Inngangur
Á Riḍván 2002 rituðum við opið bréf til trúarleiðtoga heimsins. Við gerðum það með þeirri vitund að ef ekki tekst að stemma stigu við sjúklegri sértrúarhyggju blasa válegar afleiðingar við flestum heimshlutum. Í bréfinu er farið viðurkenningarorðum um samtrúarhreyfinguna sem bahá’íar hafa reynt að styðja allt frá því sú hreyfing kom fram. Engu að síður töldum við nauðsynlegt að lýsa því yfir hreinskilnislega, að ef mæta á kreppu trúarinnar af jafn mikilli alvöru og öðrum fordómum sem þjaka mannkynið, verða skipulögð trúarbrögð að sýna kjark og hefja sig yfir staðnaðar hugmyndir löngu liðinna tíma.
Fyrst og fremst lýstum við þeirri fullvissu okkar að tími sé til þess kominn að leiðtogar trúarbragðanna horfist ærlega og undanbragðalaust í augu við þann sannleika að Guð er einn og að trúarbrögðin, ofar öllum mannlegum túlkunum og menningu, eru líka ein. Það var skilningur á þessum sannleika sem var kveikjan að samtrúarhreyfingunni og hefur vísað henni veginn í gegnum erfiðleika síðustu hundrað ára. Þessi grundvallarsannindi ógna ekki gildi hinna opinberuðu trúarbragða en geta þess í stað tryggt að þau gegni áfram mikilvægu hlutverki. Til þess að viðurkenning á þessum veruleika hafi einhver áhrif verður hún að móta trúarlega umræðu og við töldum að bréf okkar ætti að gera skýra grein fyrir því.
Viðbrögðin hafa verið uppörvandi. Bahá’í stofnanir um allan heim gengu úr skugga um að áhrifamenn innan allra helstu trúarbragða fengu þúsundir eintaka. Það kom ekki á óvart að nokkrir höfnuðu þessum boðskap umyrðalaust en bahá’íar segja að þeim hafi yfirleitt verið vel tekið. Sérlega áhrifamikil var einlægni margra viðtakenda sem viðurkenndu opinskátt að trúarstofnunum hefði ekki tekist að hjálpa mannkyninu til að takast á við andlegar og siðferðilegar áskoranir. Umræður hafa snúist um þörfina á grundvallarbreytingum á viðhorfum trúaðra hver til annars. Í mörgum tilvikum afrituðu viðtakendur bréfið og dreifðu því til annarra forvígismanna innan trúar sinnar. Við vonum að frumkvæði okkar verði hvati sem opnar leið að nýjum skilningi á tilgangi trúarbragðanna.
Hversu hröð eða hæg sem þessi breyting verður þurfa bahá’íar að finna til ábyrgðar í þessum efnum. Bahá’u’lláh hefur fyrst og fremst falið þeim sem viðurkenna Hann það verkefni að tryggja að boðskapur Hans nái til allra manna. Þetta er auðvitað það starf sem bahá’í samfélagið hefur sinnt í gegnum sögu trúarinnar en aukið hrun þjóðfélagskipunar gerir örvæntingarfulla kröfu til þess að andi trúarinnar losni úr þeim viðjum sem fram til þessa hafa meinað honum að flytja heiminum græðinguna sem hann getur veitt. Ef bahá’íar eiga að bregðast við þessari þörf verða þeir að öðlast djúpan skilning á andlegu þroskaferli mannkynsins. Rit Bahá’u’lláh veita innsýn sem geta fært umræður um trúarleg málefni á nýtt stig, ofar hverfulum og síbreytilegum sértrúarhugleiðingum. Ritin eru andleg auðlind og ábyrgðin að nýta sér þau verður ekki aðskilin gjöf trúarinnar. „Trúarlegt ofstæki og hatur,“ segir Bahá’u’lláh, „eru heimseyðandi eldur og enginn fær slökkt ofsa hans. Aðeins hönd guðlegs afls getur frelsað mannkynið frá þessari hörmulegu þjáningu....“ Bahá’íar telja sig engan veginn standa eina og óstudda í viðleitni sinni til að bregðast við en þeim mun verða það æ ljósara að málstaðurinn sem þeir þjóna er í fararbroddi vakningar sem á sér stað meðal fólks hvarvetna án tillits til trúarlegs bakgrunns þess og reyndar meðal margra sem ekki aðhyllast neina trú.
Hugleiðingar um þetta mikilvæga málefni hafa orðið til þess að við gáfum heimild fyrir ritun þessarar bókar. „Ein sameiginleg trú“ sem rituð er undir okkar umsjá skoðar kreppu samtímans í ljósi viðeigandi greina í helgiritum Bahá’u’lláh og annarra trúarbragða. Við hvetjum vinina til þess að kynna sér hana og íhuga.
Allsherjarhús réttvísinnar
Naw-rúz 2005
Full ástæða er til að ætla að sá tími sögunnar sem nú fer í hönd verði mun opnari fyrir tilraunum til að útbreiða boðskap Bahá’u’lláh en síðasta öld. Allt bendir til þess að gjörbreyting sé að verða á vitundarlífi mannsins.
Snemma á tuttugustu öld hafði viðhorf efnishyggjunnar rutt sér svo til rúms að hún var orðin að ríkjandi heimstrúarbrögðum hvað varðaði stefnu þjóðfélagsins. Í þessu ferli var siðmenntun mannlegs eðlis hrundið út af þeirri braut sem það hafði fylgt í árþúsundir. Fyrir marga á Vesturlöndum virtist guðlegt vald sem mikilvægasta leiðsögnin í lífi mannsins – hver sem túlkunin á eðli þess var – vera með öllu horfin. Einstaklingurinn hafði fengið frelsi til að rækta öll þau tengsl sem hann taldi geta tengt líf sitt heimi ofar efnislegri tilvist sinni. Samfélagið í heild hélt þó áfram með vaxandi sjálfsöryggi að varpa fyrir róða hugmyndum um alheim sem í besta falli var talinn skröksaga og í versta falli ópíum fyrir fólkið – og í báðum tilfellum þrándur í götu framfara. Mannkynið hafði tekið örlög sín í sínar eigin hendur. Fólki var talið trú um að öll grundvallarmálefni sem snertu mannlega stjórnarhætti og þróun hefðu verið leyst á röklegan hátt með tilraunum og umræðu.
Það sem styrkti þetta viðhorf var sú trú að gildi, hugsjónir og lærdómsgreinar sem ræktaðar höfðu verið um aldir, hefðu fest sig í sessi og væru orðnar samgrónar mannlegu eðli. Þær þyrfti aðeins að slípa og betrumbæta með aukinni menntun og styrkja með löggjöf. Siðferðileg arfleifð fortíðar var óhagganlegur arfur mannkynsins og útheimti ekki frekari trúarlega íhlutun. Vissulega myndu agalausir einstaklingar, hópar og jafnvel þjóðir halda áfram að ógna stöðugleika þjóðfélagsins og krefjast leiðréttingar mála sinna. Á hinn bóginn væri að rísa upp allsherjarsiðmenning sem allir kraftar sögunnar hefðu beinst að, innblásin af veraldlegum skilningi á raunveruleikanum. Lífshamingja væri eðlileg afleiðing af betri heilsu, betra fæði, betri menntun og bættum lífskjörum. Uppfylling þessara markmiða, sem eru óumdeilanlega æskileg, virtist nú vera í sjónmáli þjóðfélags sem keppti að þeim með öllum tiltækum ráðum.
Á svæðum þar sem mikill meirihluti mannkyns býr fóru yfirborðskenndar yfirlýsingar um „dauða Guðs“ að miklu leyti fram hjá fólki. Reynsla þjóðanna í Afríku, Asíu, Rómönsku Ameríku og á Kyrrahafseyjum hafði staðfest þá skoðun þeirra að andleg öfl hefðu ekki aðeins mikil áhrif á mannseðlið heldur væri maðurinn sjálfur innst inni andleg vera. Trúin hélt því áfram að hafa endanlegt úrskurðarvald í lífinu. Hugmyndafræðilegar breytingar á Vesturlöndum réðust ekki beinlínis gegn þessari fullvissu en ýttu henni til hliðar í samskiptum þjóða og einstaklinga. Þegar kreddufull efnishyggja hafði sölsað undir sig allar þýðingarmiklar hnattrænar miðstöðvar valds og upplýsinga tryggði hún að engar raddir gætu heyrst sem ógnuðu áformum hennar um arðrán heimsbyggðarinnar. Við það menningarlega tjón sem tvær aldir nýlendustjórnunar höfðu valdið bættist sársaukafullur klofningur á nær öllum sviðum milli innri og ytri reynslu þeirra sem urðu fyrir þessu tjóni. Þetta fólk gat ekki haft nein raunveruleg áhrif á sína eigin framtíð né staðið vörð um siðferðilega velferð barna sinna. Afleiðingin var kreppa sem var ólík þeirri sem steðjaði að Evrópu og Ameríku, en á ýmsan hátt hörmulegri. Þótt trúin gegndi enn þá mikilvægu hlutverki í meðvitundinni virtist hún ekki geta breytt atburðarásinni.
Þegar leið að lokum tuttugustu aldar virtist því ekkert ólíklegra en skyndileg framsókn trúarbragða sem hefðu mikil áhrif um allan heim. En það var einmitt þetta sem gerðist í formi almenns kvíða og óánægju meðal alls þorra fólks sem gerði sér aðeins óljóst grein fyrir andlega tómleikanum sem orsakaði þessar tilfinningar. Gamlir og að því er virðist ósættanlegir flokkadrættir hafa komið upp á yfirborðið jafn hatrammir og áður. Áhrifamiklir fjölmiðlar fjalla af fullri alvöru en á handahófskenndan hátt um helgiorð, kraftaverkafyrirbæri og guðfræðikreddur sem til skamms tíma var vísað á bug sem gömlum bábiljum. Í mörgum löndum hafa trúarlegar yfirlýsingar verulega þýðingu fyrir fólk sem sækist eftir pólitískum frama. Heimur sem taldi að öld alþjóðlegs friðar hefði runnið upp með falli Berlínarmúrsins er nú varaður við styrjöld milli menningarheima með ósættanlega trúarlega andúð hver á öðrum. Bókaverslanir, tímaritshillur, vefsetur og bókasöfn slást um að fullnægja óseðjandi hungri almennings eftir upplýsingum um trúarleg og andleg málefni. Ef til vill er það sterkasta einkennið á þessari breytingu að menn viðurkenna, að vísu hikandi, að trúin eigi sér engan trúverðugan staðgengil sem geti skapað sjálfsaga og endurnýjað hollustu við siðræna hegðun.
Í kjölfar þeirrar athygli sem menn eru byrjaðir að veita skipulögðum trúarbrögðum eykst hin andlega leit. Hún lýsir sér yfirleitt sem leit að persónulegri sjálfsmynd ofar og handan hinni líkamlegu. Þessi þróun hvetur til margs konar eftirsóknar, bæði jákvæðrar og neikvæðrar. Annars vegar virðist leitin að réttlæti og stuðningur við málstað alþjóðlegs friðar kveikja nýja skynjun á hlutverki einstaklingsins í samfélaginu. Einnig hvetja hreyfingar eins og umhverfisstefna og femínismi til endurskoðunar á sjálfsskilningi og tilgangi lífsins, þótt þær leggi áherslu á að afla stuðnings við breytingar á þjóðfélagslegri ákvarðanatöku. Endurskoðun sem á sér stað í öllum stærri trúarsamfélögum flýtir fyrir flótta átrúenda frá hefðbundnum greinum trúarinnar til sértrúarflokka sem leggja megináherslu á andlega leit og persónulega reynslu. Andstæðurnar eru stefnur fólks sem telur sig sjá geimför eða verur frá öðrum hnöttum, aðhyllist ýmsar aðferðir til „sjálfsuppgötvunar“, flýr út í eyðimörkina, trúir á karismatíska upphafningu eða ýmsar greinar nýaldar og sú vitundarvíkkun sem eignuð er fíkniefnum og ofskynjunarlyfjum og eiga sér stærri og fjölbreyttari hópa fylgjenda en spíritisminn eða guðspekin á sams konar umbreytingartíma fyrir einni öld. Fyrir bahá’ía minnir fjölgun sértrúarflokka og iðkana sem kunna að vekja andúð margra fyrst og fremst á söguna gömlu um Majnún, sem leitaði í rykinu að sinni ástkæru Laylí þótt hann vissi að hún var hreinn andi. „Ég leita hennar alls staðar, að ég megi einhvers staðar finna hana.“
Ljóst er að því fer fjarri að nýr áhugi á trúarbrögðum hafi náð hámarki, hvorki í hreinni trúarlegri birtingarmynd eða síður skilgreinanlegum andlegum myndum. Þvert á móti. Fyrirbærið er afurð sögulegra afla sem verða stöðugt kröftugri og sem sameiginlega munu verða til þess að grafa undan fullvissu tuttugustu aldar um að þessi efnislega tilvera sé endanlegur veruleiki mannsins.
