsynleg menntun sé fáanleg handa öllum, sem geta notið góðs af henni, þarfnast slík endurskipulagning stofnunar lífvænlegra fróðleiksmiðstöðva um víða veröld, stofnana sem auka munu á hæfni allra jarðarbúa til þess að verða með í menntunarþróun nýrrar kynslóðar. Þróunarstefna, sem viðurkennir hinn mikla mun mannlegra tækifæra, verður að gera það að helsta keppikefli sínu að gera öllum jarðarbúum kleift að komast sem næst því að þeir standi hver jafnfætis öðrum að tileinka sér vísindi og tækni, svo sem þeir eru að réttu bornir til. Venjulegar röksemdir fyrir því að viðhalda óbreyttu ástandi eru á sífelldu undanhaldi, en hraðfara gjörbreyting í upplýsingamiðlun er nú innan seilingar fyrir gríðarmikinn fjölda fólks um allan jarðarhnöttinn, hvar sem menn eiga heima og hver sem er menningarleg arfleifð þeirra.
Þau vandamál sem mannkynið glímir við í trúarlífinu, eru kannski annars eðlis, en ámóta skelfileg. Fyrir mikinn meiri hluta jarðarbúa er hugmyndin um að mannlegt eðli hafi andlega vídd – að helsti eðliskjarni manns sé einmitt andlegur – sannleikur sem ekki þarf sönnunargagna við. Þann skilning á veruleikanum er að finna í elstu heimildum um siðmenningu okkar, og hann birtist í trúarlífi ár þúsundanna, hvar sem borið er niður í þekktum samfélögum manna. Merki varanlegs trúarlífs sjást í lagasmíð, í fögrum listum og siðun mannlegra samskipta, og þetta er einmitt kjarni og merking sögunnar. Með einum eða öðrum hætti hefur trúin áhrif á daglegt líf flestra jarðabúa, eins og atburðir um víða veröld sýna nú með áhrifamiklum hætti. Þær þrár, sem trúin vekur með mönnum, eru bæði óslökkvandi og ómetanlega sterkar.
Það sýnist því augljóst að með öllu móti verður að örva framför manna og glæða hæfileika þeirra og sköpunarmátt um víða veröld. Og hvers vegna í ósköpunum hafa þá ekki hin andlegu efni, sem mannkynið varða, verið kjarninn í þróunarumræðunni? Hvers vegna hafa flest forgangsatriði – reyndar flestallar helstu fyrirætlanir – í alþjóðlegri þróunaraðstoð hingað til verið miðaðar við sjónarmið efnishyggjunnar sem aðeins lítill hluti jarðarbúa aðhyllist? Hversu þungvægt má það vera að samsinna aðeins því venjuviðhorfi í samskiptum fólks um heim allan, sem neitar gildi þess að fólkið sjálft miðli reynslu sinni og menningararfleifð sem víðast?
Þau rök má setja fram að þessi efni séu utan við alfaraleið í þróun mannkynsins, vegna þess að andleg og siðferðileg álitamál hafi sögulega séð verið viðfangsefni guðfræðinnar, og ógjörningur að sannprófa þau á hlutlægan hátt. Ef menn veittu slíkum efnum þungvægara hlutverk, væri einmitt verið að opna upp á gátt fyrir trúarkreddum sem löngum hafa alið á sundurlyndi og þvergirðingshætti í sögu mannkynsins. Það er áreiðanlega mikill sannleikur í þessum rökum. Túlkendur hinna margvíslegu guðfræðikerfa bera mikla ábyrgð, og ekki aðeins vegna þess óorðs sem trúin hefur fengið á sig í vitund margra framfarasinnaðra hugsuða, heldur einnig fyrir þær takmarkanir og afbakanir sem þeir hafa valdið í stöðugri umræðu mannkynsins um andleg efni. En að álykta samt sem áður svo, að svarið liggi í því að letja menn að rannsaka andlegan veruleika og látast ekki vita af dýpstu rótum mannlegs tilfinningalífs, væri augljós sjálfsblekking. Einu áhrifin af boðum og bönnum í þessu efni væru að afhenda framtíðarmótun mannkynsins nýjum bókstafstrúarmönnum, sem kenna að sannleikurinn sé siðblindur og staðreyndir hafi ekkert gildi.