Augljósasta ástæðan fyrir þessu endurmati er gjaldþrot efnishyggjunnar sjálfrar. Í meira en 100 ár hefur samasemmerki verið sett milli framfara og efnahagslegrar þróunar hvað varðar þjóðfélagsumbætur. Sá skoðanaágreiningur sem var til staðar ógnaði ekki þessari heimsskoðun heldur aðeins hugmyndunum um hvernig ná mætti markmiðum hennar. Í öfgafyllstu mynd sinni reyndi járnhörð kredda „vísindalegrar efnishyggju“ að túlka allar hliðar sögunnar og mannlegrar hegðunar á sínum eigin þröngu forsendum. Mannúðarsjónarmið kunna að hafa vakað fyrir nokkrum fyrstu talsmönnum hennar en árangurinn birtist í alræðisstjórnum sem voru tilbúnar til að nota allar tiltækar þvinganir gegn ólánsömum þegnum sínum. Markmiðið sem átti að réttlæta slíka misþyrmingu var ný þjóðfélagsgerð sem átti að útrýma skorti og tryggja fyllingu mannsandans. Loks eftir grimmd og glapræði átta áratuga hvarf þessi stefna úr sögunni sem trúverðugur leiðarvísir að framtíð heimsins.
Önnur kerfi sem stunduðu þjóðfélagslega tilraunastarfsemi neituðu að beita ómannúðlegum aðferðum en sóttu samt sem áður siðferðilega og vitsmunalega réttlætingu í sama takmarkaða skilninginn á veruleikanum. Sú skoðun festi rætur að þar sem menn létu í meginatriðum stjórnast af eigingirni í málum sem snertu efnahagslega velferð þeirra væri hægt að byggja upp réttlát og farsæl samfélög með áætlunum sem kenndar voru við nútímavæðingu. Lokaáratugir tuttugustu aldar báru hins vegar vitni um hið gagnstæða; hrun fjölskyldulífs, vaxandi glæpafaraldur, vanburða menntakerfi auk þess langa lista yfir aðrar þjóðfélagslegar meinsemdir sem minnir á alvarlega viðvörun Bahá’u’lláh um hvað vofir yfir mannlegu samfélagi: „Slíkt verður hlutskipti þess að hvorki væri rétt né sæmandi að ljóstra því upp nú.“
Það sem heimurinn hefur lært að kalla þjóðfélagslega og efnahagslega þróun leiðir berlega í ljós að ekki einu sinni háleitustu hugsjónir geta leiðrétt grunnmeinsemdir efnishyggjunnar. „Þróunin“ sem kom í kjölfar öngþveitis síðari heimstyrjaldarinnar er langstærsta og metnaðarfyllsta sameiginlega verkefni mannkynsins fyrr og síðar. Mannúðleg markmið fóru hér saman við gríðarmikla efnislega og tæknilega fjárfestingu. Þegar við hálfri öld síðar viðurkennum þau verðmæti sem þetta hefur skapað verðum við að játa að samkvæmt sínum eigin mælikvörðum og forsendum hefur verkefnið mistekist og valdið vonbrigðum. Því fer fjarri að það hafi minnkað bilið milli velferðar lítils hluta mannkynsins sem nýtur gæða nútímans og hins mikla meirihluta sem býr við vonlausan skort. Sameiginlega verkefnið sem svo miklar vonir voru bundnar við hefur breikkað þetta bil og gert það að hyldýpisgjá.
Neyslumenningin er í dag arftaki þess „fagnaðarerindis“ sem efnishyggjan hefur boðað um mannlegrar framfarir og minnkast sín ekki fyrir óstöðugleika þeirra markmiða sem gæða hana lífi. Litlum minnihluta fólks sem hefur til þess fjárráð býður hún tafarlaus gæði án eftirsjár. Framrás þessarar nýju trúarkenningar sækir styrk í hrun hefðbundinna siðferðisgilda. Hún er í meginatriðum ekkert annað en sigur dýrslegra hvata, blinduð af græðgi og laus úr fjötrum yfirskilvitlegra boða og banna. Augljósasta fórnarlamb hennar er tungumálið. Tilhneigingar sem eitt sinn voru taldar siðlausar og kölluðu yfir sig almenna fordæmingu eru orðnir að nauðsyn í félagslegum framförum. Eigingirni er orðin meiri háttar kostur í viðskiptum; fals og lygar eru endurskilgreindar sem almennar upplýsingar; ýmiss konar öfughneigð gerir blygðunarlaust tilkall til almennra borgararéttinda. Fyrirbrigði eins og græðgi, fýsn, ósvífni, hroki og jafnvel ofbeldi hefur ekki aðeins öðlast almenna viðurkenningu heldur einnig fengið félagslegt og efnahagslegt gildi. Háðungin er sú að um leið og orðin missa merkingu sína gerist það sama með efnislegu þægindin og eignirnar sem sannleikanum var svo auðveldlega fórnað fyrir.
Ljóst er að villa efnishyggjunnar felst ekki í lofsverðri viðleitni til að bæta lífskjör heldur í þeirri þröngsýni og óréttmæta sjálfsöryggi sem hefur skilgreint hlutverk hennar. Mikilvægi efnislegrar velferðar og vísindalegra og tæknilegra framfara sem eru nauðsynlegar fyrir slíka velferð er stef sem gengur í gegnum rit bahá’í trúarinnar. Augljóst var þó frá byrjun að geðþóttatilraunir til að aðskilja efnislega velferð og andlegan og siðferðilegan þroska mannkynsins hafa endað með því að efnismenningin missti tiltrú þeirra sem hún sagðist þjóna. Bahá’u’lláh segir: „Sjáið hvernig ný ógæfa dynur yfir heiminn á degi hverjum... Sjúkleiki hans nálgast stig fullkomins vonleysis því að hinum sanna lækni er meinað að veita lækningu meðan vanhæfum læknum er tekið fegins hendi og þeim gefið óskorað frelsi til athafna.“
Auk vonbrigðanna sem óuppfyllt fyrirheit efnishyggjunnar hafa valdið hefur hnattvæðing grafið undan þeim ranghugmyndum um raunveruleikann sem mannkynið flutti með sér inn í tuttugustu og fyrstu öldina. Í einfaldasta formi sínu tekur hnattvæðing á sig mynd framfara í samskiptatækni sem opnar leiðina fyrir umfangsmikla gagnvirkni milli ólíkra þjóða heims. Auk þess sem almennur aðgangur að upplýsingum auðveldar samskipti breytir hann uppsöfnuðum lærdóm aldanna, sem til skamms tíma var eign forréttindastétta, í arfleifð allrar fjölskyldu mannsins án tillits til þjóðernis, kynþátta eða menningar. Með hliðsjón af öllum þeim mikla ójöfnuði sem hnattvæðingin framlengir og jafnvel eykur getur enginn upplýstur áhorfandi neitað að þessar breytingar hafa hvatt til íhugunar á raunveruleikanum. Íhugun vekur spurningar um allt viðtekið vald og myndugleika trúar og siðferðis og ekki síður ríkisvalds, akademíu, kaupsýslu, fjölmiðla og í auknum mæli vísindalegra skoðana.
Burtséð frá tæknilegum þáttum hefur sameining jarðarbúa önnur og beinni áhrif á hugsun mannsins. Ógjörningur væri til dæmis að horfa fram hjá þeim breytingum sem alþjóðlegur ferðamannastraumur hefur haft á hnattræna meðvitund. Hinir gríðarlegu þjóðflutningar sem heimurinn hefur orðið vitni að á þeim hálft annað hundrað árum sem liðin eru frá því að Bábinn kunngerði köllun sína hafa þó haft enn þá meiri áhrif. Milljónir flóttamanna sem flýja undan ofsóknum hafa þó sérstaklega streymt yfir Evrópu, Afríku og Asíu. Mitt í þjáningunum sem eru slíku öngþveiti samfara má sjá hvernig menningarheimar og kynþættir renna saman sem borgarar í einu ættlandi jarðar. Afleiðingin er sú að fólk af öllum uppruna hefur kynnst menningu og siðum annarra þjóða sem forfeður þeirra vissu lítið sem ekkert um og það hefur leitt af sér óhjákvæmilega leit að merkingu.
Útilokað er að gera sér í hugarlund hver saga síðustu einnar og hálfrar aldar hefði orðið hefðu einhverjir af fremstu leiðtogum heims sem Bahá’u’lláh ávarpaði gefið sér tíma til að íhuga hugmyndir um veruleika sem studdar voru siðferðilegri reisn höfundar þeirra, reisn af því tagi sem þeir sögðust bera mesta virðingu fyrir. Það fer ekki fram hjá bahá’íum að þrátt fyrir þetta eru breytingarnar sem Bahá’u’lláh boðaði ómótstæðilegar. Í krafti sameiginlegra uppgötvana og erfiðis standa þjóðir af ýmsum uppruna augliti til auglitis við sameiginlega mennsku undir því örþunna lagi sem menn töldu að aðgreindi þá hvern frá öðrum. Sá skilningur að íbúar jarðar séu „lauf á einu tré“ er hægt og sígandi að verða mælikvarðinn sem lagður er á sameiginlega viðleitni mannkynsins, hvort sem honum er þrákelknislega hafnað í sumum þjóðfélögum eða fagnað í öðrum sem lausn frá merkingarlausum og kæfandi takmörkunum.
Glötuð trú á fullvissu efnishyggjunnar og stöðug hnattvæðing mannlegrar reynslu eykur löngun mannsins til að skilja tilgang tilverunnar. Grundvallargildum er ögrað; hreppasjónarmiðum er varpað fyrir róða; kröfur sem eitt sinn voru óhugsandi eru viðurkenndar. Það eru þessi allsherjarumbrot, segir Bahá’u’lláh, sem rit liðinna trúarbragða nefndu „upprisudaginn“: „Kallið hefur hljómað og mennirnir risið upp úr gröfum sínum og skimað í kringum sig.“ Bak við alla upplausnina og þjáninguna er í meginatriðum andlegt ferli: „Andvari hins almiskunnsama hefur borist yfir og sálirnar vaknað til lífsins í gröfum líkama sinna.“
Í gegnum söguna hafa stóru trúarbrögðin verið frumkvöðlar andlegrar þróunar. Fyrir allan þorra jarðarbúa hafa helgirit sérhvers trúarkerfis, með orðum Bahá’u’lláh, verið „Borg Guðs“, þekkingaruppspretta sem fullkomlega umlykur meðvitundina, svo knýjandi að hún gæðir hinn einlæga „nýrri sjón, nýrri heyrn, nýju hjarta og nýjum huga.“ Miklar bókmenntir sem allir trúarlegir menningarheimar hafa lagt af mörkum segja frá reynslunni af hinu yfirskilvitlega sem kynslóðir leitenda hafa skilið eftir sig. Í gegnum árþúsundir hafa líf þeirra sem svöruðu kalli hins himneska alið af sér hrífandi afrek í tónlist, arkitektúr og öðrum listgreinum. Sálin miðlaði þessari reynslu milljónum trúsystkina sinna. Ekkert annað afl í tilverunni hefur orðið mönnunum hvatning til viðlíka hetjuskapar, sjálfsfórna og sjálfsaga. Á félagslega sviðinu hafa siðferðilegu meginreglurnar sem af þeim spruttu hvað eftir annað orðið að allsherjarlöggjöf sem stjórnar mannlegum tengslum og lyftir þeim upp á nýtt svið. Í sögulegu samhengi koma stóru trúarbrögðin fram sem helsti aflvaki siðmenningar. Sá sem andmælir þessu virðir að vettugi vitnisburð sögunnar.