Að því er varðar tilveru manna á jörðu, eru einmitt margar hinar helstu trúarstefnur siðrænar í eðli sínu. Með kenningu þeirra og með fordæmi manna, sem hafa verið brennandi í andanum vegna þessarar kenningar, hefur mikill fjöldi fólks á öllum tímum og í öllum löndum öðlast þann þroskakost að elska. Menn hafa lært að aga dýrið í sjálfum sér, að fórna miklu til almenningsþarfa, að temja sér fyrirgefningu, göfuglyndi og trúnað og að nota auð og önnur efni á þann hátt að það örvi framgang siðmenningarinnar. Á kerfisbundinn hátt út um allan heim hafa menn notað siðrænar aðferðir í miklum mæli í öllu samfélaginu. Þó að kreddubundnar kenningar hafi verið ærið torskildar og klofnar vegna trúardeilna hafa á þeirra vegum orðið miklar og merkilegar hreyfingar fyrir tilstilli yfirburðamanna, svo sem Krishna, Móse, Búddha, Saraþústra, Jesú og Múhammeðs. Þessir miklu fræðarar hafa haft höfuðáhrif í því að siðbæta mannlífið.
Þar sem höfuðviðfangsefnið er að styrkja mannkynið með miklu greiðari leiðum í fróðleiksöflun er aðferðin, sem slíkt gæti gert fært, sú að koma á og viðhalda miklu meiri tengslum vísinda og trúar. Það er – eða ætti að minnsta kosti að vera – alkunna að á öllum sviðum mannlegrar athafnasemi og hverju stigi verði að miða sjónarmið og hæfileika til vísindaafreka við það afl sem andleg orka og siðrænar reglur setja mönnum til þess að ná þar réttmætu marki. Fólk þarf til dæmis að læra að greina staðreyndir frá getgátum – það er raunar að greina á milli persónulegra sjónarmiða og raunverulegs sannleika. Hversu mikið hver og einn getur þannig lagt af mörkum til framfara mannkynsins, er skilyrt því hversu sannleiksást þeirra er rík og hversu færir þeir eru um að gera sig óháða eigin hagsmunum og ástríðum. Annar er sá hæfileiki sem vísindin verða að rækta í hverjum manni, sem sé sá að miða hugsun sína við framfaratímabil, einnig framfaraspor sögunnar. Eigi að síður, ef þessi andlega framför á að koma til leiðar verulegri og varanlegri þróun verða slík sjónarmið að verða óháð fordómum um kynþætti, menningu, kynferði eða trúflokka. Og sömuleiðis verður sú þjálfun, sem gerir jarðarbúum kleift að taka þátt í sköpun auðæfa, því aðeins hæf til framgangs þróunarinnar, að hún sé knúin fram og lýst upp með andlegu innsæi sem gagnast mannkyninu, hvort heldur er í einkalífi manna eða skipun samfélagsins.
Útbreiðsla þekkingar á öllum sviðum er nauðsynleg til þess að efla getu mannkynsins og þá ekki síst í þeim efnahagsvanda sem menn horfast í augu við. Reynsla síðustu áratuga sýnir að efnislegur ágóði og viðleitni geta ekki verið markmið í sjálfum sér. Það er hreint ekki nóg að sjá fólki fyrir frumstæðustu þörfum, svo sem þaki yfir höfuðið, mat, heilbrigðisþjónustu og þvílíku. Það þarf að auka mannlega hæfni og gera hana fjölbreytilegri. Því er það, að mikilvægustu skref í efnahagsþróun eru fólgin í því að gera menn og stofnanir þeirra færari um að ná hinum raunverulega árangri þróunarinnar. Það er að segja, leggja grunninn að nýrri samfélagsskipan sem geti leyst úr læðingi takmarkalausa hæfileika sem búa í mannlegri vitund.