Hvervegna er þessi ríka arfleifð ekki helsti vettvangurinn fyrir andlega vakningu nútímans? Heiðarlegar tilraunir eru gerðar til að endurorða kenningar sem voru uppspretta trúarbragðanna í þeirri von að þær verði aftur aðlaðandi en leitin að merkingu er yfirleitt ómarkviss, einstaklingsbundin og sundurlaus. Ritningarnar hafa ekki breyst; siðferðilegar meginreglur þeirra hafa ekki tapað gildi sínu. Hver sá sem af einlægni beinir spurningu til himins getur, ef hann er staðfastur, fundið svar í Davíðssálmum biblíunnar eða Upanisjad-ritum hindúismans. Hver sá sem einhverja reynslu hefur af þeim veruleika sem er ofar hinum efnislega verður í hjarta sínu snortinn af hrífandi orðum Jesú og Búddha um hann. Heimsslitasýnir Kóransins halda áfram að veita lesendum hans mikla fullvissu um að réttlæti á jörðunni sé kjarni hins guðlega áforms. Líf hetjanna og dýrlinganna virðast ekki heldur merkingarlausari en þau voru fyrir mörgum öldum. Mörgu trúuðu fólki þykir það sárast í þessari siðmenningarkreppu að sannleiksleitin hefur ekki beinst inn á þekktar brautir trúarinnar af neinni fullvissu.
Vandamálið er auðvitað tvíþætt. Hin skyni gædda sál lifir ekki aðeins í einkarými, hún er líka virkur þátttakandi í þjóðskipulagi. Þótt viðtekin sannindi hinna miklu trúarbragða séu í fullu gildi skilur himinn og haf á milli daglegrar reynslu einstaklinga á tuttugustu og fyrstu öldinni og reynslu þeirra sem voru uppi á þeim tíma þegar þessi leiðsögn var opinberuð. Lýðræðisleg ákvarðanataka hefur í grundvallaratriðum breytt tengslum einstaklingsins við yfirvaldið. Með vaxandi sjálfstrausti og árangri krefjast konur fulls jafnréttis. Byltingar í vísindum og tækni breyta ekki aðeins starfsemi samfélagsins heldur einnig hugmyndum um það og tilveruna sjálfa. Allsherjarmenntun og bylting á nýjum sviðum sköpunar veita innsæi sem örvar félagslegan hreyfanleika og samþættingu og skapar tækifæri sem lögin hvetja borgarana til að notfæra sér. Stoðfrumurannsóknir, kjarnorka, kynferðisleg auðkenni, umhverfisstreita og nýting auðsins vekja þjóðfélagslegar spurningar sem eiga sér engin fordæmi á öldum áður. Þessar breytingar ásamt aragrúa annarra sem hafa áhrif á allar hliðar mannlífsins hafa opnað nýjan heim daglegra valkosta, hvort sem það er til góðs eða ills. Það er hér sem andlegt eðli samtímakreppunnar kemur skýrast fram því að flestar ákvarðanir sem kallað er eftir eru ekki aðeins praktískar heldur einnig siðferðilegar. Glötuð trú á hefðbundin trúarbrögð er að miklu leyti afleiðingin af því að mönnum hefur mistekist að finna í þeim leiðsögn til að lifa árangursríku og fullvissuðu lífi með nútímanum.
Annað sem kemur í veg fyrir að hefðbundin trúarbrögð geti svarað andlegri þrá mannkynsins eru fyrrnefnd áhrif hnattvæðingar. Um allan heim hefur fólk sem hefur alist upp innan ákveðins trúarramma skyndilega komist í náið samband við aðra sem játa trú og siði sem í fljótu bragði virðast ósamrýmanlegir þeirra eigin. Þetta getur oft kallað fram varnarviðbrögð, viðvarandi andúð og bein átök. Í mörgum tilvikum stuðla áhrifin þó frekar að endurmati viðtekinna kenninga og hvetja menn til að viðurkenna sameiginleg gildi. Stuðningurinn sem ýmiss konar samtrúarstarfsemi nýtur er að miklu leyti að þakka viðbrögðum af þessu tagi meðal almennings. Slík nálgun vekur óhjákvæmilega spurningar og efasemdir um trúarkenningar sem koma í veg fyrir samneyti og skilning. Ef fólk trúir einhverju sem er í grundvallaratriðum frábrugðið minni eigin trú en lifir samt sem áður aðdáunarverðu siðlegu lífi, hvað gerir þá mína trú meiri og betri en þeirra? Og ef öll hin miklu trúarbrögð eiga sameiginleg grundvallargildi er ekki hætta á því að sértrúarhugmyndir skapi óæskilegt bil milli einstaklingsins og nágranna hans?
Því er það að fáir sem þekkja eitthvað til þessara mála af eigin raun ala með sér hugmyndir um að eitthvert hinna grunnmúruðu trúarkerfa fortíðar geti tekið að sér það hlutverk að leiðbeina mannkyni varðandi málefni nútímans jafnvel þótt svo ólíklega vildi til að ýmsir sértrúarflokkar tækju höndum saman í þeim tilgangi. Sérhvert trúarkerfi sem heimurinn lítur á sem sjálfstæð trúarbrögð starfar í þeim farvegi sem helgirit þess og saga hefur skapað. Það getur ekki endurnýjað sig með skírskotun til ótvíræðra orða höfundar síns og þess vegna ekki heldur svarað þeim fjölda spurninga sem félagsleg og vitsmunaleg þróun vekur. Þótt þetta sé mörgum áhyggjuefni er þetta óaðskiljanlegur þáttur í þróuninni. Tilraunir til afturhvarfs af einhverju tagi geta aðeins leitt til enn meiri vonbrigða með trúna sjálfa og magnað átök sértrúarflokka.
Hér er um sjálfskaparvíti að ræða. Heimsskipulagið, þar sem bahá’íar starfa og reyna að flytja boðskap Bahá’u’lláh, byggist á djúpstæðum ranghugmyndum um mannlegt eðli og félagslega þróun, hugmyndum sem eru alvarlegur þrándur í götu allrar velviljaðrar og vitrænnar umbótaviðleitni. Þetta á sérstaklega við um þann rugling sem ríkir manna á meðal um nær alla þætti trúarbragða. Bahá’íar þurfa að öðlast djúpan skilning á þessum málefnum. Hér reynir á huga og ímyndunarafl eins og sést af því að hvatningin sem oftast er endurtekin í ritum trúarinnar er að „hugleiða“, „íhuga“ og „gaumgæfa“.
Það er algengt í almennum umræðum að með „trúarbrögðum“ sé vísað til alls þess fjölda af sértrúarflokkum sem til er. Ekki að undra þótt ýmsir mótmæli þessu og segi að með trúarbrögðum sé átt við eitthvert þeirra miklu og sjálfstæðu trúarkerfa sögunnar sem hafa skapað og lagt grundvöll að siðmenningu. Þetta sjónarhorn vekur óhjákvæmilega þá spurningu hver staða þessara sögulegu trúarkerfi sé í heimi nútímans. Nákvæmlega hvar er „gyðingdóm“, „búddisma“, „kristindóm“, „íslam“ og önnur trúarkerfi að finna, því augljóslega er ekki hægt að kenna þau við þau innbyrðis ósættanlegu samtök sem segjast tala í þeirra nafni? Vandamálinu lýkur ekki hér. Enn annað svar er að með trú sé einfaldlega átt við lífsviðhorf, tengsl við raunveruleikann sem séu hafin yfir efnislega tilveru. Trúarbrögð í þessum skilningi eru eigind einstaklingsins, hvöt sem ekki er háð neinu skipulagi og reynsla sem allir geta öðlast. Meirihluti trúaðra manna telur að þessi afstaða sýni skort á þeim sjálfsaga og einingu sem gæðir trúna merkingu. Sumir myndu jafnvel segja að þvert á móti tákni trúin lífsstíl einstaklinga sem, eins og þeir sjálfir, hafi tekið upp stranga lífshætti með daglegu helgisiðahaldi og sjálfsafneitun sem aðgreini þá fullkomlega frá öðrum í samfélaginu. Það sem þessi ólíku sjónarmið eiga sameiginlegt er að fyrirbrigði sem viðurkennt er að sé ofar mannlegum skilningi hefur verið læst inni í hugmyndaramma sem á rót sína að rekja til mannlegs skilnings, skipulags, guðfræði og helgisiða.
Kenningar Bahá’u’lláh víkja þessum mótsagnakenndu viðhorfum til hliðar og endurorða margs konar sannindi sem beint eða óbeint liggja við rætur guðlegrar opinberunar. Bahá’u’lláh gefur til kynna að allar tilraunir til að lýsa veruleika Guðs í spurningakverum og trúarjátningum séu fánýtar: „Sérhverju skilningsríku og upplýstu hjarta er ljóst, að Guð, hinn óþekkjanlegi kjarni, hin guðdómlega verund, er ómælanlega hátt hafinn yfir sérhverja mannlega eigind, svo sem líkamlega tilvist, uppstigningu og niðurstigningu, framþróun og afturför. Fjarri sé það dýrð Hans, að mannleg tunga geti vegsamað Hann svo verðugt sé eða mannshjartað skilið ómælisdul Hans.“ Skaparinn starfar með sístæðri sköpun sinni með því að senda boðbera sem opinbera eigindir hins órannsakanlega og ótilkvæmilega guðdóms: „Þar sem dyrnar að þekkingu á hinum aldna eru þannig lokaðar öllum verum, hefur uppspretta óendanlegrar náðar .... látið þessa skínandi gimsteina heilagleikans birtast úr ríki andans í göfugri mynd mannlegs musteris og opinberað þá öllum mönnum, svo þeir megi skýra heiminum frá leyndardómum Hinnar óumbreytanlegu verundar og segja frá óræðum einkennum ótortímanlegs kjarna Hans.“
Að ætla sér að dæma meðal boðbera Guðs, taka einn þeirra fram yfir annan, væri að játast þeirri blekkingu að hið eilífa og alltumlykjandi sé háð mannlegum vilja og löngunum. „Þér er ljóst og auðsætt,“ segir Bahá’u’lláh, „að allir spámennirnir eru musteri málstaðar Guðs sem hafa birst í ýmsum skrúða. Ef þú aðgættir skörpum augum, sæir þú þá alla dvelja í einum helgidómi, svífa á sama himni, sitja í sama hásæti, mæla sömu orð og boða sömu trú.“ Jafn óskammfeilið væri að ímynda sér að eðli þessara einstæðu einstaklinga geti eða þurfi að laga sig að fræðikenningum sem byggjast á efnislegri reynslu. Bahá’u’lláh segir að með „þekkingu á Guði“ sé átt við þekkingu á opinberendum sem opinbera vilja Hans og eigindir og það er hér sem sálin kemst í nána snertingu við skaparann sem að öðru leyti er ofar orðum og skilningi. „Ég ber því … vitni,“ segir Bahá’u’lláh um stöðu opinberanda Guðs, „að með fegurð Þinni hefur fegurð Hins tilbeðna verið afhjúpuð og með ásýnd Þinni hefur ásýnd Hins þráða varpað ljóma….“
Þessi skilningur á trúarbrögðunum gefur sálinni möguleika sem að öðrum kosti væri ekki hægt að gera sér í hugarlund. Að því marki sem einstaklingnum lærist að njóta gagns af áhrifum opinberunar Guðs fyrir sinn tíma gegnsýra eigindir hins guðlega heims smám saman eðli hans: „Með kenningum þessarar sólar sannleikans þroskast sérhver maður og tekur framförum uns hann.... getur birt alla þá duldu krafta sem eru fólgnir í hinu innsta og sanna sjálfi hans.“ Þar sem tilgangur mannkynsins er að stuðla að „síframsækinni siðmenningu“ hefur það ekki síst verið hæfni trúarinnar, einn þeirra gríðarlegu krafta sem hún býr yfir, til að frelsa hina trúuðu frá takmörkunum hins tímanlega og fá þá til að fórna í þágu ókominna kynslóða. Þar sem sálin er ódauðleg gæðir skilningur hennar á sínu sanna eðli hana afli til að þjóna þróunarferlinu ekki aðeins í þessum heimi heldur jafnvel enn frekar í þeim sem kemur. „Ljósið, sem þessar sálir geisla,“ segir Bahá’u’lláh, „er forsendan fyrir framþróun heimsins og þroska þjóðanna...... Allir hlutir eiga sér orsök, hreyfihvöt, lífgefandi meginreglu. Þessar sálir, tákn andlegrar lausnar, hafa miðlað og munu áfram miðla hinu æðsta hreyfiafli í verundarheiminum.“
Trúin er þannig lífsnauðsynleg og óslökkvandi hvöt tegundar sem áhrifamikill nútíma hugsuður hefur nefnt „þróun sem verður meðvituð um sjálfa sig.“ Atburðir 20. aldar eru dapurlegur og áhrifaríkur vitnisburður um að ef eðlislæg trúartjáning er stöðvuð með óeðlilegum hætti, mun hún finna eitthvað annað til að tilbiðja, hversu verðleikalaust eða jafnvel úrkynjað sem það kann að vera, ef það að einhverju leyti getur linað þrána eftir fullvissu. Þetta er innri hvöt sem ekki verður afneitað.
Sá sem er uppspretta þess þekkingarkerfis sem við köllum trúarbrögð opinberar heiður þess og lausn frá mótsögnum sem metnaður sértrúaraflanna skapar. Starf sérhvers opinberanda Guðs er sjálfstætt og býr yfir valdi sem ekki er háð neinum mælikvörðum; það er einnig áfangi í þrotlausri opinberun eins raunveruleika. Þar sem tilgangur opinberanda Guðs er að vekja mannkynið til ábyrgðar og vitundar um hæfni sína sem trúnaðargjöf og vörslufé sköpunarverksins, endurtekur ferli sig ekki heldur er framsækið og aðeins skiljanlegt í þessu samhengi.
Bahá’íar geta með engu móti sagt að þeir hafi skilið meira en örlítið brot af þeim sannindum sem felast í opinberun Bahá’u’lláh. Verndarinn sagði með tilvísun til þróunar málstaðarins, „Það eina sem við getum reynt er að koma auga á fyrsta bjarma af hinum fyrirheitna degi sem í fyllingu tímans mun dreifa myrkrinu sem umlykur mannkynið.“ Þessi staðreynd stuðlar að auðmýkt og ætti einnig að minna á að Bahá’u’lláh kom ekki með ný trúarbrögð sem eiga að standa samhliða þeim fjölda sértrúarhreyfinga sem nú eru starfandi. Hann hefur öllu fremur endurskapað hugmyndina um trúarbrögðin sem drifkraftinn í þróun mannlegrar meðvitundar. Þar sem mannkynið í öllum sínum fjölbreytileika er ein tegund er sú guðlega íhlutun sem þróar eiginleika hjarta og hugar til staðar í tegundinni sem eitt ferli. Hetjur þess og dýrlingar eru hetjur og dýrlingar á öllum stigum í baráttunni; sigur þeirra er sigur allra stiga. Þetta er mælikvarðinn í lífi og starfi Meistarans og á sér í dag fordæmi í bahá’í samfélagi sem trúað hefur verið fyrir allri andlegri arfleifð mannkynsins, arfleifð sem er jafn aðgengileg öllum þjóðum jarðar.
Ítrekuð sönnun um tilvist Guðs er því sú að frá ómunatíð hefur Hann opinberað sig mönnum. Bahá’u’lláh útskýrir að öll trúarsaga mannkynsins sé uppfylling „sáttmálans“, þess fyrirheits sem skapari allra hluta hefur gefið mannkyninu um óbrigðula leiðsögn sem er nauðsynleg andlegri og siðferðilegri þróun þess og hvetur það til að samkenna sig þessum gildum og tjá þau. Ef menn þess óska geta þeir dregið í efa með túlkunum söguhyggju vitnisburðinn um einstætt hlutverk hins eða þessa boðbera, en slíkar hugleiðingar stoða ekkert þegar skýra á þróun sem hefur umbreytt hugarfari og mannlegum tengslum sem hafa úrslitaþýðingu fyrir samfélagslega þróun. Opinberendur Guðs hafa birst með svo löngu millibili að hægt er að telja þá á fingrum sér. Þeir hafa kveðið fast að orði hvað varðar myndugleika kenninga sinna og haft meiri áhrif á framþróun siðmenningar en nokkuð annað fyrirbæri í sögunni. „Íhuga þá stund þegar hin æðsta opinberun birtist mönnum,“ segir Bahá’u’lláh: „Áður en sú stund rennur upp er hinn aldni, sem enn er ókunnur mönnum og hefur ekki enn fært orð Guðs í búning, þekkjandinn í veröld sem ekki þekkir Hann. Hann er í sannleika skapari án sköpunar.“
Algengt er að heyra þær mótbárur gegn ofangreindum hugmyndum um trúna að munurinn á hinum opinberuðu trúarbrögðum sé svo mikill að það sé villandi að kynna þau sem ýmis stig eða hliðar á einu sannleikskerfi. Í ljós þess ruglings sem skapast hefur um eðli trúarinnar eru þessi viðbrögð skiljanleg. Slíkar mótbárur gefa þó bahá’íum tækifæri til að setja þær meginreglur sem hér er fjallað um í það þróunarsamhengi sem rit Bahá’u’lláh útskýra.
Þessi ágreiningur varðar ýmist kenningu eða framkvæmd sem kynnt er sem áform viðkomandi helgirita. Þegar um er að ræða trúarvenjur sem stjórna persónulegu lífi er hentugt að skoða málið í ljósi hliðstæðna úr efnislega lífinu. Það er mjög ólíklegt að fjölbreytileiki í hreinlæti, klæðaburði, læknislyfjum, mataræði, samgöngum, stríðsátökum eða efnahagslífi, styðji þá kenningu að mannkynið sé ekki af einum og sama stofni. Einfeldningsleg rök af þessu tagi voru algeng allt fram á tuttugustu öld. Sögulegar og mannfræðilegar rannsóknir sýna þó hvernig þessir þættir mannlegrar sköpunar breyttust og þróuðust frá einni kynslóð til annarrar, náðu oft útbreiðslu og auðguðu líf fólks í fjarlægum löndum. Vítt litróf í þjóðfélögum nútímans sýnir á engan hátt fastmótuð og óbreytilega einkenni viðkomandi þjóða. Það sýnir aðeins ákveðið stig í þróun þessara tilteknu hópa og samfélaga. Öll þessi menningarlega fjölbreytni er orðin mjög sveigjanleg vegna hnattræns samruna og samskipta.
Bahá’u’lláh gefur til kynna að sams konar þróunarferli hafi einkennt trúarlíf mannkynsins. Munurinn felst í þeirri staðreynd að slíkar venjur og siðir voru ekki tilviljanakenndir liðir í sögunni heldur fastákveðnir í sérhverju tilviki sem þættir í einni af opinberunum hins guðlega, settir fram í helgiritum og framkvæmdir samviskusamlega og án breytinga í gegnum aldirnar. Sumir þættir þessarar siðaskrár uppfylltu að lokum tilgang sinn og hurfu í skuggann af annars konar þróun í samfélaginu en siðaskráin sjálf hélt fullu gildi í hinu langa þróunarferli þar sem hún gegndi lykilhlutverki í mótun hegðunar og viðhorfa. „Þessar meginreglur og lagafyrirmæli, þessi tryggilega grundvölluðu og máttugu kerfi,“ segir Bahá’u’lláh, „koma frá einni uppsprettu og eru geislar eins og sama ljósgjafa. Muninn á þeim ber að rekja til mismunandi þarfa þeirra tíma, er þau voru opinberuð.“
Sá sem heldur því fram að munurinn á reglum, siðvenjum og öðru slíku afsanni á einhvern hátt hugmyndina um einingu hinna opinberuðu trúarbragða missir sjónar á tilgangi þessara fyrirmæla. Og það sem er enn alvarlegra, hann missir sjónar á grundvallarmuninum á eilífum og tímanlegum þáttum trúarinnar. Meginboðskapur trúarbragðanna er óbreytilegur. Þau eru samkvæmt orði Bahá’u’lláh, „óbreytileg trú Guðs, eilíf í fortíðinni, eilíf í framtíðinni.“ Það hlutverk þeirra að opna sálinni leið að stöðugt nánara sambandi við skapara sinn og gera hana stöðugt sjálfstæðari í siðferðisefnum með ögun hins dýrslega hluta mannlegs eðlis – er engan veginn ósamrýmanlegt leiðsögn sem stuðlar að framþróun siðmenningar.
Hugmyndin um síframsækna siðmenningu leggur þyngsta áherslu á að opinberun Guðs sé viðurkennd þegar hún birtist. Það er hér sem meirihluti mannkyns hefur ítrekað brugðist og því hafa heilar þjóðir verið dæmdar til að endurtaka helgisiði sína og venjur löngu eftir að þær hafa þjónað tilgangi sínum og eru orðnar hindrun í vegi siðferðilegrar framþróunar. Nú á tímum hefur þetta leitt til þess að lítið er gert úr trúarbrögðunum. Einmitt á þeim tíma í sameiginlegri þróun mannkynsins þegar það byrjaði að takast á við áskoranir nútímans, var andlega auðlindin sem það hafði treyst á sem uppsprettu siðferðilegs hugrekkis og upplýsingar að verða að skotspæni háðungar. Þetta gerðist fyrst á þeim sviðum þar sem ákvarðanir eru teknar um stefnu þjóðfélagsins og síðan á æ fleiri sviðum þjóðfélagsins. Það er því ekki að undra að þessi verstu svik trúnaðar sem mannkynið hefur þolað skyldi með tímanum grafa undan undirstöðum trúarinnar sjálfrar. Því er það að Bahá’u’lláh hvetur lesendur sína stöðugt til að „hugleiða vandlega hver væri orsök slíkrar afneitunar....“ „Hvað gæti hafa valdið slíkri höfnun og afneitun...?“ „Hvað gæti hafa valdið slíkum deilum...?“ „Íhugið, hver gat ástæðan verið...?“
Guðfræðilegar ályktanir hafa haft enn verri áhrif á trúarlegan skilning. Áberandi þáttur í sértrúarhyggju fortíðar var hlutverk klerkastéttarinnar. Ritningartextar sem renndu stoðum undir myndugleika stofnana voru ekki til og klerklegar forréttindastéttir gátu því tekið sér einkarétt á túlkun hins guðlega áforms. Hvaða hvatir sem lágu að baki þessu hafði það þau hörmulegu áhrif að tálma innblæstri, letja til sjálfstæðrar vitsmunalegrar hugsunar, beina athyglinni að smáatriðum helgisiða og vekja iðulega upp hatur og fordóma í garð þeirra sem fóru aðrar leiðir í trúarefnum en hinir sjálfskipuðu andlegu leiðtogar. Ekkert gat hindrað skapandi afl guðlegrar íhlutunar frá því að halda áfram því verki að víkka meðvitundina, en svið þess sem hægt var að gera varð stöðugt þrengra vegna slíka heimatilbúinna hindrana.
Gegnum tíðina tókst guðfræðinni að byggja upp í hjarta allra hinna miklu trúarbragða vald sem gerði sama tilkall og var jafnvel í anda sínum fjandsamlegt þeim opinberuðu kenningum sem hefðin byggðist á. Hin þekkta dæmisaga Jesú um landeigandann sem sáði sæði í akur sinn varpar ljósi á þetta mál og þýðingu þess fyrir okkar tíma: „En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan.“ Þegar þjónar hans vildu uppræta það svaraði landeigandinn: „Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bagga til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína.“ Alvarlegustu fordæmingu Kóransins er að finna á því andlega tjóni sem þessi innbyrðis stríðandi kenningar valda: „Seg: Það sem Drottinn minn hefur að sönnu bannað eru: smánarlegar gerðir, hvort sem þær eru framdar opinskátt eða í leyndum; syndir og yfirtroðsla gegn sannleika eða skynsemi; að eigna Guði jafningja, en það hefur Hann ekki heimilað; og að segja það um Guð sem þér hafið enga þekkingu á.“ Í huga nútímans er mesta háðungin sú að kynslóðir guðfræðinga, sem með trúfræðilegum kenningum sínum hafa framið einmitt þau sömu svik sem svo stranglega eru fordæmd í þessum textum, skuli nota þessi sömu varnaðarorð sem vopn til að kveða niður mótmæli gegn ráni þeirra á guðlegu valdi.
Reyndin varð sú að sérhvert nýtt stig í stighækkandi opinberun andlegs sannleika fraus í tímanum og í alls konar bókstaflegum myndum og túlkunum, sem margar hverjar voru teknar að láni frá menningarsvæðum sem voru siðferðilega úr sér gengin. Hvert sem gildi þeirra var á fyrri stigum í þróun meðvitundar, hafa hugmyndir um líkamlega upprisu, paradís holdlegra lystisemda, endurholdgun, guðleg undrabörn, og annað þess háttar reist múra aðskilnaðar og átaka á þessari öld þegar jörðin er í bókstaflegri merkingu orðin eitt heimaland og mannkynið verður að læra að líta á sig sem borgara þess. Í þessu samhengi getur maður skilið ástæðuna fyrir ofsanum í varnaðarorðum Bahá’u’lláh um hindranirnar sem kreddufull guðfræði leggur í veg þeirra sem reyna að skilja vilja Guðs: „Seg: Ó trúarleiðtogar! Vegið ekki bók Guðs með þeim mælikvörðum og vísindum sem tíðkast meðal yðar því að bókin sjálf er hin óskeikula mælivog sem grundvölluð er meðal manna.“ Í töflu sinni til Píusar páfa IX, segir Hann að Guð hafi á þessum degi „geymt .....í keröldum réttlætis“ allt sem er varanlegt í trúnni og „varpað á eld hinu sem þar átti heima“.