Þá kröfu verður að gera til þeirra, sem hugsa um efnahagsmál, að þeir viðurkenni ótvírætt tilgang þróunarinnar – og hlutverk hennar til þess að eflast af sjálfsdáðum. Aðeins með þessum hætti geta efnahagsvísindi og önnur skyld fræði frelsast af þeim meginstraumum efnishyggjuvafsturs sem nú kaffæra þau, en í stað þess tvíeflt getu sína sem lífsnauðsynlegt tæki til að koma áleiðis mannlegri velsæld í fyllstu merkingu orðsins. Hvergi er þörfin fyrir nákvæmt samspil milli vísindastarfs og trúarlegs innsæis augljósari.
Vandi fátæktarinnar er brýnt úrlausnarefni. Tillögur, sem þar miða að lausn, eru byggðar á þeirri sannfæringu að efnisleg úrræði séu til, eða hægt sé með vísindalegum eða tæknilegum aðferðum að draga úr og jafnvel útrýma með öllu þessum aldagamla vanda sem sett hefur svip sinn á mannlegt félag. Meginástæðan til þess, að vandinn hefur ekki verið leystur, er sú að nauðsynlegar vísindalegar og tæknilegar framfarir miðast við fáein forgangsatriði sem rétt aðeins snerta hina raunverulegu hagsmuni mannkynsheildarinnar. Róttæk endurröðun þessara forgangsatriða er nauðsynleg, ef létta á fargi fátæktarinnar af heimsbyggðinni. Slík starfsemi krefst nákvæms úrskurðar um það, hver séu réttmæt gildi, úrskurðar sem mun verða mikill prófsteinn á andleg og siðferðileg úrræði mannkynsins. Trúarbrögð munu verða alvarleg hindrun, þegar kemur að áðurnefndu samspili, svo lengi sem trúnni er haldið fanginni með sérkreddukenningum sem geta ekki greint á milli ánægju og afskiptaleysis og sem kenna að fátækt sé eðlisgróinn þáttur mannlegs lífs, lausn fátæktarvandans sé aðeins í handanheiminum. Til þess að taka árangursríkan þátt í baráttunni fyrir því að færa mannkyninu efnalega velsæld verður andi trúarbragðanna að finna – í lind innblástursins sem hann kemur frá – nýjan andlegan skilning og ný grunnlögmál sem eiga við á tímum sem leitast við að staðfesta einingu og réttlæti í málefnum mannkynsins.
Atvinnuleysi er annar sams konar vandi. Í hugum flestra nútímamanna hefur starfið sjálft mjög svo þokað fyrir því sem kalla mætti ábatasöm athafnasemi sem miðar að því að gera mönnum fært að neyta fáanlegra gæða. Kerfið er hringlægt: öflun og neysla sem leiðir til þess að menn haldi áfram og auki vöruframleiðslu, sem svo leiðir til stuðnings og styrkja í atvinnulífinu. Allt er þetta fremur gert til ávinnings fyrir þjóðarbúið á hverjum stað en með heill einstaklinganna í huga. Og óréttmæti hins almenna viðhorfs má lesa bæði út úr áhugaleysi fréttaskýrenda gagnvart hinum geigvænlega fjölda atvinnuleysingja og vaxandi vonleysi meðal herskara atvinnuleysingjanna sjálfra.