Laus úr þeim fjötrum sem guðfræðin hefur lagt á trúarlegan skilning getur mannshugurinn kannað kunnuglegar helgigreinar með augum Bahá’u’lláh. „Óviðjafnanlegur er þessi dagur,“ segir Hann, „því hann er sem auga fyrir liðna tíma og aldir og ljós í myrkri tímanna.“ Frá þessu sjónarhorni er það eining áforms og meginreglu sem vekur mesta athygli en hún gengur sérstaklega gegnum Gamla og Nýja testamentið og Kóraninn, þótt bergmál af þeirri einingu megi greina í helgiritum annarra heimstrúarbragða. Aftur og aftur enduróma þessi stef í hvatningum, frásögnum, táknum og túlkunum. Af þessum grundvallarsannindum er mesta áherslan lögð á einingu Guðs, skapara himins og jarðar. Í Biblíunni segir: „Ég er Drottinn og enginn annar. Enginn Guð er til nema Ég.“ Sömu hugmyndir eru að baki síðari kenningum Krists og Múhameðs.
Mannkynið, erfingi heimsins og kóróna hans, lifir til að þekkja skapara sinn og þjóna tilgangi Hans. Hæsta tjáning þessarar meðfæddu hvatar mannsins er tilbeiðsla, sem felur í sér heilshugar undirgefni undir það vald sem verðskuldar slíka lotningu. „Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda.“ Óaðskiljanleg anda lotningar er tjáning hans í þjónustu við áform Guðs fyrir mannkynið. „Seg: Öll hylli er í höndum Guðs; Hann veitir hana hverjum sem Hann vill, og Guð elur umhyggju fyrir öllum og þekkir alla hluti.“ Ábyrgð mannkyns er skýr í ljósi þessa skilnings: „Það er ekki réttlæti að þér snúið yður til austurs eða vesturs,“ segir Kóraninn, „en réttlætið er að trúa á Guð ... að gefa af eigum yðar, sakir ástar á Honum, í þágu ættingja yðar, munaðarleysingja, hinna þurfandi, vegfarandans, þeirra sem biðja....“ „Þér eruð salt jarðar,“ er brýning Krists til þeirra sem svara kalli Hans. „Þér eruð ljós heimsins.“ Spámaðurinn Míka dregur saman þetta þema sem gengur eins og rauður þráður gegnum Gamla testamentið, Kóraninn og Nýja testamentið þegar hann spyr: „...hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og ganga fram í lítillæti fyrir Guði þínum?“
Textarnir eru einnig sammála um að hæfni sálarinnar til að skilja áform Guðs sé ekki aðeins árangur af eigin viðleitni heldur opni guðleg íhlutun leiðina. Jesús orðaði þetta þannig eftirminnilega: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið; enginn kemst til Föðurins nema fyrir mig.“ Ef ekki á að skoða þessi orð sem kreddukennda ögrun við önnur stig guðlegrar leiðsagnar, er hér augljóslega verið að orða miðlægan sannleika hinna opinberuðu trúarbragða þess efnis að aðgangur að hinum óþekkjanlega veruleika sem skapar og viðheldur tilverunni sé aðeins mögulegur ef maðurinn vaknar fyrir upplýsingu frá því ríki. Í einum af ástkærustu köflum Kóransins segir svo: „Guð er ljós himins og jarðar.... Ljós á ljós ofan! Guð leiðir hvern sem Hann vill að ljósi sínu.“ Hvað varðar spámenn Gamla testamentisins tók hinn guðlegi milligöngumaður sem seinna átti eftir að birtast í kristindómi í persónu mannsonarins og í íslam sem bók Guðs á sig mynd bindandi sáttmála sem skaparinn gerði við Abraham, patríarka og spámann: „Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig.“
Stighækkandi opinberun hins guðlega er óaðskiljanlegur þáttur hinna stóru trúarbragða. Hann kemur fram með hvað skýrustum hætti í Bhagavad-Gita: „Ég kem og fer og kem aftur. Þegar réttlætingu hnignar, O Bharata! Þegar illskan ríkir, kem ég frá einni öld til annarrar, verð sýnilegur og hreyfi mann með mönnum, hjálpa hinu góða, sigrast á hinu illa og set dyggðina aftur í hásæti.“ Þetta drama er grunnur Biblíunnar, en bækur hennar skýra ekki aðeins frá verkum Abraham og Móse – „sem Drottinn umgekkst augliti til auglitis“ – heldur einnig minni spámönnunum sem héldu áfram verkinu sem forgöngumennirnir höfðu hafið. Á sama hátt hefur deilum og fjarstæðukenndum hugleiðingum um eðli Jesú ekki tekist að aðskilja ætlunarverk Hans þeim umskapandi áhrifum sem verk Abrahams og Móse höfðu á siðmenninguna og stefnu hennar. Hann áminnir þá um að Hann muni ekki sjálfur dæma þá sem hafna boðskap Hans heldur muni Móse gera það: „Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir Föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér. Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað. Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?“ Með opinberun Kóransins verður stighækkandi opinberun sendiboða Guðs miðlæg: „Við trúum á Guð og opinberunina sem okkur er gefin, og á Abraham, Isma’il, Ísak, Jakob ... og það sem gefið var Móse og Jesú og það sem öllum spámönnunum veittist frá Drottni sínum....“
Sá sem les þessa tilvitnuðu kafla af hlutlægni og samúð sér að í þeim felst viðurkenning á grundvallareiningu trúarbragðanna. Þannig táknar orðið „íslam“ (bókst. „undirgefni“ við Guð) ekki aðeins sérstakt trúarkerfi sem Múhameð er höfundur að, heldur, eins og orð Kóransins gefa skýrt til kynna, trúna sjálfa. Það er rétt að tala um einingu allra trúarbragða en hana verður að skilja í réttu samhengi. Innst inni, eins og Bahá’u’lláh leggur áherslu á, er aðeins ein trú. Trú er trú, líkt og vísindi eru vísindi. Hið fyrrnefnda tjáir gildi sem opinberast stig af stigi með guðlegri opinberun; hið síðarnefnda er tækið sem mannshugurinn notar til að kanna og hafa áhrif á umheiminn. Hið fyrrnefnda skilgreinir markmiðin sem þjóna þróunarferlinu; hið síðarnefnda hjálpar til að gera þau að veruleika. Saman mynda þau tvíhliða þekkingarkerfi sem knýr siðmenninguna fram á við. Hvorutveggja nefnir Meistarinn „geisla frá sól sannleikans.“
Þess vegna er það ekki fullnægjandi viðurkenning á einstæðri stöðu Móse, Búddha, Saraþústra, Jesú, Múhameðs eða spámannanna sem helgirit hindúa byggjast á, að lýsa þeim sem höfundum sérstakra trúarbragða. Fremur ber að líta á þá sem andlega fræðara mannanna, frumkvöðla siðmenningarskeiða og þróun vitundarlífs: „Hann var í heiminum,“ segir guðspjallið, „og heimurinn var til orðinn fyrir hann....“ Það að persónuleiki þeirra hefur notið miklu meiri lotningar en aðrar persónur sögunnar er tilraun til að tjá tilfinningar sem orð fá ekki lýst og sem vakna í hjörtum aragrúa milljóna vegna þeirra blessana sem fylgt hafa starfi þeirra. Með því að elska þá hefur mannkynið smámsaman lært hvað það þýðir að elska Guð. Í rauninni er engin önnur leið til þess. Þeim er ekki sýndur heiður með fálmkenndum tilraunum til að fanga innsta leyndardóm eðlis þeirra með kreddum mannlegs hugarburðar. Það sem heiðrar þá er skilyrðislaust afsal sem sálin gefur á sínum eigin vilja fyrir þau umskapandi áhrif sem frá þeim stafa.
Ringulreið varðandi hlutverk trúarbragða í ræktun siðvitundar kemur jafn augljóslega fram í almennum skilningi á framlagi þeirra til mótunar þjóðfélagsins. Kannski er augljósasta dæmið um þetta sú lága samfélagsstaða sem flestir helgir textar ætla konum. Þótt þau forréttindi sem þetta veitti karlmönnum hafi vafalaust átt sinn þátt í að renna stoðum undir þessar hugmyndir, var skilningur manna á áformi helgiritanna án efa siðferðileg réttlæting þeirra. Með fáum undantekningum beindust þessir textar að karlmönnum og ætluðu konunni þjónustu- og stuðningshlutverk í lífi trúar og samfélags. Því miður gerði slíkur skilningur það hörmulega auðvelt að kenna konum um misbrest á stjórn og ögun kynhvatarinnar sem er nauðsynlegur þáttur í siðferðilegri framþróun. Í nútímanum er strax litið á viðhorf af þessu tagi sem fordóma og óréttlæti. Þegar stóru trúarbrögðin urðu til reyndu þau eftir megni að siðmennta sambönd sem voru rótgróin í sögulegu samhengi. Það þarf ekki mikið innsæi til að skilja að fastheldni við frumstæðar reglur í nútíma samfélagi myndi gera að engu áform trúarbragðanna um ræktun siðvitundar.
Svipaða sögu er að segja af tengslum milli samfélaga. Hinn langi og erfiði undirbúningur gyðinga fyrir það hlutverk sem krafist var af þeim er dæmi um hversu flóknar og erfiðar spurningarnar um siðferði voru. Til þess að andlega hæfnin sem spámennirnir höfðuðu til mætti vakna og blómgast varð að berjast gegn hvatningum og gylliboðum hjáguðadýrkenda í nálægum samfélögum hvað sem það kostaði. Frásagnir helgiritanna um þær refsingar sem féllu í hlut stjórnendum og þegnum sem brutu gegn reglunum sýna hve mikilvægar þær voru fyrir hið guðlega áform. Svipað mál kom upp í varnarbaráttu hins nýja samfélags sem Múhameð stofnaði gegn árásum heiðinna Araba sem reyndu að eyða því af miskunnarlausri grimmd og hefndarhug. Enginn sem þekkir þessa sögu á í erfiðleikum með að skilja ströng fyrirmæli Kóransins um þetta mál. Eingyðishugmyndum gyðinga og kristinna manna átti að sýna virðingu en engin málamiðlun var leyfð þegar um hjáguðadýrkun var að ræða. Á tiltölulega stuttum tíma tókst að sameina ættbálkana á Arabíuskaganum með aðstoð þessara ströngu laga og hefja samfélag þeirra til afreka í meira en fimm aldir á sviðum siðgæðis, menningar og efnahags – afreka sem eiga sér engan líka fyrr eða síðar. Sagan er strangur dómari og gerir ekki málamiðlanir. Að endingu munu verk þeirra sem reyna að kæfa slík verkefni í fæðingu verða dæmd með hliðsjón af því gagni sem þau höfðu fyrir þjóðirnar sem sóttu afl sitt í sýn Biblíunnar á mannlega möguleika og framfarirnar sem snilligáfa íslamskrar menningar gerði mögulegar.
Meðal umdeildustu mála sem varða skilning á andlegum þroska mannkynsins eru málefni sem varða glæpi og refsingu. Refsingar sem helgiritin ákvarða fyrir brot gegn almannaheill eða réttindum annarra eru oft strangar. Auk þess leyfa þær oft hefnd fórnarlambsins eða fjölskyldu hans gegn hinum brotlega. Frá sjónarhorni sögunnar vaknar sú spurning hvaða aðrir praktískir kostir hafi verið fyrir hendi. Meðferðarúrræði eins og þekkjast í dag voru ekki til, ekki heldur fangelsi eða lögregla. Því var það trúarlegt úrræði að viðvörunin hefði fordæmisgildi fyrir gerðir sem að öðrum kosti hefðu lamað framfarir samfélagsins. Öll siðmenningin hefur notið góðs af þessu og það væri óheiðarlegt að hafna þeirri staðreynd.