Það er því engin furða, að æ fleiri viðurkenna í orði að veröldin sé í brýnni þörf fyrir nýtt „vinnusiðferði“. En hér eins og oftar dugar ekkert minna en innsýn sem á uppruna sinn í skapandi samvinnu vísindakerfa og trúarbragða. Aðeins með henni er unnt að koma til leiðar svo róttækum umbótum á venjum og viðhorfum. Dýrin eru háð því, hversu þau þola eða geta nýtt sér hvaðeina sem umhverfið býður þeim. Mennirnir eru að þessu leyti öðruvísi. Þeir eru knúnir til þess að láta í ljósi þá geysimiklu hæfileika, sem í þeim felast, með skapandi starfi sem miðar að því að sinna bæði sínum eigin þörfum og annarra. Með slíku atferli verða þeir þátttakendur, þó oft sé hlutur hvers og eins örsmár, í framgangsferli siðmenningarinnar. Þeir sinna verkefni sem tengir þá saman. Að svo miklu leyti sem starfið er unnið samviskusamlega og í þjónustuanda við mannkynið, segir Bahá’u’lláh, er það í rauninni bænargjörð og aðferð til að lofa Guð. Sérhver mannleg vera getur séð sjálfa sig í þessu ljósi, og til þessa sameiginlega hæfileika einstaklinganna verður að skírskota á þróunarferlinum, hvaða aðferðum sem annars er beitt og hvaða launum sem lofað er. Þröngsýnna viðhorf getur aldrei komið af stað meðal heimsfjöldans því gríðarlega átaki og ástundun sem efnahagslegar umbætur þarfnast á komandi tíð.
Svipaðs eðlis og sú krafa, sem til okkar er gerð í efnahagsmálum, er einnig uppi varðandi umhverfið. Villukenningar, sem byggjast á þeirri trú að náttúrunni séu engin takmörk sett til að svara öllum kröfum mannanna, hafa nú verið blákalt settar fram. „Menning“, sem efast ekki um gildi útþenslu, ásóknar og uppfyllingar allra efnislegra þarfa manna, verður að gera sér grein fyrir og viðurkenna að slík markmið eru ekki í sjálfum sér það sem raunsætt er að sækjast eftir. Óréttmætt er einnig að fjalla um efnahagsmál með því hugarfari að ákvarðanir skuli taka án þess að gera sér grein fyrir því að vandinn er hnattlægur, en verður ekki leystur með einu hér og öðru þar.
Sú einlæga von, að þessi siðrænu vandamál megi einhvern veginn leysa með því að guðgera náttúruna sjálfa, er merki þeirrar örvæntingar huga og sálar sem erfiðleikarnir hafa magnað. Það er ekki nóg að viðurkenna að sköpunin sé samhangandi heild og að mannkynið sé ábyrgt fyrir því að sundra henni ekki. Þetta er að vísu gott svo langt sem það nær. En það er þó ekki til marks um áhrif sem geti af sjálfum sér vakið meðvitund fólks og nýtt gildiskerfi. Aðeins með gertækri skilningsbreytingu, sem er bæði vísindaleg og trúarleg í fyllstu merkingu orðanna, er hægt að gera mannkyninu kleift að eignast það öryggi sem sagan knýr það til.
Allir menn verða fyrr eða síðar, til dæmis, að endurheimta þann hæfileika til hamingju, ánægju með siðferðilegan aga og þá skyldurækni sem til skamms tíma var talið að væru meginþættir þess að vera mennskur. Hvað eftir annað í sögu mannkynsins hafa kenningar stofnenda hinna miklu trúarbragða getað innrætt þessa skapgerðareiginleika milljónum manna. Þessir mannkostir eru nú á dögum enn nauðsynlegri, en hvernig þeir eiga að koma í ljós þarf að taka mið af framtíðaröld mannkynsins. Enn og aftur þurfa trúarbrögðin að frelsast af tregðu fortíðarinnar; hamingja er ekki sama og örlagatrú; siðaboðskapur á ekkert sameiginlegt með þeirri strangtrúarstefnu sem boðar sjálfsafneitun í nafni lífsins, en neitar í raun gildi þess; raunveruleg skyldurækni felur ekki í sér sjálfsréttlætingu heldur virðingu fyrir sjálfum sér.