Þannig hefur það verið í öllum trúarkerfum sem ritaðar heimildir eru til um. Betl, þrælahald, alræði, landvinningar, þjóðernisfordómar og aðrir óæskilegir félagslegir þættir hafa ekki verið fordæmdir – eða þeim beitt óhindrað – þegar trúarbrögðin reyndu að bæta hegðun sem var talin brýnni á ákveðnum stigum siðmenningar. Að fordæma trúarbrögð vegna þess að þau beittu sér ekki gegn öllum þjóðfélagslegum rangindum væri að virða að vettugi eðli mannlegrar þróunar. Óhjákvæmilega hlýtur tímaskekkja í hugsun af þessu tagi að skapa alvarlegar sálfræðilegar meinsemdir gagnvart skilningi okkar og afstöðu til þarfa okkar eigin tíma og þeirra krafna sem hann gerir.
Málið er ekki fortíðin heldur þýðing hennar fyrir nútímann. Vandamál skjóta upp kollinum þegar fylgjendur einnar trúar geta ekki greint á milli eilífra og tímanlegra þátta hennar og reyna að þröngva upp á þjóðfélagið hegðunarreglum sem fyrir löngu hafa misst gildi sitt. Meginreglan hefur grundvallarþýðingu fyrir skilning á félagslegu hlutverki trúarinnar: „Lyfið, sem heimurinn þarfnast nú í þrengingum sínum getur aldrei verið hið sama og það sem næsta öld þarf á að halda. Sinnið til fulls þörfum þeirrar aldar, sem þér lifið á, og beinið athygli yðar að nauðþurftum hennar og kröfum,“ segir Bahá’u’lláh.
Kröfum hinnar nýju mannlegu reynslu, sem Bahá’u’lláh hvatti pólitíska og trúarlega leiðtoga 19. aldar til að bregðast við, hefur nú að miklu leyti verið svarað, a.m.k. sem hugsjónum, af arftökum þeirra og framfarasinnuðu fólki hvarvetna. Í lok 20. aldar höfðu meginreglur sem aðeins nokkrum áratugum fyrr voru kallaðar óraunsæir draumórar, fengið miðlægt gildi í hnattrænni umræðu. Tvíefldir í krafti vísindalegra uppgötvana og ályktana áhrifamikilla nefnda – oft vel fjármagnaðra – stýra þeir starfi voldugra stofnana á alþjóðlegum, þjóðlegum og svæðisbundnum vettvangi. Miklar fræðilegar bókmenntir á mörgum tungumálum fjalla um hvernig koma á í verk þessum áætlunum sem njóta athygli fjölmiðla á fimm meginlöndum.
Flestar þessara meginreglna hafa því miður verið óvirtar víða, ekki aðeins af viðurkenndum óvinum samfélagsfriðar, heldur einnig af fólki sem játar þeim hollustu. Það sem vantar er ekki sannfærandi vitnisburður um þýðingu þeirra heldur afl siðferðilegrar fullvissu sem getur hrundið þeim í framkvæmd, afl sem á sér einu tryggu uppsprettuna í trúnni. Þegar ætlunarverk Bahá’u’lláh hófst höfðu trúarleg yfirvöld enn þá veruleg þjóðfélagsleg áhrif. Þegar kristinn heimurinn sneri baki við þrælahaldi reyndu fyrstu bresku umbótasinnarnir að skírskota til Biblíunnar. Síðar þegar forseti Bandaríkjanna skilgreindi miðlægt hlutverk þessa máls í þrælastríðinu sagði hann að þótt „hver blóðdropi sem svipan hafi kallað fram verði endurgoldinn með öðrum af sverði, eins og sagt var fyrir 3000 árum, þannig verður líka sagt að ‚dómar Guðs eru allir sannir og réttlátir‘.“ Það tímabil var þó brátt á enda. Í öngþveitinu eftir síðari heimsstyrjöld tókst jafnvel svo áhrifamikilli persónu sem Mohandas Gandhi ekki að virkja andlegt afl hindúismans í tilraunum sínum til að slökkva elda sértrúarátaka í Indlandi. Leiðtogum íslamska samfélagsins tókst ekki betur til. Eins og spáð var í Kóraninum um „daginn þegar Vér vefjum himnunum saman eins og bókfelli“ nær vald hefðbundinna trúarbragða, sem eitt sinn var óskorað, ekki lengur til félagslegra tengsla mannkynsins.
Það er í þessu samhengi sem hægt er að skilja myndmálið sem Bahá’u’lláh beitir um vilja Guðs fyrir nýja öld: „Haldið ekki að Vér höfum opinberað yður einn saman lagabálk. Nei, öllu fremur höfum Vér rofið innsiglið af hinu kjörna víni með fingrum máttar og valds.“ Með opinberun Hans hafa meginreglurnar sem fullþroski mannkynsins þarf að styðjast við verið gæddar afli sem getur snert rætur mannlegrar hvatar og breytt hegðun og framferði. Fyrir þá sem hafa viðurkennt Hann er jafnrétti karla og kvenna ekki þjóðfélagsleg forsenda heldur opinberaður sannleikur um mannlegt eðli sem hefur áhrif á allar hliðar mannlegra tengsla. Hið sama gildir um kenningar Hans um einingu kynþátta. Allsherjar menntun, hugsanafrelsi, vernd mannréttinda, viðurkenning á því að auðlindir jarðar séu eign alls mannkyns, ábyrgð samfélagsins á velferð þegna sinna, efling vísindarannsókna, og jafnvel svo praktísk meginregla sem alþjóðahjálpartungumál sem muni stuðla að samþættingu þjóða jarðar – fyrir alla sem svara kalli Bahá’u’lláh hafa þessi og önnur svipuð fyrirmæli sama myndugleika og bann helgiritanna gegn hjáguðadýrkun, þjófnaði og falsvitni. Sumt af þessu má greina í fyrri helgiritum, en nánari skilgreining og framkvæmd varð að bíða þangað til ólíkar þjóðir jarðar gátu byrjað að líta á sig sem eitt mannkyn. Með andlegri eflingu sem opinberun Bahá’u’lláh færir er hægt að meta hina guðlegu mælikvarða, ekki sem einangraðar reglur og lög heldur ýmsar hliðar á einni sýn á framtíð mannkyns, byltingakenndri og fullri heillandi möguleika.
Veigamikill þáttur þessara kenninga eru meginreglur sem lúta að stjórnun sameiginlegra málefna mannkyns. Þekktur kafli í töflu Bahá’u’lláh til Viktoríu drottningar undirstrikar og ber lof á regluna um þingbundið lýðræði en taflan inniheldur líka áminningu um þá hnattrænu ábyrgð sem sú meginregla verður að styðjast við ef hún á að bera árangur á þessum tímum: „Ó þér kjörnir fulltrúar fólksins í hverju landi! Takið ráð saman, hafið hugann við það eitt sem getur gagnað mannkyni og bætt kjör þess, ef þér tilheyrið hinum forsjálu. Lítið á heiminn sem mannslíkama sem í upphafi var heilbrigður en hefur af ýmsum ástæðum orðið fórnarlamb alvarlegra meinsemda og sjúkdóma. Ekki einn dag fékk hann ró, nei, sjúkdómurinn elnaði því hann féll í hendur fákænna lækna sem gáfu persónulegum ástríðum sínum lausan tauminn og lentu í hrapallegum villum. Og ef hluti þess líkama fékk einhverju sinni bót meina sinna voru aðrir hlutar hans jafn þjáðir og fyrr.“ Í öðum málsgreinum fjallar Bahá’u’lláh um nokkur hagnýt atriði þessa máls. Ríkisstjórnir heimsins eru hvattar til að kalla saman alþjóðlega ráðstefnu sem verða á, með orðum Verndarans, grundvöllur „alríkiskerfis heimsins“ sem hefur vald til að verja sjálfstæði og landsvæði meðlimaríkjanna, leysa úr milliríkjadeilum og svæðisbundnum átökum og samræma áætlanir um hnattræna þróun til góðs fyrir allt mannkynið. Það er þýðingarmikið að Bahá’u’lláh gefur þessu kerfi rétt til að bæla niður með valdi árásir eins ríkis gegn öðru. Hann segir í ávarpi sínu til stjórnenda síns tíma: „Grípi einhver yðar til vopna gegn öðrum, rísið þá allir gegn honum því það er ekki annað en augljóst réttlæti.“
Valdið sem mun leiða þessi markmið til lykta er eining. Þótt þetta sé augljós sannleikur fyrir bahá’íum virðast áhrif einingar á kreppu siðmenningar ekki ná inn í samtímaumræðuna. Flestir eru því sammála að sjúkdómurinn sem herjar á líkama mannkynsins sé óeining. Birtingarmyndir hennar hvarvetna lama pólitískan vilja, draga úr sameiginlegri hvöt til breytinga og eitra samskipti þjóða og trúarbragða. Því er undarlegt að litið skuli á einingu sem markmið sem eigi að ná í fjarlægri framtíð þegar búið sé að leysa fjölda annarra meinsemda í félaglegu, pólitísku, efnahagslegu og siðferðilegu lífi með einum eða öðrum hætti. Þessar meinsemdir eru þó í meginatriðum einkenni og aukaverkanir vandamálsins, ekki sjálf orsökin. Hvers vegna nýtur þessi fullkomni öfugsnúningur veruleikans svo mikils fylgis? Svarið er sennilega það að ósvikin eining í anda og hugsun meðal þjóða sem eru jafn ólíkar og raun ber vitni er alls ekki á færi núverandi stofnana þjóðfélagsins. Þetta þögla samþykki er skref í rétta átt frá þeim skilningi á þjóðfélagslegri þróun sem ríkti fyrir fáeinum áratugum. Það hefur samt takmarkaða hagnýta þýðingu fyrir viðbrögð við þessari áskorun.
Eining er ástand mannsandans. Uppfræðsla getur stuðlað að einingu og löggjöf getur það líka en aðeins þegar hún verður að knýjandi afli í samfélaginu. Leiðtogar á sviði vitsmuna um allan heim sem byggja hugmyndir sínar að miklu leyti á efnislegum ranghugmyndum um veruleikann, halda fast í þá von að frjó samfélagsverkfræði, studd pólitískum málamiðlunum, geti um ófyrirsjánlegan tíma frestað mögulegum hörmungum sem fæstir neita að grúfa yfir framtíð mannkyns. „Vér skynjum glöggt hvernig mannkynið allt er umsetið miklum og ómælanlegum hörmungum,“ segir Bahá’u’lláh. „Vér sjáum það tærast upp á sjúkrabeði sínum, þjakað og vonsvikið. Þeir, sem hafa ölvað sig drambi koma á milli þess og hins himneska, óskeikula græðara. Sjáið hvernig þeir hafa flækt sjálfa sig og alla menn í net vélráða sinna. Þeir geta hvorki greint orsakir sjúkdómsins né hafa nokkra þekkingu á lyfinu.“ Þar sem eining er græðing fyrir meinsemdir heimsins felst örugg uppspretta hennar í endurnýjun þeirra áhrifa sem trúin hefur á mannleg málefni. Lögin og meginreglurnar sem Guð hefur opinberað á þessum degi eru með orðum Bahá’u’lláh, „öflugasta tækið og öruggasta leiðin til þess að ljós einingar geti dugað meðal manna.“ „Allt sem reist er á þessum grundvelli – breytingar og byltingar heimsins munu aldrei geta veikt það né umbrot árþúsundanna grafið undan stoðum þess.“
Sköpun hnattræns samfélags sem endurspeglar einingu mannkyns er meginatriði í ætlunarverki Bahá’u’lláh. Þessi eining bahá’í samfélagsins er endanlegur vitnisburður um gildi kenninga Hans. Nú í byrjun 21. aldar er bahá’í málstaðurinn ólíkur öllu öðru sem heimurinn hefur séð. Eftir áratuga starf þar sem skiptust á skin og skúrir samanstendur bahá’í samfélagið af nokkrum milljónum manna af nánast öllum þjóðernum, menningarlegum uppruna og trúarbrögðum og stjórna sameiginlegum málum sínum án íhlutunar klerkastéttar með lýðræðislega kjörnum stofnunum. Rætur þess má finna á þúsundum staða hvarvetna á byggðu bóli, frá norðurheimskautinu til Eldlandsins, frá Afríku til eyja Kyrrahafsins. Það er ólíklegt að nokkur sem til þekkir neiti þeirri fullyrðingu að þetta samfélag er hið fjölbreyttasta og landfræðilega útbreiddasta allra samsvarandi skipulagðra samtaka á jörðinni.