Áhrifin af þrákelknislegri andstöðu við fullt jafnrétti kvenna og karla gerir enn brýnni samþættingu vísinda og trúar í efnahagslegu samfélagi manna. Hverjum óhlutdrægum könnuði sýnist jafnrétti kynjanna grundvallaratriði, hvenær sem menn hugleiða í alvöru vellíðan allra jarðarbúa í framtíðinni. Það felur í sér staðreynd um mannlegt eðli sem beðið hefur viðurkenningar langar aldir æsku og unglingsára mannkynsins. „Konur og karlar,“ er þungvæg staðhæfing Bahá’u’lláh, „hafa verið og munu ávallt vera jöfn fyrir augliti Guðs.“ Skyni gædd sál er einskis kyns, og hvaða þjóðfélagslegt óréttlæti sem kann að hafa verið fyrirskipað fyrr og er enn til staðar er með engu móti hægt að réttlæta það á þeim tímum, þegar mannkynið stendur á þröskuldi að nýju þroskastigi. Viðurkenning á því, að fullt jafnræði skuli vera milli kvenna og karla á öllum sviðum lífsins og á hverju stigi samfélagsins, er lífsnauðsynleg, ef árangur á að nást í að skilgreina og móta aðferðir í átt til alheimsþróunar.
Þetta er svo mikilvægt að framfarir á því sviði eru réttur mælikvarði á árangur hvers þess sem stendur undir nafninu þróunaráætlun. Ef við gefum okkur að efnahagslegar framfarir séu lífsnauðsynlegar í framgangi siðmenningarinnar er það meira en ljóst að mælikvarði á þróunarstigið verður hvernig konum er auðvelduð leiðin til allra sviða efnahagslegrar framsóknar. Þetta er enn þá mikilvægara en bara það að veita konum viðunandi tækifæri. Þetta krefst af okkur róttæks endurmats efnahagslegra viðfangsefna, þar sem gert er ráð fyrir að leiða til leiksins fulla aðild mannlegrar reynslu og innsæi í efni sem hingað til hefur að mestu leyti verið þagað um. Hinar venjubundnu gerðir ómanneskjulegs markaðar, þar sem menn vinna eins og þeim sýnist við það að velja úr kostum, sem þeim sjálfum hentar best, duga ekki til að sinna þörfum í þeirri veröld sem byggist á hugsjónum einingar og réttlætis. Samfélagið kemst ekki hjá því að krefjast af sjálfu sér sívaxandi þróunar og nýrrar efnahagsskipunar sem mótuð sé af innsæi sem á rætur sínar í samúðarskilningi á þeirri reynslu sem fengist hefur, frá því sjónarmiði að hver og einn sé öðrum tengdur og með því að viðurkenna að kjarni velsældarsamfélags sé kominn undir hverri og einni fjölskyldu og samvinnu þeirra í þjóðfélaginu. Slík gerbylting í hugsun – í innsta eðli mjög svo óeigingjörn og laus við sjálfselsku – mun reyna mjög bæði á andlega og vísindalega viðleitni mannkynsins, og árþúsunda gömul reynsla hefur gert konum fært að leggja fram ómetanlega krafta sína í þeirri viðleitni.
Þegar við hugleiðum ummyndun samfélags í svona stórum stíl, verðum við að spyrja tveggja spurninga: hvaða krafta getum við virkjað í þessu skyni og, sem er óhjákvæmilega tengt þessu, hver er svo öflugur að geta leyst slíkan kraft úr læðingi? Eins og í öllum þeim flækjum, sem verður að greiða úr til að flýta fyrir einingu mannkyns á allri jörðu þurfum við að skilgreina upp á nýtt þau orð sem henta til þess að svara spurningunum hér að ofan.