Þetta afrek kallar á skilning. Venjulegar útskýringar – aðgangur að fjármunum, stuðningur pólitískra hagsmunahópa, tilvísun til hins dulræna eða ágengir predikarar sem kalla á reiði Guðs – ekkert af þessu á neinn þátt í þessum atburðum. Fylgjendur trúarinnar hafa litið á sig sem hluta af einu mannkyni og þessi einkenni móta tilgang lífs þeirra en eru ekki nein yfirlýsing um siðferðilega yfirburði: „Ó fylgjendur Bahá! Að enginn skuli geta keppt við yður er tákn um miskunn.“ Sanngjarn áhorfandi getur a.m.k. ekki útilokað þann möguleika að þetta fyrirbrigði lýsi áhrifum – gjörólíkum þeim sem við þekkjum – sem með réttu geta kallast andleg og framkalla framúrskarandi fórnaranda og skilning venjulegs fólks af öllum uppruna.
Það er sérstaklega athyglisvert að bahá’í trúin hefur getað varðveitt þessa einingu óskerta í gegnum fyrstu og erfiðustu áfangana í lífi sínu. Við leitum með logandi ljósi að öðrum mannlegum samtökum í sögunni – pólitískum, trúarlegum eða félagslegum – sem hefur tekist að lifa af stöðuga storma klofnings og sundurlyndis. Í öllum sínum fjölbreytileika er bahá’í samfélagið eitt samfélag, eitt í skilningi sínum á áforminu með opinberun Guðs sem fæddi það, eitt í hollustu sinni við stjórnskipulagið sem höfundur þess skapaði til að stýra sameiginlegum málum þess, eitt í hollustunni við það verkefni að útbreiða boðskap Hans um allan heim. Í gegnum árin hafa nokkrir einstaklingar, sumir háttsettir og allir reknir áfram af persónulegum metnaði, gert sitt ítrasta til að afla sér sjálfum eða persónulegum túlkunum sínum á bahá’í ritunum fylgis. Á fyrri stigum í þróun trúarbragðanna hafa svipaðar tilraunir orðið til þess að sundra nýjum trúarbrögðum í innbyrðis andstæðar fylkingar. Hvað varðar bahá’í trúna hefur slíkum tilraunum aldrei tekist að skapa annað en tímabundnar deilur sem hafa orðið til þess að dýpka skilning samfélagsins á markmiðum Bahá’u’lláh og hollustunni við Hann. „Svo öflugt er ljós einingar,“ segir Bahá’u’lláh við þá sem hafa viðurkennt Hann, „að það getur lýst upp gjörvalla jörðina.“ Með hliðsjón af mannlegu eðli er sú framsýni Verndarans vel skiljanleg að þetta hreinsunarferli haldi lengi áfram að vera þáttur í þroska bahá’í samfélagsins, hversu þverstæðukennt sem það kann að hljóma.
Eðlileg afleiðing af trúleysi er lömun þeirrar hæfni að geta ráðist gegn vandamáli hins illa, eða jafnvel oft að viðurkenna tilvist þess. Bahá’íar eigna hið illa ekki einhverri hlutlægri tilvist eins og gert var á fyrri stigum trúarsögunnar. Hið illa er skortur á hinu góða, líkt og myrkur er skortur á ljósi. Það boðar fáfræði eða sjúkdóm og hefur alvarlega fötlun í för með sér. Nýútkomnar bækur bjóða oft menntuðum lesendum upp á margs konar hugmyndaríkar greiningar á einhverju þeirra skrímsla í mannsmynd sem á tuttugustu öldinni kerfisbundið pyntuðu, niðurlægðu eða útrýmdu milljónum meðbræðra sinna. Fræðimenn bjóða okkur að kanna að hve miklu leyti þetta er að kenna misbeitingu sem þeir urðu fyrir í foreldrahúsum, félagslegri höfnun, vonbrigðum í atvinnu, fátækt, óréttlæti, stríðsreynslu, hugsanlegum erfðagöllum, níhilískum bókmenntum – eða samblandi alls þessa – í viðleitni sinni til að skilja þráhyggjuna sem var að baki botnlausu hatri þeirra á mannkyninu. En þessar hugleiðingar samtímans nefna ekki andlegan sjúkdóm sem reyndir skýrendur fyrri tíma hefðu séð, hver svo sem önnur einkenni hans voru.
Ef eining er lakkmús-prófun á mannlegar framfarir mun hvorki sagan né himininn fyrirgefa þeim sem auðveldlega ráðast gegn henni. Þegar fólk treystir öðrum setur það ekki upp varnir og opnar sig fyrir öðrum. Ef svo væri ekki gæti það ekki helgað sig heilshugar neinu sameiginlegu markmiði. Ekkert er jafn hræðilegt og að uppgötva skyndilega að skuldbindingar sem gerðar voru í góðri trú hafi ekkert annað gildi fyrir hinn aðilann en að ná forskoti, tæki til að ná leyndum markmiðum sem voru önnur eða jafnvel fjandsamleg þeim sem vinna átti að í sameiningu. Slík svik eru rauði þráðurinn í sögu mannsins og ein fyrsta vísbending þeirra er afbrýðisemi Kains gagnvart bróðurnum sem Guð hafði kosið að staðfesta í trú sinni. Hafi hinar hrikalegu þjáningar sem þjóðir jarðar hafa þolað á 20. öld kennt þeim lexíu er hún sú að sú kerfisbundna óeining sem er arfleifð dimmrar fortíðar og eitraðra tengsla á öllum sviðum mannlífsins gæti á þessari öld opnað dyrnar að djöfullegri hegðun sem er dýrslegri en nokkurn hefði getað látið sig dreyma um.
Eigi hið illa sér nafn er það áreiðanlega meðvitað brot á þeim miklu sáttmálum friðar og samlyndis sem góðviljað fólk gerir sín á milli til að losna úr fjötrum fortíðar og byggja nýja framtíð. Eðli sínu samkvæmt kallar eining á sjálfsfórn. „...ást á sjálfinu,“ segir Meistarinn, „er ásköpuð sjálfum leir mannsins.“ Egóið, sem hann kallar „hið þráláta sjálf“, berst af hreinni eðlishvöt gegn öllu sem það telur takmarka frelsi sitt. Til að hafna af frjálsum og fúsum vilja þeirri fullnægingu sem slíkt frjálsræði veitir verður einstaklingurinn að trúa því að fyllingu sé að finna annars staðar. Að endingu felst hún í undirgefni sálarinnar við Guð eins og hún alltaf hefur gert.
Gefi menn sig ekki slíkri undirgefni á vald hafa afleiðingarnar orðið sérlega skelfilegar í gegnum aldirnar í svikum gegn boðbera Guðs og hugsjónunum sem þeir kenndu. Hér verður ekki rætt um eðli og skilyrði þess sérstaka sáttmála sem Bahá’u’lláh hefur gert til að varðveita einingu þeirra sem viðurkenna Hann og þjóna áformi Hans. Það nægir að benda á hið kröftuga orðfæri sem Hann notar um þá sem vísvitandi brjóta gegn Honum um leið og þeir játa hollustu við Hann: „Þeir sem hafa snúið frá því eru taldir með þeim sem dvelja í hinum neðsta eldi fyrir augliti Drottins þíns, hins almáttuga og óhefta.“ Ástæðan fyrir þessari fordæmingu er augljós. Fæstir eiga í miklum erfiðleikum með að skilja hættuna fyrir félagslega velferð af algengum glæpum eins og morðum, nauðgunum eða fjársvikum né nauðsyn þess að samfélagið verji sig gegn þeim. En hvað eiga bahá’íar að halda um öfughneigð sem myndi tortíma sjálfum tækjunum sem eru nauðsynleg til að skapa einingu yrði henni ekki veitt mótspyrna. Eða með orðum Meistarans, „verða sem öxi sem heggur að sjálfum rótum Hins blessaða trés.“ Vandamálið er ekki vitsmunalegur ágreiningur eða siðferðilegur veikleiki. Margir andæfa einhvers konar valdi eða myndugleika og hverfa að lokum frá þeim aðstæðum þar sem þess er krafist. Fólk sem hefur laðast að bahá’í trúnni en ákveður síðan einhverra hluta vegna að yfirgefa hana er það fullkomlega frjálst.
Fullkominn eðlismunur er á þessu og sáttmálsbrotum. Tilgangur sáttmálsbrjóta er ekki aðeins að fá frelsi til að leita persónulegrar fyllingar eða gagns fyrir samfélagið. Öllu fremur eru slíkar persónur reknar áfram af, að því er virðist, óstjórnlegri löngun og einbeittum vilja til að þröngva sínum vilja upp á samfélagið hvað sem það kostar, án tillits til þess tjóns sem það veldur og án virðingar fyrir því alvarlega verkefni sem þeir tókust á hendur þegar þeir gerðust meðlimir samfélagsins. Að lokum verður egóið hið endanlega vald, ekki aðeins í lífi einstaklingsins, heldur allra annarra sem því tekst að hafa áhrif á. Eins og löng og dapurleg reynsla sýnir með fullri vissu er hægt að virkja göfugt ætterni, vitsmuni, menntun, guðrækni eða félagslega forystuhæfileika til þjónustu við mannkynið eða persónulegan metnað. Á liðnum öldum þegar andleg forgangsmál annars eðlis voru miðpunktur guðslegs áforms, spilltu afleiðingar slíkrar uppreisnar ekki fyrir miðlægum boðskap hinna opinberuðu trúarbragða Guðs. Í dag með þeim gríðarlegu tækifærum og skelfilegu hættum sem efnisleg eining plánetunnar hefur haft í för með sér verður skuldbinding við þarfir einingar prófsteinn á þá sem játa hollustu við vilja Guðs eða velferð mannkyns.
Öll saga bahá’í málstaðarins hefur gert hann hæfan til þess að mæta þeim áskorunum sem við honum blasa. Jafnvel á þessum fyrstu stigum í þróun hans og þrátt fyrir takmarkaðar auðlindir á bahá’í starfsemin fyllilega skilið þá virðingu sem hún hefur áunnið sér. Þeir sem standa fyrir utan þurfa ekki að viðurkenna tilkall málstaðarins til guðlegs uppruna til að virða það sem gert hefur verið. Eingöngu sem þessa heims fyrirbrigði réttlæta eðliseigindir og afrek bahá’í samfélagsins athygli allra þeirra sem láta sig varða kreppu siðmenningar vegna þess að þau eru vitnisburður um að þjóðir heims í öllum sínum fjölbreytileika geta lært að lifa og starfa saman og finna fyllingu sem einn ættstofn í einu hnattvíðu heimalandi.
Þessi staðreynd undirstrikar mikilvægi stigbundinna áætlana Allsherjarhúss réttvísinnar um útbreiðslu og treystingu trúarinnar. Fólk utan trúarinnar á fullan rétt á að samtök fólks sem hefur heilshugar lýst yfir fylgi við þá einingarsýn sem birtist í ritum Bahá’u’lláh muni kröftuglega og í auknum mæli leggja sitt af mörkum til áætlana um þjóðfélagslegar umbætur sem eiga framgang sinn undir afli einingar. Viðbrögð við þessum væntingum útheimta aukinn vöxt og viðgang bahá’í samfélagsins bæði hvað varðar mannauð og efnisleg meðöl fyrir þetta starf. Þau útheimta að sú hæfni sem gerir okkur kleift að koma að gagni í samstarfi við samtök og félög sem við eigum samleið með verði enn fjölbreyttari. Samfara þjóðfélagslegum markmiðum starfsins verður að vera skilningur á löngun milljóna jafn einlægra karla og kvenna, sem þekkja ekki til ætlunarverks Bahá’u’lláh en eru innblásin af mörgum hugsjónum þess, til að fá tækifæri til að inna af hendi þjónustu í lífi sínu sem hefur varanlega þýðingu.
Sú menning kerfisbundins vaxtar sem er að festa rætur í bahá’í samfélaginu gæti því virst áhrifaríkasta svarið við þeim áskorunum sem hér er fjallað um. Þegar við sökkvum okkur hnitmiðað og stöðugt í nám og lestur hins skapandi orðs leysir það okkur smám saman úr greipum efnislegra hugmynda – sem Bahá’u’lláh nefnir „óbeinar tilvísanir frá holdtekjum djöfullegrar ímyndunar“ – hugmynda sem gegnsýra þjóðfélagið og lama breytingaröflin. Þetta þroskar með okkur hæfni til stuðla að því að einingin sem vinir okkar og kunningjar þrá finni sér þroskaðan og vitrænan farveg. Eðli grunnþáttanna í núverandi áætlun – barnakennsla, helgistundir og námshringir – gerir vaxandi hópi fólks sem ekki lítur á sig enn sem bahá’ía kleift að taka þátt í þessu starfi. Afleiðingin er sú að til hefur orðið það sem með réttu má nefna „áhugasamfélag“. Þegar aðrir njóta gagns af þátttökunni og byrja að samkenna sig markmiðum málstaðarins sýnir reynslan að þeir hneigjast til þess að verða virkir þátttakendur í ætlunarverki Bahá’u’lláh. Burtséð frá öðrum markmiðum áætlunarinnar hefur heilshugar framkvæmd hennar möguleika á því að styrkja mjög framlag bahá’í samfélagsins til almennrar umræðu um þau málefni sem brenna heitast á mannkyninu.