Í allri mannkynssögunni – og það þrátt fyrir guðfræðilegar og heimspekilegar fullyrðingar um hið gagnstæða – hefur vald lengst af verið túlkað sem forréttindi er einstaka menn eða flokkar hafa notið. Reyndar hefur það oft einfaldlega verið sett fram í orðum sem tákna að því sé beitt gegn öðrum. Lýsing á valdi hefur orðið eins og óaðskiljanlegur þáttur í allri þeirri sundrungu og öllum þeim átökum sem einkennt hafa mannkynssöguna nokkur þúsund ár aftur í tímann. Hefur þá engu skipt félagsleg, trúarleg eða pólitísk afstaða sem menn hafa aðhyllst á liðnum árum, hvar sem við berum niður í veröldinni. Meginreglan er að vald hefur verið tákn einstaklinga, flokksbrota, kynþátta, stétta og þjóða. Og það hefur verið tákn sem miklu fremur tengist körlum en konum. Megináhrif þess hafa verið þau, að veita þeim, sem valdsins hafa notið, aðstöðu til að hljóta, yfirstíga, drottna, veita mótspyrnu og sigra.
Afleiðingarnar á söguferli mannkynsins hafa bæði haft í för með sér herfilega afturför í mannlegri velsæld og einstakar framfarir á vissum menningarsviðum. Ef meta á ávinninginn, verður líka að viðurkenna bakslögin, svo skýran skilsmun í hegðun manna sem hvort tveggja hefur leitt af sér. Venjur og skoðanir sem tengjast valdbeitingu, sem fylgt hefur mannkyninu á öllu þess bernskuskeiði og unglingsárum, duga vart lengur. Nú á dögum, á þeim tímum þegar flest vandamál ná til hnattarins alls, er fastheldni við þá hugmynd að valdið merki ábata fyrir hin og önnur brot mannkynsfjölskyldunnar, gjörsamlega röng og hefur auk þess enga raunhæfa þýðingu í efnahagsþróun á jörðinni okkar. Þeir sem enn aðhyllast hana – og gætu fyrr á tímum hafa verið sannfærðir um hana – sjá nú að áform þeirra eru samtvinnuð óskiljanlegum vonbrigðum og fyrirstöðu. Í sinni venjubundnu samkeppnistúlkun er valdið gagnslaust til þess að mæta þörfum mannkynsins rétt eins og járnbrautartækni dugar ekki til að þess að lyfta gervihnöttum á braut umhverfis jörðina.
Líkingin er meir en lítið viðeigandi. Mannkynið hlýtur hvatningu, eftir því sem það þroskast meir, til þess að frelsa sig sjálft af viðteknum skilningi á valdbeitingu. Að svo geti orðið er ljóst af þeirri staðreynd, að mannkynið, þó með því hafi ríkt hinn gamli skilningur, hefur alltaf getað hugsað um og bundið vonir við vald af annarri gerð. Mannkynssagan sýnir fjölmörg dæmi þess, að alls kyns fólk hefur í aldanna rás, að vísu bara stundum og þá oft ófimlega, ausið af brunnum sköpunargleði sem innra með því hefur búið. Kannski er augljósasta dæmið kraftur sannleikans sjálfs, sem hrundið hefur af stað breytingum í tengslum við sumar hinar mestu framfarir í heimspeki, trúarbrögðum, listum og vísindum kynstofnsins. Skaphafnarstyrkur sýnir líka enn annað sem stóraukið hefur ábyrgðartilfinningu, og þannig orðið gott fordæmi, hvort heldur er í lífi einstakra manna eða heilla þjóðfélaga. Hið geysimikla afl sem leysist úr læðingi í einingu hefur verið nær algerlega vanmetið, en það er „svo öflugt,“ segir Bahá’u’lláh, „að það getur upplýst allan heiminn.“
Stofnunum samfélagsins mun takast að laða fram og beina veg fyrir hæfileika sem felast í vitund manna um víða veröld og það svo mjög að beiting valdsins mun framvegis stjórnast af meginreglum sem eru í samræmi við hag kynstofns sem er á hraðri þróunar- og þroskabraut. Slíkar meginreglur fela í sér skyldu þeirra, sem með völdin fara, til þess að ávinna sér traust, virðingu og svikalausan stuðning þeirra sem þeir eru að reyna að stjórna; til þess að ráðgast fyrir opnum tjöldum og eins fyllilega og unnt er við alla þá sem hagsmuna eiga að gæta, þegar ákvarðanir eru teknar; til að virða á óhlutdrægan hátt raunverulegar þarfir og vonir þess samfélags sem þeir þjóna – og til þess að nýta sér vísindalegar og siðferðilegar framfarir í viðleitninni að ausa réttilega af auðlindum samfélagsins, þar með taldar mannlegar orkulindir. Engin einstök meginregla góðrar stjórnar er jafnmikilvæg þeirri að hafa í fyrirrúmi uppbyggingu og viðhald einingar á meðal óbreyttra einstaklinga innan samfélagsins og meðal þeirra sem sitja á stjórnarstólunum. Áður hefur rækilega verið minnst á hve bráðnauðsynlegt er að koma sér saman um réttlætisleitina í öllum efnum.
Auðvitað verður ekki farið eftir slíkum meginreglum nema í samfélagi sem er algjörlega lýðræðislegt, bæði í anda og aðferðum. Með þessu er samt sem áður ekki fallist á þá hlutdrægnishugsun sem hefur með ofstopa lagt undir sig nafnið lýðræði og er nú, þrátt fyrir geysidýrmætt framlag til mannkynssögunnar á öldum áður, meir og meir sokkið í fenjamýri tortryggni, sinnuleysis og spillingar. Þegar velja skal þá, sem eiga að taka ákvarðanir til hagsbóta fyrir fjöldann, þarfnast þjóðfélagið ekki og getur ekki notast við hið pólitíska leikhús við tilnefningu, framboð, kosningar og hrossakaup. Öllum mönnum er gefinn hæfileiki, þegar þeir hafa öðlast betri menntun og sannfæringu um að sameiginlegir þroskakostir þeirra eigi að fara eftir því sem þeir sjálfir stinga upp á, til þess að koma á í samfélagi sínu kosningafyrirkomulagi sem mun smám saman bæta val þeirra sem eiga að taka ákvarðanirnar.
Þegar skriður kemst á einingarþróun mannkynsins, munu þeir, sem þannig eru valdir, í vaxandi mæli sjá öll sín viðfangsefni í ljósi þjónustu við mannkynið. Og það ekki aðeins þeir sem stjórna þjóðum, heldur og þeir sem yfir minna eru settir. Kjörnir stjórnendur mannlegra mála ættu, samkvæmt orðum Bahá’u’lláh, að telja sjálfa sig ábyrga fyrir velferð alls mannkynsins.
Það verkefni að móta þróunarstefnu fyrir allan heiminn, sem flýti fyrir komu nýrrar aldar, felur ekkert minna í sér en að endurskapa frá grunni allar stofnanir samfélagsins. Forgöngumennirnir, sem þurfa að takast á við þetta verkefni, eru allir íbúar jarðarinnar: öll alþýða manna, menn í stjórnarstörfum á öllum stigum, fólk sem starfar í stofnunum sem helgaðar eru alþjóðasamvinnu, vísindamenn og félagsfrömuðir, allir þeir sem gefnar hafa verið listagáfur og þeir sem hafa fengið störf við fjölmiðla, svo og stjórnendur fyrirtækja. Sú ábyrgðartilfinning, sem nauðsynleg er, verður að byggjast á skilyrðislausri viðurkenningu á nauðsyn einingar mannkynsins og ósvikinni réttlætisleit, þegar þjóðfélagsskipunin er staðfest, og fullri einbeitni í að neyta ýtrustu kosta sem kerfisbundin samtvinnun vísindalegs og trúarlegs anda mannanna getur áorkað til þess að tvíefla mannkynið allt. Þetta mikla framtak þarfnast róttæks endurmats á langflestum skoðunum og stefnumiðum sem nú eru ríkjandi í félagsmálum og efnahagsmálum. Og þetta þarf líka að vera fastbundið fullvissunni fyrir því, að stjórn á mannlegum málum verði að þjóna raunverulegum þörfum mannkynsins, hversu langan tíma sem þróunin kann að taka og hversu margar skyssurnar eru sem leiðrétta þarf.