Ef bahá’íar eiga að uppfylla það umboð sem Bahá’u’lláh veitti þeim er nauðsynlegt að þeir skilji að kennslustarfið og þjóðfélagslegt umbótastarf útiloka ekki hvort annað og keppa ekki um athygli okkar. Þetta eru öllu fremur þættir sem uppfylla hvorn annan í einni samfelldri hnattrænni áætlun. Munur á nálgun ákvarðast aðallega af þeim mismunandi þörfum og leitarstigum sem mæta vinunum. Þar sem frjáls vilji er sálinni áskapaður verður hver sá sem finnur hjá sér hvöt til að kynna sér kenningar Bahá’u’lláh að finna sinn eigin stað í andlegri leit sem engan endi tekur. Hann verður að ákveða með sjálfum sér og án utanaðkomandi þrýstings hvaða andlega ábyrgð hún felur í sér. Til þess að geta notfært sér þetta frelsi á vitrænan hátt verður hann að fá sýn á breytingarferlið sem hann sjálfur og allir aðrir eru staddir í og öðlast skýran skilning á þýðingu þess fyrir sitt eigið líf. Það er skylda bahá’í samfélagsins að gera allt sem í þess valdi stendur til að aðstoða framrás mannkynsins á öllum stigum í átt til endurfunda við Guð. Guðleg áætlun Meistarans er það tæki sem þetta verk er unnið með.
Hversu mikilvæg sem eining trúarbragðanna er verður það ekki verkefni samtrúarhreyfingarinnar að flytja boðskap Bahá’u’lláh. Hugurinn leitar vitrænnar vissu en sálin þráir andlega fullvissu. Slík innri fullvissa er endanlegt markmið allrar andlegrar leitar hversu hægt eða hratt sem henni kann að miða. Fyrir sálina eru trúskipti ekki tilviljanakenndur þáttur í könnun andlegra sanninda heldur miðlægt málefni sem fyrr eða síðar verður að takast á við. Það er engin tvíræðni í orðum Bahá’u’lláh um þetta mál og getur ekki heldur verið það í hugum þeirra sem leitast við að þjóna Honum: „Sannlega segi ég, þetta er dagurinn þegar mannkynið getur litið ásjónu og heyrt raust hins fyrirheitna. Kall Guðs hefur hljómað og ljós ásýndar Hans hefur runnið upp yfir mennina. Það sæmir sérhverjum manni að afmá sérhvern vott ónytjuorða af töflu hjarta síns og horfa með opnum og fordómalausum huga á tákn opinberunar Hans, sannanirnar fyrir ætlunarverki Hans og vegsummerki dýrðar Hans.“
Eitt af einkennum nútímans er allsherjarvakning sögulegrar meðvitundar. Afleiðing af þessari byltingarkenndu breytingu, sem gerir kenningu og boðskap Bahá’u’lláh enn áhrifameiri, er hæfni fólks sem fær tækifæri til þess að skilja að helgir textar alls mannkyns setja hið mikla hjálpræðisverk í ákveðið sögulegt samhengi. Á bak við líkingar og dæmisögur helgiritanna starfar trúin ekki sem töfrasproti heldur er hún þróunarferli sem stefnir að fyllingu í jarðneskum heimi sem Guð hefur skapað í þeim tilgangi.
Að þessu leyti tala textarnir einni röddu: markmið trúarinnar er „uppskerutíminn“, tíminn þegar það verður „ein hjörð og einn hirðir“; hinn mikli tími þegar „jörðin mun skína af dýrð Drottins síns“ og vilji Guðs verða „svo á jörðu sem á himni“; „hinn fyrirheitni dagur“ þegar „borgin helga“ mun stíga niður „af himnum frá ... Guði“, þegar „fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma“, þegar Guð mun krefjast svara við spurningunni „hvernig getið þér fengið af yður að fótum troða lýð minn og merja sundur andlit hinna snauðu“; dagurinn þegar helgiritin sem hafa verið „innsigluð allt til loka“ verða opnuð og endurfundirnir við Guð verða í „nýju nafni, er munnur Drottins mun ákveða“; tími sem er án nokkurra fordæma í sögu mannanna, huga þeirra og tungumáls: „líkt og Vér sköpuðum hina fyrstu sköpun, munum Vér skapa nýja: þetta er loforð sem Vér höfum gefið, vissulega munum Vér efna það.“
Yfirlýstur tilgangur með spámannlegum opinberunum sögunnar er því ekki að leiða einstaka leitendur inn á braut persónulegs hjálpræðis heldur að undirbúa alla fjölskyldu mannsins undir hinn mikla heimsslitaatburð sem er fram undan og sem mun gjörbreyta öllu lífi heimsins. Opinberun Bahá’u’lláh er hvorki spámannleg opinberun né undirbúningsverk. Hún er nákvæmlega þessi atburður. Fyrir hennar áhrif er það volduga verkefni að leggja grundvöllinn að ríki Guðs farið af stað og íbúar jarðar hafa fengið þrótt og hæfni til að takast það á hendur. Þetta ríki er allsherjarsiðmenning sem byggist á meginreglum félagslegs réttlætis og auðgast af afrekum hugar og anda sem eru ofar öllum skilningi þessarar aldar. „Þetta er sá dagur,“ segir Bahá’u’lláh, „þegar ágætustu gjöfum Guðs hefur verið úthellt yfir mennina og almesta náð Hans umvafið allt sem skapað er..... Brátt verður ríkjandi skipulag brotið saman og nýtt breitt út í þess stað.“
Þjónusta við markmiðið kallar á skilning á þeim grundvallarmuni sem er á ætlunarverki Bahá’u’lláh og pólitískum og hugmyndafræðilegum verkum manna. Siðferðilega tómarúmið sem framkallaði hrylling 20. aldar sýndi að mannshugurinn er kominn að ystu mörkum þess sem hann einn og óstuddur getur lagt af mörkum til að þróa fullkomið þjóðfélag, hversu mikill efnislegur auður sem honum stendur til boða. Þjáningarnar sem voru þessu samfara hafa sett óafmáanlegt mark á meðvitund þjóða jarðar. Sjónarhorn trúarinnar á framtíð mannkynsins á því ekkert sameiginlegt með kerfum fortíðar og tiltölulega litla með kerfum nútíðar. Hún höfðar til raunveruleika í erfðamengi hinnar skynigæddu sálar, ef svo má að orði komast. Jesús kenndi fyrir tvö þúsund árum að himnaríki sé „hið innra“ með manninum. Dæmisögur Hans um „víngarðinn“ og „sæði sem féll í góða jörð“ um „gott tré [sem] ber góðan ávöxt“ fjalla um möguleika mannkynsins sem Guð hefur nært og agað frá upphafi sem æðsta markmið sköpunarinnar. Áframhaldandi þolinmóð ræktun er það verkefni sem Bahá’u’lláh hefur falið einlægum fylgjendum sínum. Ekki að furða þótt Hann noti háleitt orðfæri til að lýsa slíkum forréttindum: „Þér eruð stjörnur á himni skilnings, andvari morgunsins, lygn straumvötn sem allt mannlíf er háð.....“
Þetta ferli ber í sér fullvissuna um eigin uppfyllingu. Fyrir þá sem hafa augu að sjá er ný sköpun alls staðar að koma í ljós á sama hátt og sprotinn verður með tímanum að tré sem ber ávexti eða barnið sem vex og fullorðnast. Trúarbrögð hins ástríka og stefnufasta skapara hafa fært jarðarbúa að þröskuldi fullþroska sem eina þjóð. Bahá’u’lláh kallar nú mannkynið til arfleifðar sinnar: „Það sem Drottinn hefur ákvarðað sem æðsta læknisdóminn og máttugasta meðalið til græðingar alls heimsins er eining allra þjóða hans í einum allsherjar málstað, einni sameiginlegri trú.“
Ein sameiginleg trú
Hér vísar Bahá’u’lláh til fornrar persneskrar og arabískrar sögu um Majnún og Laylí, Leitandinn á vegi Guðs: Úrval úr dulhyggjuritum Bahá’u’lláh, (Bahá’í útgáfan, Reykjavík, 2019), bls. 6.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, (Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Íslandi, Reykjavík, 1998), kafli LXI.
Tablets of Bahá’u’lláh revealed after the Kitáb-i-Aqdas (Wilmette: Bahá’í Publishing Trust, 1988), bls. 27.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli XVII.
Bahá’u’lláh, Epistle to the Son of the Wolf (Wilmette: Bahá’í Publishing Trust, 1988), bls. 133.
Bahá’u’lláh, Bók fullvissunnar, (Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Íslandi, Reykjavík, 1994), málsgrein 216.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli XXII.
Bahá’í bænir, (Bahá’í útgáfan, Reykjavík, 2016), bls. 224.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli XXVII.
Julian Huxley, tilvitnun - Pierre Teilhard de Chardin, The Phenomenon of Man (London: William Collins Sons & Co. Ltd., 1959), bls. 243. Sjá einnig Julian Huxley, Knowledge, Morality, and Destiny (New York: Harper & Brothers, 1957), bls. 13.
Shoghi Effendi, The World Order of Bahá’u’lláh: Selected Letters (Wilmette: Bahá’í Publishing Trust, 1991), bls. 35.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli LXXVII.
Bahá’u’lláh, Bók fullvissunnar, málsgrein 4.
Matteusarguðspjall 13.25.
Kóraninn, súra 7, vers 33.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli XCVIII.
The Summons of the Lord of Hosts: Tablets of Bahá’u’lláh (Haifa: Bahá’í World Centre, 2002), málsgrein 126.
Bahá’u’lláh, tilvitnun Shoghi Effendi, Guðlegt réttlæti í nánd, (Bahá’í útgáfan, Reykjavík, 2012), bls. 84.
Kóraninn, súra 3, vers 73.
Sama rit, súra 2, vers 177.
Jóhannesarguðspjall 14.6.
Kóraninn, súra 24, vers 35.
Jóhannesarguðspjall 5.45-47.
Kóraninn, súra 2, vers 136.
The Promulgation of Universal Peace: Talks Delivered by ‘Abdu’l‑Bahá during His Visit to the United States and Canada in 1912, revised edition (Wilmette: Bahá’í Publishing Trust, 1995), bls. 326.
Jóhannesarguðspjall 1.10.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli CVI.
Abraham Lincoln, tilvitnun - Inaugural Addresses of the Presidents of the United States (Washington, D.C.: U.S. Government Printing Office, 1989).
Kóraninn, súra 21, vers 104.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli CLV.
Shoghi Effendi, The World Order of Bahá’u’lláh, bls. 204.
Bahá’u’lláh, tilvitnun Shoghi Effendi, The World Order of Bahá’u’lláh, bls. 192.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli CVI.
Tablets of Bahá’u’lláh, bls. 129.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli CX.
Bahá’u’lláh, tilvitnun Shoghi Effendi, Guðlegt réttlæti í nánd, bls. 89.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli CXXXII.
‘Abdu’l‑Bahá, The Secret of Divine Civilization (Wilmette: Bahá’í Publishing Trust, 1990), bls. 96.
Selections from the Writings of ‘Abdu’l‑Bahá (Haifa: Bahá’í World Centre, 1997), bls. 256.
Bahá’u’lláh, úr áður óþýddri töflu.
Will and Testament of ‘Abdu’l‑Bahá (Wilmette: Bahá’í Publishing Trust, 1944), bls. 25.
Bahá’u’lláh, Bók fullvissunnar, málsgrein 213.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli VII.
The Summons of the Lord of Hosts, málsgrein 126.
Jóhannesarguðspjall 10.16.
Kóraninn, súra 39, vers 69.
Kóraninn, súra 85, vers 2.
Kóraninn, súra 21, vers 104.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli IV.
Matteusarguðspjall 21.33.
Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, kafli XCVI.