Aðeins þegar bernska sameinaðs mannkyns er á enda og öld fullorðinsára þess runnin upp eru horfurnar meiri og betri heldur en rétt svo, að þetta sé ný staðleysutálsýn. Að ímynda sér að þeim mikilleika, sem við höfum hér séð í hillingum, verði náð meðal vonleysingja og þeirra sem ævinlega eru hver upp á móti öðrum, hvort heldur eru einstaklingar eða þjóðir, það stríðir gegn allri okkar visku. Aðeins, eins Bahá’u’lláh staðhæfir, ef leið félagslegrar framþróunar hefur legið að tímamótum, þegar öll fyrirbæri tilverunnar eru skyndilega knúin áleiðis inn í nýtt þróunarstig, er slíkur möguleiki hugsanlegur. Djúp sannfæring um það, að einmitt svo mikil umsköpun mannlegrar vitundar sé á næstu grösum, hefur innblásið það sjónarmið sem sett er fram í þessari staðhæfingu. Öllum þeim, sem skynja í þessu kunnuglega uppörvun innra með sér, færa orð Bahá’u’lláh fullvissuna um að Guð hafi, á þessum óviðjafnanlegu tímum, gætt mannkynið andlegum úrræðum sem fyllilega svara ákallinu:
Ó þér sem byggið himnana og jörðina! Það sem augun aldrei litu fyrr hefur birst.
Þetta er dagurinn þegar ágætustu gjöfum Guðs hefur rignt yfir mennina, dagurinn þegar máttugasta miskunn Hans veitist öllu sem skapað er.
Það öngþveiti, sem nú stórskaðar öll málefni manna, á sér ekki fordæmi, og margvíslegar afleiðingar þess gætu valdið gríðarlegri eyðileggingu. Hættur, sem eiga engan sinn líka í allri mannkynssögunni, umlykja tvístrað mannkyn. Versta villan, sem stjórnendur heimsins gætu þó gert á þessum tímamótum, væri sú, að láta vandann ala af sér efa um farsæl málalok. Gamall heimur er kominn að leiðarlokum, og við verðum vitni að fæðingarhríðum nýrrar veraldar. Venjur, skoðanir og stofnanir sem skapast hafa á mörgum liðnum öldum, verða nú að gangast undir prófraun sem er jafnnauðsynleg mannkyninu sem hún er óumflýjanleg. Allar þjóðir heims eru nú krafðar um mikið trúnaðartraust og úrræði til þess að leysa úr læðingi þá gífurlegu orku sem skapari allra hluta hefur látið hverjum og einum í té á þessu andlega vori mannkynsins. „Verið sameinuð í ráðum,“ er ákall Bahá’u’lláh,
verið ein í hugsun. Gerið hvern morgun betri en kvöldið áður og hvern dag auðugri en gærdaginn. Verðleikar mannsins felast í þjónustu og dyggð en ekki í innantómu prjáli auðs og ríkidæmis. Gætið þess, að orð yðar séu hrein af ónytjuhjali og veraldlegri ílöngun, og verk yðar séu laus við slægð og tortryggni. Sólundið ekki auði dýrmæts lífs yðar í eftirsókn illra og spilltra ástríðna, og sóið ekki kröftum yðar í að efla eigin hagsmuni. Verið örlát, þegar þið eigið nóg, og þolinmóð þegar yður er skortur búinn. Á eftir örðugleikum kemur velgengni, og gleði fer í slóð sorgar. Gætið yðar við iðjuleysi og ómennsku, og haldið yður við það sem gagnast mannkyninu, hvort sem þér eruð eldri eða yngri, hærri eða lægri. Varist umfram allt að sá illgresi sundrungar meðal manna eða stinga þyrnum efans í hrein og geislandi hjörtu.